*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Leiðari
6. september 2019 13:15

Lausatök við hagtölugerð

Leiðréttingar Hagstofunnar á hagvexti eru því miður ekki einu nýlegu dæmin um mistök við vinnslu hagtalna hér á landi.

Haraldur Guðjónsson

Hagstofa Íslands hefur tvívegis á innan við viku þurft að leiðrétta mat sitt á hagvexti á þessu ári. Í fyrra skiptið kom í ljós að Hagstofan ofmat hagvöxt um 2,6 prósentustig á fyrstu þremur mánuðum ársins en í síðara skiptið að hagvöxtur hafi verið vanmetinn um 1,3 prósentustig á öðrum ársfjórðungi. Hagstofan telur nú að samdráttur hafi verið í upphafi ársins upp á 0,9% af landsframleiðslu í stað 1,7% hagvaxtar áður og að hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi hafi verið 2,7% en ekki 1,4% eins og Hagstofan taldi fyrst.

Bæði mistökin snúa að mati á fjárfestingu. Í fyrra skiptið kom í ljós að birtar tölur um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði náðu frá áramótum og langt inn í apríl þegar þau áttu einungis að taka til fyrstu þriggja mánaða ársins. Í síðara skiptið voru birtar rangar tölur um bæði fjárfestingar hins opinbera sem og skipa og flugvéla. Raunar er þetta þriðji ársfjórðungurinn í röð þar sem Hagstofan þarf að leiðrétta tölur um hagvöxt. Leiðrétta þurfti tölur um hagvöxt fjórða ársfjórðungs síðasta árs þar sem mistök voru gerð við staðvirðingu. Það var þó samdægurs í það skiptið.

Tölur um landsframleiðslu eru skilgreindar sem bráðabirgðatölur í 2-3 ár þar sem oft berast nákvæmari hagtölur eftir því sem frá líður. Síðustu leiðréttingar Hagstofunnar hafa hins vegar byggst á mistökum við vinnslu þeirra gagna sem þegar lágu fyrir.

Öll byggjum við fjárhagslegar ákvarðanir á mati á stöðu efnahagsmála, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Hringlandaháttur um hagvöxt og aðrar hagtölur gerir það að verkum að mun erfiðara er að leggja mat á hvernig hagkerfið stendur. Vinna við fjárlög hefur staðið yfir síðustu vikur. Eflaust léttir það ekki lífið við fjárlagavinnunna að leiðrétta þurfi tölur um hagvöxt ítrekað. Getur ríkið beitt sveiflujöfnun ef það veit ekki með vissu hvar í hagsveiflunni það er statt?

Óvissan ein og sér getur haft neikvæð áhrif. Ef fyrirtæki og einstaklingar vita ekki hvernig efnahagsmálin standa í raun eru þau líklegri til að halda að sér höndum og bíða með að taka ákvarðanir um meiri háttar fjárfestingar. Þá er hluti launahækkana í kjarasamningum sem skrifað var undir í vor á almennum vinnumarkaði beintengdur hagvexti.

Því miður er þetta ekki eina dæmið um léleg vinnubrögð í hagtölugerð hér á landi. Viðskiptablaðið fjallaði um það í júní að verulegur munur væri á tölum um atvinnuleysi eftir því hvort þær kæmu frá Vinnumálastofnun um fjölda á atvinnuleysisskrá og vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Hagstofan taldi atvinnuleysi hafa dregist saman milli ára í apríl, fyrsta mánuðinn eftir fall Wow air en Vinnumálastofnun sá verulega aukningu milli ára. Við það tilefni benti Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, á að sambærileg dæmi væru allt of algeng.

„Það er svo margt í tölfræðinni hjá okkur sem hefur áhrif á þessar ákvarðanir sem er bara ekki nógu vel unnið,“ sagði Þórólfur. „Þetta hefur bein áhrif á vaxtaákvörðun Seðlabankans, sem þýðir að snúningspunktarnir á breytingaferlinu hjá bankanum eru hugsanlega á röngum stað.“

Dæmin eru í sjálfu sér mun fleiri. Fyrr í sumar þurfti Rannsóknarsetur verslunarinnar að leiðrétta tölur um kortaveltu erlendra ferðamanna. Fyrst var talið að kortaveltan hefði dregist saman um 13% milli ára en var svo leiðrétt þar sem hluta kortaveltu vantaði inn í upphaflegu tölurnar. Í ljós kom að samdrátturinn var 0,7% þrátt fyrir mikla fækkun ferðamanna á tímabilinu.

Blessunarlega voru leiðréttingar á tölum um kortaveltu erlendra ferðamanna í sumar og síðasta leiðrétting Hagstofunnar á hagvexti ársins upp á við, sem áætlar nú að 0,9% hagvöxtur hafi verið á fyrri hluta ársins. Hagkerfið virðist standa mun betur en margir óttuðust þegar Wow air fór í þrot í lok mars og ekki hafði tekist að lenda kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Ef vel gengur gæti jafnvel orðið örlítill hagvöxtur á árinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.