*

fimmtudagur, 28. október 2021
Óðinn
9. júní 2015 18:30

Landspítalinn og 101 milljarður

Skoða þarf stað­hæfingar samtaka um betri spítala að 101 milljarður sparist að núvirði sé spítalinn byggður í nágrenni Elliðavogs.

Haraldur Jónasson

Um aldamótin síðustu voru Ríkisspítalarnir og Borgarspítalinn sameinaðir. Í kjölfarið hófust umræður um byggingu framtíð­ arhúsnæðis fyrir Landspítala. Þær hugmyndir fengu pólitískt brautargengi þegar Davíð Oddsson utanríkisráðherra lýsti því yfir á stjórnmálafundi í janúar 2005 að hann teldi koma til greina að hagnaður af sölu Símans yrði notaður til þess að byggja nýtt sjúkrahús.

***

Harpan byggð, en ekki spítali

Fjárkreppan sem hófst fyrir alvöru sumarið 2008 stöðvaði fyrirhugaða byggingu. Það er til marks um óskiljanlega forgangsröðun hins opinbera, oft á tíðum, að á meðan áform um byggingu spítala voru lagðar til hliðar var haldið áfram með byggingu tónlistarhússins Hörpunnar. Reyndar voru framkvæmdir við Hörpu stöðvaðar í nokkra mánuði en hófust aftur í mars 2009. Þá ákvörðun tóku ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar með Katrínu Jakobsdóttur, þáverandi menntamálaráð­ herra, í broddi fylkingar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi borgarstjóra, fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Um 10 milljörðum króna hafði verið varið í bygginguna þegar framkvæmdir stöðvuðust, en kostnaðurinn nam um 20 milljörðum króna eftir það tímamark, tæplega helmingurinn af kostnaði við nýjan spítala. Að auki réðst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í byggingu Vaðlaheiðarganga fyrir a.m.k. 12 milljarða, líklega verður fjárhæðin mun hærri. Helstu stuðningsmenn þessarar alvitlausustu ríkisstjórnar Íslands mótmæla nú á Austurvelli og vilja að meiri fjármunum sé varið til heilbrigðismála.

***

Hægrimenn eru stundum sakaðir um að snúa út úr, þegar þeir spyrja hvort skipti meira máli: Að fjármagna almenna heilbrigðisþjónustu með almannafé eða menningarmál. Eftir bankahrunið stóð vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frammi fyrir nákvæmlega þessari spurningu og forgangsröðunin var skýr. Landspítalinn sat á hakanum, en tónlistarhöllin var byggð.

***

Gríðarlegar skuldir

Þó svo að mikið hafi birt til í efnahagsmálum Íslands að undanförnu þá er rétt að halda því til haga að skuldir ríkissjóðs eru ekki undir 2.100 milljörðum króna og afgangur af rekstrinum í besta falli smá­ vægilegur á þessu ári. Kostnaður við nýjan Landspítala við Hringbraut er áætlaður 57,4 milljarðar. Eins og Óðinn fjallaði um í síðustu viku, er líklegra að það frjósi í helvíti heldur en að sú áætlun standist. Samtök um betri spítala birtu fyrir nokkrum dögum yfirlit yfir „Fjárhagslegan ávinning af betri staðsetningu Landspítalans“. Þeir útreikningar hafa verið yfirfarnir af endurskoðunarfyrirtækinu KPMG.

***

Hringbraut dýrasti kosturinn

Samkvæmt yfirlitinu kostar 1,8 millj­ örðum minna að byggja nýjan spítala í Fossvogi og 4,6 milljörðum minna ef hann yrði byggður við Elliðavog. Útreikningar samtakanna sýna að fjárfesting í umferðarmannvirkjum yrði 15 milljörðum lægri við Elliðavog. Árlegur rekstrarkostnaður yrði 1 milljarði lægri við Elliðavog en Hringbraut samkvæmt yfirlitinu, auk þess sem hagræði notenda þjónustu spítalans er metið á 3,1 milljarð ef hann er við Elliðavog. Að mati samtakanna er núvirt hagræði af byggingu nýs spítala við Elliðavog 101,9 milljarðar króna og 63,3 ef hann yrði byggður í Fossvogi, í samanburði við að byggja á Hringbraut.

 

 

Rangfærslur ráðherra

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hélt ávarp á ársfundi Landspítalans í lok apríl. Þar sagði Kristján: „Ef einhver skyldi velkjast í vafa um hvar nýbyggingar Landspítala munu rísa get ég upplýst um það hér að í mínum huga er það ekki nokkur spurning, það verður við Hringbraut. Staðarvalið hefur verið skoðað og endurskoðað þrisvar sinnum. Árið 2002 skilaði fyrsta nefndin um framtíðarskipulag LSH áliti sínu og á grundvelli þess tóku stjórnvöld ákvörðun um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Aftur var komist að sömu niðurstöðu árið 2004. Árið 2008 skilaði nefnd um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana greinargerð til heilbrigðisráðherra eftir að hafa skoðað byggingastaði eins og Fossvog, Vífilsstaði og Hringbraut, auk nýs valkosts í landi Keldna. Enn á ný var niðurstaðan sú að Hringbraut væri besti kosturinn.“

***

Endurskoðun fór ekki fram

Það er rangt hjá ráðherranum að halda því fram að staðarvalið hafi verið skoðað og endurskoðað þrisvar sinnum. Greinargerð nefndarinnar frá 2008 getur ekki með nokkru móti flokkast undir endurskoðun. Umfjöllunin um staðsetninguna er aðeins tæpar tvær síður að lengd af fjórum og hálfri síðu. Þar er engin samanburðargögn að finna og ekki gerð minnsta tilraun til að meta hagkvæmni mismunandi kosta. Það er í raun viðurkennt í niðurlagi kaflans um staðarvalið sem nefnist „Staðsetning nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut“. Þar segir: „Þó svo að eflaust væri hægt að finna annan stað á höfuðborgarsvæðinu sem til greina gæti komið fyrir háskólasjúkrahús er jafnframt ljóst að uppbygging á nýjum stað myndi hafa í för með sér verulega töf á verkinu og undirbúningsvinna og kostnaður við hana myndi að miklu leyti tapast.“ Þarna eru höfundar greinargerðarinnar í raun að viðurkenna að vel megi vera að hægt sé að finna betri stað fyrir nýjan spítala. Það er einnig mikið umhugsunarefni hvers vegna heilbrigðisráðuneytið neitaði að afhenda samtökunum um betri spítala greinargerðina úr því að ráðherrann telur hana vera slíkt grundvallargagn.

***

Forsendur staðarvals brostnar?

Óðinn telur að fjárhagsleg rök í málinu vegi þyngst, enda ríkissjóður mjög skuldsettur eins og fram kom hér á undan. Hins vegar eru fleiri þættir í málinu. Margir hafa gagnrýnt að nýr spítali rísi í miðborg Reykjavíkur. Hilmar Þór Björnsson arkitekt hefur bent á að forsendur fyrir spítala við Hringbraut séu á margan hátt brostnar. Á bloggi sínu um miðjan maí segir Hilmar: „Forsendur fyrir niðurstöðu skýrslunnar frá árinu 2002 voru m.a. nálægð við flugvöllinn, göng fyrir bifreiðaumferð undir Öskjuhlíð og þaðan undir Kópavog sem tengjast átti Reykjanesbrautinni við Smáralind. Þá var ein af forsendunum, Hlíðarfótur, sem er vegur sem átti að liggja frá Hringbraut vestur og suður fyrir Öskjuhlíð og tengjast þar Kringlumýrarbraut. Engin af þessum samgöngubótum er lengur á aðalskipulagi og auk þess sem höfundar skipulagsins telja að forsenda fyrir uppbyggingu á Hringbrautarlóðinni sé að flugvöllurinn fari. Þeir segja að spítalinn á þessum stað sé óhugsandi ef flugvöllurinn fer ekki. Áður var forsendan að hann yrði kyrr. Svo var áhersla lögð á að staðsetning við Hringbraut mundi styrkja miðborgina ásamt því að mikilvægt var talið að nálægð væri við HÍ. Margir telja nú að nálægðin við HÍ sé ofmetin enda eru einungis um 150 manns sem vinna á báðum stöðunum meðan um 5.000 munu vinna á spítalanum og öll samskipti með öðrum hætti en á árinu 2002. Miðborgin þurfti á stuðningi að halda fyrir 13 árum en þarf þess ekki lengur. Hún er reyndar orðin svo sterk að fólk með meðallaun og minna hefur vart efni á að búa þar lengur.“

***

Ráðherrann á leik

Óðinn skilur áhyggjur þeirra sem telja að bygging nýs spítala geti tafist vegna endurskoðunar á stað­ arvalinu. Það er hins vegar óumflýjanlegt og slík endurskoðun þyrfti ekki að tefja málið nema um nokkra mánuði. Það er óverjandi fyrir heilbrigðisráðherra að láta þá vinnu ekki fara fram. Stað­ hæfingar samtaka um betri spítala að 101 milljarður sparist að núvirði ef spítalinn er byggður í nágrenni Elliðavogs þarf að skoða betur. Einnig vegna þess að forsendur staðarvalsins virðast vera brostnar. Ráðherrann þarf að gæta að því, að þeir sem veljast til verksins hafi ekki komið að því áður og þeir eigi engin tengsl við forystumenn stjórnarflokkanna. Ráð­ herrann vill varla að Landspítalinn verði samskonar slys og varð í hans heimabyggð þegar farið var af stað með Vaðlaheiðargöng.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.