*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Örn Arnarsson
29. júlí 2018 10:40

Land til sölu

Af fjölmiðlum að dæma hefur mikil geðshræring gripið landsmenn sökum þess að útlendingar hafa fest kaup á jörðum í hinum dreifðari byggðum.

Haraldur Guðjónsson

Af fjölmiðlum að dæma hefur mikil geðshræring gripið landsmenn sökum þess að útlendingar hafa fest kaup á jörðum í hinum dreifðari byggðum. Stjórnmálamenn og álitsgjafar hafa hlaupið til handa og fóta og krafist þess að þessi kaup verði takmörkuð með einhverjum hætti. Áhugaverðasta innleggið í þeim efnum er hugmyndin um að ef útlendingur kaupir jörð á Íslandi verði honum gert skylt að gerast sauðfjárbóndi í hjáverkum ellegar klæðast kraftgalla og rukka erlenda ferðamenn fimm hundruð krónur fyrir að fá að glápa á fjöll, fossa og flugvélaflök.

Þegar flett er í gömlum blöðum á vefnum tímarit.is – Google okkar framsóknarmanna – sést reyndar að margir Íslendingar setja sig almennt á móti því að aðrir en bændur eigi jarðir. Þannig má lesa um miklar áhyggjur af því að Íslendingar sem ekki störfuðu við landbúnað væru að kaupa jarðir á árunum fyrir 2008. Verst þótti þá þegar efnað fólk keypti jarðir og borgaði fyrir þær gott verð.

Þrátt fyrir þessar skoðanir er erfitt að sjá hvaða máli þjóðerni skiptir þegar það kemur að eignarhaldi á jörðum. Hættan á því að erlendir eigendur taki upp á að flytja jarðirnar úr lögsögunni eða segi sig úr lögum við Ísland og stofni einhver flippuð fríríki er hverfandi. Hafi þeir ekki áhuga á að yrkja jarðirnar á það ekki að leiða til framboðsskorts á matvælum: frjáls viðskipti leysa það mál.

Þá bendir ekkert til þess að útlendingar séu þaulsetnari á jarðnæði eða langlífari en Íslendingar. Má í því samhengi benda á að fjöldi útlendinga er með jarðir sínar hér á landi á sölu um þessar mundir og stendur Íslendingum til boða ásamt öðrum fyrir tilsett verð. Jarðir hafa allar götur gengið kaupum og sölum á Íslandi og það mun ekki breytast við það að útlendingar eigi þær um hríð. 

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.