*

föstudagur, 16. apríl 2021
Óðinn
18. nóvember 2020 07:20

Landakot og sveitarfélögin

Óðinn skrifar um COVID-19 hópsýkingu á Landakoti og sveitarfélögin.

Haraldur Jónasson

Í vikunni var því haldið fram í fréttum að spítalanum hefðu orðið á þau mistök að hólfaskipta ekki starfseminni. Þetta voru ekki mistök enda hafði hólfaskipting verið könnuð. Mönnun leyfði hins vegar ekki slíkt. Þannig fara saman tvær stórar áskoranir, húsnæði og mönnun. Að viðhafa fullkomnar smitvarnir við svo knappar aðstæður er mjög krefjandi og ekkert má út af bera.

Páll Matthíasson,

forstjórapistill 30. október 2020

Hópsmitið sem kom upp á Landakoti fyrir þremur vikum er alvarlegasta tilfellið sem komið hefur upp vegna COVID-19. Landakot er sá staður þar sem elstu og veikustu sjúklingar Landspítalans dvelja.

Það er aumkunarvert hjá forstjóranum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að segja að mönnun hafi ekki leyft hólfaskiptinu og húsnæði hafi ekki verið nægjanlega gott. Það liggur fyrir að fjölmörgum aðgerðum hefur verið frestað og fram að hópsmitinu á Landakoti var fremur rólegt á Coviddeild spítalans. Hvers vegna voru starfsmenn ekki færðir milli bygginga - færðir á þá staði sem þörf var á þeim? Sat þetta fólk aðgerðalaust á sama tíma og það vantaði mannskap á Landakot?

* * *

Það hefur ítrekað komið fram að einkareknar læknaþjónustur hafi boðið Landspítalanum húsnæði til afnota en spítalinn ekki einu sinni svarað boðunum. Eitt þeirra er Klínikin í Ármúla. Skortur á húsnæði eru því ekki nokkur rök í málinu og Óðinn vill ekki trúa því að andúð Svandísar Svavarsdóttur og forsvarsmanna Landspítalans á einkarekstri hafi haft áhrif ákvarðanatökuna.

Afleiðingin af hópsmitinu er skelfileg. Dauðsföllum hefur fjölgað mikið og langflest þeirra má rekja til Landakots. Auðvitað er þetta ekki hinum almenna starfsmanni á Landspítalanum að kenna. En þetta eru stjórnendamistök og stjórnendur spítalans þurfa að axla ábyrgð. Fyrsta skrefið í því að er auðvitað að óháð rannsókn fari fram og þá er Óðinn ekki að tala um rannsókn líka þeirri sem fór fram í Plastbarkamálinu - sem var auðvitað vandræðalegur brandari fyrir spítalann og Háskóla Íslands.

Óðinn hefur reyndar af því áhyggjur - og er þess reyndar fullviss - að stjórnunarvandi á spítalanum sé verulegur og viðvarandi.

* * *

Í febrúar skiluðu tveir sænskir sérfræðingar skýrslu til heilbrigðisráðherra um fráflæðisvanda bráðamóttöku Landspítalans. Þeir lýstu stöðunni svo að um væri að ræða „króníska katastrófu" og viðbrögð stjórnunarteymis spítalans hafi til þessa frekar markast af því að benda á annað sem þurfi að laga í heilbrigðiskerfinu frekar en að grípa til beinna aðgerða innan spítalans til að takast á við vanda bráðamóttökunnar.  Í skýrslunni segja þeir að Landspítalinn hafi látið eins og hann sé fórnarlamb fremur en hluti vandamálsins og það sé „mjög hættulegt". 

Það er því alltaf línudans að reka spítala. Viðfangsefnin eru óþrjótandi, íbúum fjölgar, þjóðin eldist, fleiri ferðamenn koma til landsins og nýjungar og tækniframfarir gera okkur kleift að veita þjónustu sem við áður gátum ekki veitt. Allt kostar þetta peninga sem eru takmarkaðir. Verkefnið er því að þjóna sjúklingum sem best og á sama tíma að halda rekstrinum innan fjárheimilda.

Páll Matthíasson,

forstjórapistill 25. október 2019

Það er hárrétt hjá forstjóranum að rekstur spítala er línudans. Reyndar á það við um allan rekstur og það er ekki til sá rekstur þar sem staðan er ekki þannig. Ekki síst í dag í mestu kreppu sem riðið hefur yfir Ísland í meira en eina öld.

Þegar rekstrarframlög ríkisins eru skoðuð frá árinu 2010 sést vel að framlög ríkisins hafa aukist mikið á tímabilinu. Það sést einnig að framlögin hafa hækkað langt umfram íbúafjölgun. Ýmsar ástæður eru fyrir því, meðal annars gríðarleg hækkun launa á spítalanum.

Það gengur því ekki fyrir forstjóra Landspítalans stöðugt að kveinka sér undan verkefni sínu. Ef hann telur sig ekki ráða við það vegna þess að það er svo stórt og flókið hlýtur hann að þurfa að finna sér eitthvað annað að gera.

* * *

Sveitarfélögin og Covid

Kristrún Frostadóttir aðalhagfræðingur Kviku banka, mætti í viðtal til Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisand um miðjan síðasta mánuð. Þar ræddi hún stöðu sveitarfélaga, þau vanti 50 milljarða á næstu tveimur árum og allt að 150 milljarða króna fram til 2025.

Í þættinum sagði hagfræðingurinn m.a.:

„Mér hefur þótt mikilvægt að koma uppbyggilegri umræðu af stað um fjármál sveitarfélaganna, því staðreyndin er sú að þau hafa ekkert verið svona hræðilega illa rekin síðustu ár. Auðvitað má alltaf gera eitthvað betur, en guð minn góður, það má örugglega gera það líka hjá ríkissjóði."

Það er alveg rétt að það er ekki nægjanleg umræða um fjármál sveitarfélaga á Íslandi og það er auðvitað betra ef tekst að hafa hana uppbyggilega. En Óðinn er ósammála staðhæfingu Kristrúnar að sveitarfélögin hafi ekki verið hræðilega illa rekin. Þau hafa nefnilega mörg hver verið mjög illa rekin. Í þeim skilningi að mörg þeirra hafa aukið skuldir sínar verulega þrátt fyrir að tekjur þeirra hafi vaxið gríðarlega frá hruninu 2008. Það er ekki nokkur vafi á því að Reykjavíkurborg fer fremst í flokki þeirra sveitarfélaga sem hafa aukið skuldir sínar á þessum góðæristímum. Kristrún man ef til vill eftir Braggamálinu en endurbygging hans kostaði 415 milljónir íslenskra króna. Það er auðvitað ekkert annað en sturlun. En þetta er aðeins lítið dæmi.

* * *

Óðinn er þess fullviss að hann gæti gefið út heilt Viðskiptablað í fullri lengd sem aðeins fjallaði um sóun hjá sveitarfélögunum. Þar kæmu sum þeirra vel út og önnur illa. 

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.