Ég velti því upp hér á sama stað fyrir nokkrum vikum hvernig of háar tekjur íþróttamanna geta haft neikvæð áhrif á eldmóð þeirra og afköst.

Ef við snúum blaðinu við þá getur of lítið fjármagn til íþróttamanna komið í veg fyrir að þeir nái tilsettum árangri. Staðreyndin er að við Íslendingar eigum fullt af frábæru og hæfileikaríku íþróttafólki.

Ég las nýlega góða grein á erlendri vefsíðu þar sem fagaðilar veltu því fyrir sér hvernig stæði á því að Íslendingar ættu fimm konur á topp 10 í undanrásum Evrópuleikanna í Cross Fit. Í undanrásum eru nokkur þúsund þátttakendur og árangurinn því einstakur.

Genin, hugarfarið og sú staðreynd að íþróttaiðkun er okkur í blóð borin var meðal þess sem helst bar á góma og nefnt sem möguleg ástæða þessa frábæra árangurs. Hugarfarið vegur þarna þungt að mínu mati, ekki síst í ljósi þess að við lifum á margan hátt við harðari aðstæður en margar þjóðir, þ.e. myrkur, kulda og erfiðar æfingaaðstæður stóran hluta af árinu.

Í ljósi þess hvað við eigum mikið af kraftmiklum íþróttamönnum þykir mér afar miður að vita til þess að einstaklingar sem valdir eru til að keppa fyrir hönd þjóðarinnar þurfi að safna sér fyrir ferðum og uppihaldi sjálfir. Hvernig getur það talist eðlilegt? Hafa stjórnvöld ekki meiri metnað fyrir hönd þjóðarinnar á sviði íþrótta? Sjálfur þekki ég þetta af eigin raun þar sem sonur minn hefur verið valinn til að keppa fyrir Íslands hönd á móti í Svíþjóð nú í apríl. Flug og uppihald kostar um 150.000 kr. á hvert barn. Hann fær þó landsliðsbúninginn lánaðan á meðan á keppninni stendur!!!