*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Leiðari
3. apríl 2021 16:01

Langhlaup án endamarks

„Það er yfirvalda að stika leiðina allt að endamarkinu og ávinna sér tiltrú í leiðarvali svo hlaupasveitin haldi bæði takti og haus“

Gunnhildur Lind Photography

Í síðustu viku var gripið til hertra sóttvarnaaðgerða til að koma í veg fyrir að ný bylgja veirufaraldurs færi á flug. Ólíkt aðgerðum í upphafi fyrri bylgna var strax gripið í taumana með hörðum takmörkunum í stað þess að herða í skrefum. Af fenginni reynslu er ágætur samhljómur í samfélaginu um þá nálgun og bindur fólk vonir við að með þessu megi stytta þann tíma sem það tekur að koma böndum á útbreiðslu smita, þannig að samfélagið megi sem fyrst komast aftur í fyrra horf.

Í þessu samhengi er gjarnan talað um að „halda þetta út" því við séum á lokametrunum, en sú orðræða hefur bergmálað í samfélaginu um margra mánaða skeið. Aftur á móti virðast markmið aðgerða vera eitthvað á reiki og ómögulegt að ímynda sér hvernig endamark faraldursins lítur út. Þannig hefur heilbrigðisráðherra sagt að við gætum þurft að lifa með takmörkunum jafnvel eftir að hjarðónæmi verður náð. Í upphafi faraldurs var markmiðið skýrt; að verja heilbrigðiskerfið og vernda viðkvæma hópa auk þess sem skýrt var tekið fram að markmiðið væri ekki veirufrítt samfélag. Nú hafa aftur á móti þeir hópar - sem markmiðið var að verja með aðgerðunum - að stærstum hluta verið bólusettir.

Í ljósi þess er eðlilegt að spurningar vakni um hvert markmið sóttvarnaaðgerða er í dag. Ef vernd heilbrigðiskerfis og viðkvæmustu hópa er ekki lengur markmiðið og þess er að vænta að takmarkanir verði enn við lýði eftir að hjarðónæmi hefur verið náð, hvar liggur þá endamark faraldursins og tilheyrandi frelsisskerðinga?

Ef markmiðið er veirufrítt samfélag - sem það virðist vera í dag - þá væri heiðarlegast að segja það bara tæpitungulaust. Slíkt markmið ætti ekki að vera neitt feimnismál, enda ætti að vera hægur leikur fyrir yfirvöld að rökstyðja slíkt. Árangur íslenskra yfirvalda í baráttunni við veiruna hefur vakið heimsathygli og veirufrí ímynd landsins gæti hæglega gagnast í viðspyrnunni sem vonandi er handan við hornið. Slíkt markmið gæti því vel verið eftirsóknarvert.

Í fyrstu bylgju faraldursins voru reglulega kynntar sviðsmyndagreiningar frá vísindafólki innan Háskóla Íslands, embættis landlæknis og Landspítala. Þar mátti sjá spálíkön sem sýndu líkleg áhrif á heilbrigðiskerfið eftir ólíkum sviðsmyndum þróunar faraldursins, til að mynda að ef smitfjöldi náði vissum hæðum þá mátti búast við ákveðið mörgum innlögnum á sjúkrahús og þar af ákveðið mörgum innlögnum á gjörgæslu. Þessi upplýsingamiðlun var gagnleg og jók á skilning fólks um mikilvægi aðgerða og um leið vilja til þess að sýna samstöðu.

Sviðsmyndagreiningar af þessu tagi hafa ekki verið birtar svo mánuðum skiptir, en þær gæti verið mjög fróðlegt að skoða í dag. Viðskiptablaðið myndi gjarnan vilja sjá álíka sviðsmyndagreiningar með tilliti til þess hvernig bólusetningu vindur fram, enda hlýtur það að hafa töluverð áhrif á allar forsendur að viðkvæmustu hópar hafi verið bólusettir og hvernig stigvaxandi hlutfall samfélagsins sem hefur mótefni þróast.

Byggt á þessum sviðsmyndum væri jafnvel hægt að teikna upp endamark þessa langhlaups okkar, það er þær sviðsmyndir sem munu gera okkur kleift að kveðja „ný norm" fyrir fullt og allt og halda á vit eðlilegs hversdagslífs á ný, þannig að mannskapurinn sjái til lands - sjái hvert skref færa okkur nær endamarki faraldursins.

Hver sá sem hefur tekið þátt í langhlaupi veit að slíkt verkefni reynir ekki síður á andlegt úthald en líkamlegt. Þá skiptir miklu máli að ná utan um fílinn og búta hann niður, hlaupa kílómetra fyrir kílómetra og sjá þá vegalengd sem eftir er fara lækkandi við hverja vegvörðu. Það væri þó til þess að æra óstöðugan að vita ekki hvort um sé að ræða 21, 42, 100 eða 300 km hlaup, en þannig virðist einmitt staðan vera í viðureigninni við veiruna. Þannig er víða farið að bera á sóttþreytu og fólk ljóslega orðið kærulausara í persónulegum sóttvörnum og hópamyndunum. Tíu manna samkomutakmörkun kemur ekki í veg fyrir að þúsundir leggi leið sína til þess að standa saman í einum hnappi að dást að eldsumbrotum, þrátt fyrir að öll séum við vel meðvituð um aukna útbreiðslu smita og að einmitt þangað sæki ferðamenn sem að sögn virða ekki reglur um sóttkví.

Vilji yfirvöld að fólk endurheimti einbeitingu sína í langhlaupinu og hafi úthald í lokasprettinn verða þau að varpa ljósi á endamarkið. Þau verða að gefa út skýr markmið og rökstyðja þau, svo fólk átti sig á því hvað sé í húfi. Það er yfirvalda að stika leiðina allt að endamarkinu og ávinna sér tiltrú í leiðarvali svo hlaupasveitin haldi bæði takti og haus, en gefist ekki upp á lokametrunum.

Að þessu gefnu hvetur Viðskiptablaðið yfirvöld til þess að skerpa á markmiðum aðgerða og upplýsingagjöf þar að lútandi til almennings, í þeirri trú að með því beri aðgerðir þeirra aukinn árangur. Einnig er brýnt að yfirvöld gæti meðalhófs og gæti að því að skýrar lagaheimildir séu fyrir sóttvarnaaðgerðum. Sé meðalhófs ekki gætt er hætt við að fleygur sé rekinn í samstöðuna, sem gæti haft áhrif á árangur annarra vægari aðgerða sem hingað til hafa gengið vel.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.