Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var rætt við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um mögulegt svigrúm ríkisins í komandi kjaraviðræðum. Þar benti Bjarni á að það væri verið að taka lán fyrir launum ríkisstarfsmanna:

„Staðreyndin er sú að ríkið er að taka lán fyrir laununum í dag. Við erum með hátt í 200 milljarða halla á fjárlögum. Ég teldi skynsamlegt að næstu lífskjarasamningar myndu einblína á að halda vöxtum lágum, og ég trúi ekki öðru en að samtalið snúist um það að skipta því sem er til skiptanna, en ekki að reyna að taka meira út en innistæða er fyrir."

Bjarni bendir á að launahækkanir hér á landi hafi á undanförnum árum verið talsvert meiri en á Norðurlöndunum, en vextir og verðbólga hafi einnig verið hærri. Launahækkanir hafi þannig ekki skilað sér í auknum kaupmætti í sama mæli hér, þótt miklar hafi verið.

„Það er mjög sláandi að við höfum verið með 7,5% hækkun launavísitölunnar í fyrra."

* * *

Óðinn tekur undir með fjármálaráðherranum. En það sem ætti að slá alla gjörsamlega út af laginu er að laun ríkisstarfsmanna hækkuðu um 17,5% frá upphafi Covid-19 faraldursins, í mars 2020, til nóvember 2021 - en Hagstofan hefur ekki gefið út nýrri tölur. Á sama tíma hækkaði verðlag um 10,2%.

Laun á almenna vinnumarkaðnum hækkuðu um 11,4% í Covid, og heil 21,5% hjá sveitarfélögunum. Við skulum hafa þetta í huga þegar sveitarfélögin fara að barma sér yfir fjárhagnum í kosningunum í vor. Það er nefnilega svo að þegar ríkissjóður er rekinn með 200 milljarða halla þá er verið að taka meira út en innistæða er fyrir. Það er verið að taka lífskjör að láni frá börnunum og barnabörnunum. Og þegar ríkisstjórn og meirihluti Alþingis lætur það gerast á sinni vakt að laun hækki um 17,5% í einhverri mestu kreppu sem hefur riðið yfir landið þá ætti öllum að vera lokið.

* * *

Meira atvinnuleysi

Það er að auki gríðarleg vonbrigði að viðbrögð fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins séu þau í kjölfar kreppunnar að hækka skatta - í stað þess að lækka þá.

Einkennilegasta skattalækkun Íslandssögunnar hlýtur að vera hækkun tryggingagjaldsins um síðustu áramót, úr 6,1% í 6,35%. Eina afleiðing þess er sú að atvinnuleysi eykst. Enda er það raunin. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í nóvember var atvinnuleysið 4,9% en var komið í 5,2% í febrúar.

Vandi ríkissjóðs er nefnilega ekki tekjuvandi, heldur útgjaldavandi. En alltaf virðast ríkisstarfsmenn fá nýjar hugmyndir að eyða annarra manna fé.

* * *

Nýtt sendiráð!

Ríkistjórnin hefur samþykkt að setja á stofn sendiráð í Póllandi. Á vef utanríkisráðuneytisins er þetta sagt um málið:

Pólitísk, efnahagsleg og menningarleg samskipti Íslands og Póllands hafa aukist verulega á undanförnum árum. Þá á sívaxandi fjöldi Íslendinga uppruna sinn að rekja til Póllands. Hagsmunir landanna fara saman í mikilvægum málaflokkum, svo sem öryggis- og varnarmálum. Þá hafa aukin samskipti landanna, ekki síst vegna fjölda Pólverja sem eru búsettir á Íslandi, eflt viðskipta- og menningartengsl.

Pólsk stjórnvöld hafa starfrækt sendiskrifstofu í Reykjavík frá 2008, fyrst með aðalræðisskrifstofu og frá 2013 sem fullgilt sendiráð. „Með opnun sendiskrifstofu Íslands í Varsjá kemst loks á nauðsynleg gagnkvæmni í stjórnmálasamband ríkjanna og það er ánægjulegt að geta stigið það skref og undirstrikað hversu verðmæt vinátta þjóðanna er fyrir okkur Íslendinga. Pólska sendiráðið í Reykjavík hefur sinnt mikilvægri þjónustu við þann stóra hóp Pólverja sem býr á Íslandi. Íslenskt sendiráð í Varsjá getur að sama skapi veitt íslenskum ríkisborgurum og Pólverjum með náin tengsl við Ísland þjónustu og um leið greitt götu íslenskra fyrirtækja á þessum slóðum og gætt íslenskra hagsmuna, til dæmis á vettvangi Uppbyggingarsjóðs EES," segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Eins og sjá má þá eru rökin gríðarleg sterk fyrir sendiráðinu. Það er að segja sendiráði Pólverja á Íslandi. Rökin fyrir sendiráði Íslands í Varsjá halda hvorki vatni né vindum.

* * *

3,6 milljarðar á ári

Það er hins vegar rétt að við eigum að sýna Pólverjum virðingu og vinabragð. Það er hins vegar ekki gert með því að sóa peningum í rekstur sendiráðs. Það væri miklu nær að sýna Pólverjum sem hingað koma til að búa eða starfa tímabundið þá virðingu að leggja ekki á þá einu hæstu skatta í heimi, en á Íslandi eru næst hæstu skattar meðal OECD landanna, og sóa þeim síðan í kokteilboð og aðra vitleysu.

Íslenska ríkið hélt úti 17 sendiskrifstofum árið 2000 ef marka má ríkisreikning. Árið 2014 voru þær orðnar 22 en með sendiráði í Póllandi hefur sá merki áfangi náðst að sendiskrifstofurnar eru orðnar 27. Reksturinn mun kosta ríkissjóð 3,6 milljarða króna í ár.

Ríkisstjórninni til upplýsinga þá varð faxtækið algengur sendingarmiðill upp úr 1960, tölvupósturinn komst í almenna notkun upp úr aldamótum, á svipuðum tíma og farsíminn. Skype kom á markað árið 2003. Fyrir Covid flugu íslensku flugfélögin til 40-50 áfangastaða þegar mest var. Það er flogið frá Íslandi til allra höfuðborga Norðurlandanna daglega, sem og flestra höfuðborga Evrópu eða nálægra borga. Það er flogið daglega til Washington fjóra til sjö daga vikunnar yfir árið og daglega til New York.

* * *

Þrjá til fjóra tíma í vinnu Guðni Jóhannesson, forseti Íslands, skrifaði ágæta bók um Gunnar Thoroddsen sem kom út árið 2010. Óðinn hefur fjallað um efni þeirrar ágætu bókar áður en í ljósi nýs sendiráðs í Varsjá er það gert á ný.

Það er óvanalegt að sendiherrar lýsi starfsdegi sínum opinberlega. Það var gert í ævisögu Gunnars Thoroddsen og var þar byggt á dagbókum Gunnars. Gunnar var skipaður sendiherra í Kaupmannahöfn árið 1965. Gunnar og fjölskylda komu til Kaupmannahafnar í lok maí. Það tók ekki langan tíma að koma sér inn í starfið því Gunnar skrifar þann 8. júlí 1965 mánaðaráætlun um hvernig hann verji deginum þann mánuðinn. Hún nefnist „dagligt liv i Danmark! (Ef ekki boð!)".

 • 7.00 Vakna.
 • 7.30-8.30 Vinna heima, píanó 10-20 mín, málanám í frönsku.
 • 8.30 Morgunverður.
 • 8.45 Af stað.
 • 9.02 Lest til Österport.
 • 9.10 -10 Ganga: Östre Anlæg o.fl., eða Grönningen, Kastellet.
 • 10.00 Skrifstofa.
 • 12.30 Borða á skrifstofu.
 • 13.00-15.00 Konunglega bókhlaðan [ritun doktorsritgerðar].
 • 15.00 Í bíl heim.
 • 15.30-16.30 Leggja sig að jafnaði.
 • 16.30-18.00 Vinna heima, píanó 10-20 mín, ganga með Völu, málanám.
 • 18.00 Kvöldverður.
 • 19-23 Útvarp, sjónvarp, lestur.

Í lok júlímánaðar skrifar hann hjá sér eftirfarandi: „Framfylgt allvel reglunni um að bragða ekkert fyrri part dags, ekki heldur með hádegisverði".

* * *

Óðinn er þess fullviss að hvorki íslenskir né pólskir skattgreiðendur á Íslandi gleðjist almennt yfir opnun sendiráðsins í Póllandi. Fyrir þá sem stutt hafa Sjálfstæðisflokkinn hljóta það að vera veruleg vonbrigði að slík sóun sé á vakt formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .