Fyrir nokkrum árum gaf eiginmaður minn mér snjallúr. Ég er með græjudellu á lokastigi en fannst þetta samt algjör óþarfi. Ég átti fínt úr til að sjá hvað klukkan væri og sá ekki hvaða not ég hefði fyrir eitthvað annað. Ég gat alveg mælt púlsinn sjálf, vissi nokkurn veginn hversu miklum tíma ég eyddi í æfingar og fannst þetta bara einhver tilraun tæknifyrirtækja til að selja mér rándýrt dót sem mig vantaði ekki.

Tveimur vikum síðar var ég kolfallin. Núna skil ég ekki hvers vegna fólk gengur með úr sem gerir ekkert nema segja því hvað klukkan er þegar það getur verið með græju til að tala í, stjórna tónlist, fylgjast með hjartslætti, lesa skilaboð og skoða veðurspána. Að því ógleymdu að mæla svefngæði. Það var atriði sem ég uppgötvaði talsvert seinna en allt hitt og þá kom ýmislegt í ljós.

Ég, sem hef alltaf haldið því fram að ég sofi eins og steinn og þoli allt, fór allt í einu að taka eftir því að svefninn var alls konar og gæðin eftir því. Úrið fór að senda mér skilaboð um að ég svæfi greinilega miklu betur þegar ég hreyfði mig. Það voru svo sem engar stórfréttir en fyrst það skipti máli fór ég að merkja við ýmsa hluti sem ég gerði yfir daginn til að athuga hvort ég sæi eitthvert mynstur.

Fyrst leiddi það til þess að ég hætti að drekka kaffi eftir tvö á daginn (að mestu). Svo fór ég að færa kvöldmatinn framar. Síðan hætti ég alveg að drekka áfengi og loks var sykurneysla bönnuð á kvöldin. Að lokum var ljóst að það var aðeins eitt til ráða.

Að hætta að sofa með úrið.

Pistlahöfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands