Fyrir tæpu ári síða, í júní í fyrra, var nýr meirihluti myndaður í Reykjavík. Vinstri græn fóru út og Framsókn, með Einar Þorsteinsson í broddi fylkingar kom inn í samstarfið með Samfylkingunni, Viðreisn og Pírötum.

Við þessi tímamót var samstarfssáttmáli borgarinnar kynntur sem og að Dagur B. Eggertsson yrði borgarstjóri út árið 2023 en að eftir það myndi Einar setjast í borgarstjórastólinn. „Ég verða segja fyrir mitt leyti að ég er ákaflega ánægður með þennan sáttmála. Hann svarar að öllu leyti kröfum Framsóknar um breytingar í Reykjavík á næsta kjörtímabili.”

Nú vita hrafnarnir ekki hvaða breytingar Einar var nákvæmlega að tala um en þær snéru allavega ekki að því að bæta fjárhagsstöðuna því hún er í kaldakolum. Í hartnær áratug hefur Dagur siglt skútunni í rólegheitum í strand og loksins þegar hann hættir lætur hann Einar um að draga saman seglin.

Það er smá hrunblær yfir þessu öllu saman. Dagur hættir á hárréttum tíma eins og Bjarni Ármanns gerði forðum daga. Einar er Lárus Welding borgarmálanna og tekur við Nýju Reykjavík. Hrafnarnir velta fyrir sér hver ætli að taka að sér hlutverk Birnu Einarsdóttir þegar fram  sækir í þessu öllu saman.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út miðvikudaginn 19. apríl 2023.