*

fimmtudagur, 13. ágúst 2020
Andrés Magnússon
28. júlí 2019 13:43

Last og lof

Fréttir snúast um að segja satt og rétt frá atburðum, leita heimilda og taka þá tali, sem máli skipta.

Haraldur Guðjónsson

Fyrir 11 árum gerðist sá fáheyrði atburður í íslenskri fjölmiðlasögu, að fréttamaður varð uppvís að því að stinga upp á sviðsetningu fréttar og það í beinni útsendingu. Lára Ómarsdóttir, sem þá var á fréttastofu Stöðvar 2, var þá viðstödd mótmæli atvinnubílstjóra við Rauðavatn, en þegar óþarflega rólegt varð yfir mótmælunum spurði Lára útsendingarstjóra hvort hún ætti að finna einhvern sem væri tilbúinn til að kasta eggi í átt að lögreglunni. Það slapp óvart í útsendinguna líka.

Eftir á sagði hún að hún hefði aðeins verið að gantast við útsendingarstjórn, en sagði eigi að síður aðeins upp störfum eftir mikinn þrýsting, m.a. í þessum dálkum. Í raun gilti einu nákvæmlega hvernig í því lá, skaðinn var skeður, trúverðugleiki hennar varanlega laskaður og trúverðugleiki fréttastofu Stöðvar 2 í stórhættu.

Fréttir snúast um að segja satt og rétt frá atburðum, leita heimilda og taka þá tali, sem máli skipta. Blaða- og fréttamenn eru þar ýmist í hlutverki greinargóðra vitna eða fyrirspyrjenda, en þeir mega ekki vera þátttakendur. Enn síður mega fréttir vera sviðsettar, því þá eru þær ekki fréttir heldur leikrit.

                                            * * *

Þetta er rifjað upp vegna þess að í liðinni viku kom ekki upp ósvipað mál og aftur var það Stöð 2, sem í hlut átti.

Kristín Ýr Gunnarsdóttir fréttamaður fjallaði þá í kvöldfréttum Stöðvar 2 um „grænkera“- mótmæli aðgerðasinna gegn kjötneyslu í Krónunni á Granda, en That Vegan Couple, sem stóð að mótmælunum, sagði berum orðum í ræmu um mótmælin á samfélagsmiðlum að fréttastofa Stöðvar 2 hafi beðið mótmælendur um að endurtaka mótmælin svo hægt væri að ná þeim á upptöku: „Í dag hefur ein stærsta sjónvarpsstöð Íslands, Stöð 2, haft samband við aktívista og bað okkur um að trufla aftur svo þau geti tekið það upp og fjallað um málið.“

Þórir Guðmundsson, fréttastjóri Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, sagði hins vegar málið byggt á misskilningi, ruglingur hefði átt sér stað í samskiptum við hópinn, en þau hefðu farið fram í gegnum þriðja aðila, sem væru Samtök grænkera á Íslandi.

Þórir er grandvar og vammlaus maður, svo fjölmiðlarýnir fellst á þá skýringu. En skaðinn er samt skeður og eftir situr efinn um að þarna kunni frétt að hafa verið sviðsett og trúverðugleiki fréttamannsins ekki samur og fyrir. Það kann að vera ósanngjarnt, en þannig er það nú samt. En jafnframt verður ekki hjá því komist að benda á þá skyssu að fjölmiðlar eigi samskipti við umfjöllunarefni eða viðmælendur í gegnum þriðja aðila. Öll slík samskipti eiga auðvitað að vera bein og milliliðalaus, það lýtur að grundvallarhlutverki fjölmiðla.

                                            * * *

DV birti langa og ýtarlega frétt Ágústs Borgþórs Sverrissonar á föstudag, þar sem sagt var frá því að maður, sem myrti mann fyrir tíu árum og hlaut síðar fyrir langan og strangan dóm, lifði nú „að miklu leyti eins og frjáls maður“, en hann dvelur nú á áfangaheimilinu Vernd, fer í vinnu á daginn og búinn að skrá sig á Tinder, svo fátt sé nefnt.

Ágúst Borgþór reyndi án árangurs að fá viðtal við fangann fyrir utan áfangaheimilið, en með fréttinni fylgdu myndir af manninum, heimilisfang móður hans og bróður birt (þar sem maðurinn hefur lögheimili), upplýsingar um lit, gerð og ástand bíls hennar og sagt að lesendur DV hefðu „lýst yfir ótta við að vera í návist“ fangans. Fréttin vakti að vonum sterkar tilfinningar til og frá, enda var hún furðunákvæm um eitt og annað, sem tæpast er fréttnæmt og erfitt er að halda fram að eigi erindi við almenning. Sumt beinlínis til þess fallið að valda saklausu fólki ama og óþægindum.

Afstaða, félag fanga, fordæmdi þennan fréttaflutning og ýmsir fjölmiðlamenn tóku í sama streng, þótti þetta lágkúrleg og sorgleg blaðamennska. Nú má taka undir að það kann vel að eiga erindi við almenning að sakamaður í svo hrottafengnu og óhugnanlegu máli, skuli afplána dóm utan fangelsis, sérstaklega ef minnsta ástæða er til þess að óttast að hann kunni að brjóta af sér á ný og vera samfélaginu hættulegur.

Ljóst er að Fangelsismálastofnun telur svo ekki vera en DV er vel heimilt að efast um það. Þess má í framhjáhlaupi minnast að í fyrra lífi sagði DV fréttir af alræmdum barnaníðingi, jafnvel eftir að hann hafði lokið allri afplánun, beinlínis í þeim tilgangi að fólk gæti varað sig og börn sín á honum, áttaði sig á því hvar hann héldi til og hvernig hann væri útlits. Það mátti gagnrýna það, en treystir sér einhver til þess að segja að það hafi reynst rangt? En það er ekki sama hvernig það er gert, sérstaklega ekki ef umfjöllunin er til þess falin að valda saklausum óþarfa sársauka eða vanvirðu. Þess var ekki gætt.

                                            * * *

Ríkisútvarpið sagði í gær frétt af því að sumir þingmenn í Frakklandi hefðu sniðgengið ræðu hinnar sænsku Gretu Thunberg í þinginu á þriðjudag og hæðst að henni fyrir heimsendaspádóma. Fjölmiðlarýnir hjó eftir því að Ævar Örn Jósepsson fréttamaður sagði að þar hefðu verið á ferðinni „þingmenn flokka yst á hægri væng franskra stjórnmála“ og síðar kom fram að þar var um að ræða þingmenn Þjóðfylkingarinnar og Repúblikanaflokksins.

Nú má svo sem deila um hvort Þjóðfylkingin er yst til hægri eða ekki, í efnahagsmálum greinir þá ekki verulega á við Vinstrigræn, en yfirleitt eru þau nú samt talin á hægri kantinum vegna afstöðu til framandi menningar og þjóðabrota. En að Repúblikanar séu settir í sama hóp er fráleitt, það er flokkur gaullista, miðjuflokkur fremur hægfara en til hægri, álíka yst úti á miðjukanti og Framsóknarflokkurinn.

                                            * * *

Enn og aftur birtist auglýsing frá umhverfisráðuneytinu, þar sem lýst er eftir tilnefningum til fjölmiðlaverðlauna ráðuneytisins. Hvenær á þessarri ósvinnu að linna? Og hvenær hættir fjölmiðlafólk að veita þessum skammarverðlaunum viðtöku? Það er óskiljanlegt að stjórnvöld útdeili verðlaunum til blaðamanna fyrir þóknanlega umfjöllun og enn óskiljanlegra að nokkur frétta- eða blaðamaður með snefil af sjálfsvirðingu veiti þeim viðtöku.

Hvað þætti mönnum um ef atvinnumálaráðuneytið veitti fjölmiðlaverðlaun fyrir vandaða umfjöllun um orkupakkann? Eða hagsmunasamtök? Nú eða bara að einstaklingar gæfu blaðamönnum verðlaun fyrir vandaða og vinsamlega umfjöllun? Gætu þeir þá ekki allt eins gefið liðlegum blaðamönnum þjórfé og fylgst með fjölmiðlafólki vanda sig meira við að gleðja umfjöllunarefnin?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.