*

laugardagur, 29. febrúar 2020
Óðinn
22. október 2019 18:21

Lausnir og endurlausnari á dögum loftlagsvár

Svo það sé sett fram á einfaldan hátt: Lausnin á loftslagsvandanum felst ekki í breytingum á lifnaðarháttum borgarastéttar Vesturlanda.

Greta Thunberg segir að mannkyn standi frammi fyrir útdauða af völdum loftslagsbreytinga.
epa

Það er óhætt að segja að barátta hinnar sænsku Gretu Thunberg hafi vakið alþjóðaathygli. Einurð hennar og hugsjónaeldur hefur komið flatt upp á valdafólk og vakið áhuga og aðdáun milljóna víða um veröld. Svo mjög, að í síðustu viku töldu flestir veðbankar heims það formsatriði að hún hlyti friðarverðlaun Nóbels. 

                                                                                          ***

 Svo fór að vísu ekki, en sumir fylgismenn hennar töldu að gömul gremja Norðmanna í garð sinna sænsku granna hefði valdið einhverju um, meðan aðrir töldu víst að auðvaldið hefði með vélum haft þau af henni. Líklegra verður þó að telja að norska Nóbelsakademían hafi verið brennd af því að veita verðlaunin fyrir óunnin afrek (Barack Obama), sem síðan stóð á að kæmu fram. Það er auðvitað rétt, árangurinn af boðskap Gretu Thunberg er ekki fram kominn, en miðað við kröfurnar er fremur ólíklegt að af því verði. Eða ef illa fer og spár hennar um útdauða mannkyns rætast, þá er til lítils að fá Nóbelsverðlaunin eftir hennar dag. 

                                                                                          ***

 Greta Thunberg er aðeins 16 ára, en það er ekki lengra síðan en í fyrra að hún hóf aðgerðir, þá 15 ára, með því að skrópa fyrir loftslagið: „skolstrejk för klimatet“ og krafðist aðgerða af hálfu stjórnvalda áður en það yrði um seinan. Síðan hefur hún orðið hundruðum þúsunda annarra barna fyrirmynd um samskonar loftslagskróp víða á Vesturlöndum og bundist samtökum við herskáa umhverfisverndarsinna —  fyrst og fremst Útdauðauppreisnina (e. Extinction Rebellion) —  sem telja útdauða mannkyns, jafnvel alls lífs á Jörðinni, blasa við nema tafarlaust verði gripið til mun afdráttarlausari aðgerða til þess að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Fyrirsjáanlegt er að slíkar ráðstafanir hefðu mjög mikil áhrif á efnahag og lífskjör mannkyns ef þær gengju eftir. 

                                                                                          ***

 Engum blandast hugur um að Gretu Thunberg liggur mikið á hjarta. Það kom sjálfsagt skýrast fram þegar hún heimsótti loftslagsleiðtogaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á dögunum: Mín skilaboð eru að við munum fylgjast með ykkur. Þetta er allt rangt. Ég ætti ekki að vera hér, ég ætti að vera í skólanum hinu megin við hafið. Samt komið þið öll til okkar unga fólksins í leit að von. Hvernig dirfist þið? Þið hafið stolið draumum mínum og æsku með innantómum orðum. Samt er ég ein hinna heppnu. Það er fólk sem þjáist. Það er fólk að deyja. Heilu vistkerfin eru að hrynja. Við erum við upphaf fjöldaútdauða. Og hið eina sem þið getið talað um eru peningar og ævintýr um eilífan hagvöxt! Hvernig dirfist þið? 

                                                                                          ***

 Boðskapur Thunberg er auðvitað margþættari. Hún segir að mannkyn standi frammi fyrir útdauða af völdum loftslagsbreytinga, að það séu hinir fullorðnu í heiminum sem beri ábyrgð á loftslagsbreytingum, að þær muni koma hlutfallslega harðar niður á ungu fólki, að of lítið sé að gert til þess að afstýra þeim og að valdamenn hlusti ekki á vísindamenn. 

                                                                                          ***

 Hins vegar væri synd að segja að allt í málflutningi hennar byggist á vísindalegri þekkingu eða samdóma áliti um ástand og horfur. Í fræðasamfélaginu hafa enda stöku menn andæft málflutningi hennar og fylgismannanna, sagt hann villandi eða ekki til þess fallinn að ná samstöðu um raunhæfar lausnir. Þeir hafa hins vegar uppskorið heiftarlegar árásir fyrir að mótmæla barninu og ósennilegt að margir aðrir fylgi fordæmi þeirra. 

                                                                                          ***

 Sjálfsagt er rétt athugað hjá Gretu Thunberg að ekki sé nóg að gert fyrir en komið hefur verið í veg fyrir loftslagsbreytingar, að minnsta kosti að því leyti sem þær eru af mannavöldum eða á mannlegu færi að afstýra þeim. Hins vegar eru menn alls ekki á einu máli um hvaða tími sé til stefnu til þess, hún talar oftast um árið 2030 en aðrir (þar á meðal Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar) telja að mannkyn hafi meira ráðrúm þó ekki sé eftir neinu að bíða við að taka á vandanum og aðlaga samfélög manna að því. Sumir fylgismenn Gretu ganga hins vegar miklu lengra og segja mannkyn dauðadæmt ef ekki verður tekið fyrir alla verga losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2025, hvað sem það kostar. Greta hefur ekki mótmælt því. 

                                                                                          ***

 Sumpart er vandinn við málflutning Gretu Thunberg og fylgismanna hennar sá að kröfurnar eru mjög metnaðarfullar en þó um margt óljósar. Hvað þá að fram komi tillögur um hvernig ná megi þeim markmiðum. Af þeim ástæðum einum er erfitt að rökræða um þær. Hitt er þó kannski erfiðara við að eiga, hve boðskapurinn er í raun trúarblandinn. Það mun vafalaust vekja áhuga félagsvísindamanna framtíðarinnar hvernig hreyfing hennar spratt fram, með barn í fararbroddi með heimsendaspádóma á vörunum, svar vorra daga við Jóhönnu af Örk. Boðskapur hennar hefur víða verið endurómaður, ekki síst í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, en nánast engir hefðbundnir fjölmiðlar taka málflutning Gretu til þeirrar skoðunar, sem tíðkast myndi um aðra. Mögulega kunna þeir síður við það sakir æsku hennar og ekki frekar fyrir það að hún er einhverf. En kannski það sé aðeins vegna þess að hún talar í nafni Jarðarinnar sjálfrar og framtíðar mannskyns og það á forsendum umhverfisverndar. Hver vill líta út fyrir að efast um ágæti þess boðskapar? Það gengi guðlasti næst. 

                                                                                          ***

En það er ástæða til þess að brjóta boðskapinn til mergjar. Að hluta til vegna þess að reynslan bendir ekki til þess að spámenn séu óskeikulir og að hluta til vegna þess að hún talar í kennisetningum, ekki rökum. Loftslagsumræðan verður að byggjast á vísindum og þekkingu, ekki opinberunum og trúarhita. ***

 Fyrir lesendur Viðskiptablaðsins hlýtur það svo líka að vera sérstakt áhyggjuefni, að undirtónninn í mörgu af því sem Greta og fylgismenn hennar segja um mannlega breytni eru gamlar vinstrituggur gegn hugvitssemi og athafnasemi, kreddur gegn kapítalisma og hagsæld. 

                                                                                          ***

 Ákall Gretu Thunberg og hin tilfinningaríku (að ekki sé sagt tilfinningasömu) svör fylgjenda hennar koma ekki upp úr engu. Loftslagsbreytingar eru — nú sem á öðrum tímum — staðreynd, en við bætast eindregnar vísbendingar um að breytni og athafnasemi mannsins valdi þar miklu um. Sömuleiðis að mikið sé í húfi til þess að draga úr þeim breytingum sem kostur er. Bæði til þess að koma í veg fyrir mannlega þjáningu og varanlegar breytingar á lífríki og búsetuskilyrðum Jarðar. 

                                                                                          ***

Á þessu hefur ríkt nokkuð almennur skilningur um nokkurt skeið, þó einhver skoðanamunur sé á áætluðum áhrifum og hvernig best sé að sporna við þeim. Árangurinn af viðbrögðum alþjóðasamfélagsins, svo sem Parísarsamkomulaginu, hefur hins vegar látið á sér standa. Það er vafalaust ein helsta ástæða þess að umhverfisverndarsinnar hvetja nú svo ákaflega til þess að við lítum í eigin barm um afleiðingar breytni okkar á loftslagið og gott betur, vilja lögbinda margt af því. 

                                                                                          ***

 Auðvitað er það gott og blessað að hver og einn leggi sitt af mörkum í þeim efnum. En jafnvel þó svo við hættum að borða kjöt, knýja bíla með jarðefnaeldsneyti og hættum öllu flugi, þá hefur það sáralítið að segja fyrir heildarmyndina og Jörðina. Þar að baki búa ekki góð eða sannfærandi rök. Það er nær að tala um trúarhita og meinlæti í því samhengi. Óðinn vill ekki gera lítið úr gildi sáluhjálpar að því leytinu, en á hinn bóginn er hætt við að slíkar kröfur og kreddur dragi athyglina frá raunhæfari lausnum, því sem við getum gert og er til þess fallið að hafa marktæk áhrif. 

                                                                                          ***

 Jafnvel þó svo öll heimsins flug (um 4,5 milljarðar flugferða á þessu ári) yrðu aflögð til ársins 2100, þá myndi meðalhiti aðeins lækka um 0,054°C ef marka má almenn og viðtekin loftslagsmódel. Það jafngildir því að fresta loftslagsbreytingum til 2100 um innan við ár. Þykir mönnum svo afdrifaríkum breytingum á athafna- og ferðafrelsi fólks til fórnandi fyrir svo lítinn ávinning? 

                                                                                          ***

 Hnattrænni hlýnun verður ekki heldur afstýrt með því að hætta að borða kjöt. Það er ekki auðvelt að breyta um mataræði (bandarísk rannsókn segir að 84% þeirra sem gerist grænmetisætur falli, flestir á innan við ári), en þeir, sem þreyja þorrann að því leyti geta þó ekki vænst þess að minnka eigin losun um meira en 2%. Eru þá ótalin veruleg áhrif á atvinnulíf í mörgum löndum eða manneldisáhrif á þeim landsvæðum, þar sem próteinupptaka er mjög háð kjötneyslu. Eða stórauknum matvælaflutningum, en grænmetisrækt hentar sem kunnugt er mjög misvel eftir loftslagi og það er mun rúmfrekara miðað við orkuinnihald. 

                                                                                          ***

 Rafbílar eru heldur engin töfralausn, nema kannski í orkugjöfulu og fámennu landi eins og Íslandi. Það á ekki víða við annars staðar, en við blasir að í flestum þéttbýlustu löndum heims verður raforkan ekki til í neinni bráð nema með hefðbundnum bruna á jarðefnum, þó hann eigi sér stað fjarri notkunarstað. Nema auðvitað fyrir það verði alfarið tekið og raforka skömmtuð eða látin hækka svívirðilega í verði. Er mikil von til þess að þorri almennings láti sér það lynda að húshitun og lýsing, heitt vatn og samgöngutæki verði af afar skornum skammti eða aðeins á færi auðkýfinga? Jafnvel þó svo að beislun vinds og sólarorku ykist tífalt á tíu árum myndi það engan veginn hrökkva til. Kjarnorkuver kynnu að reynast eina raunhæfa lausnin, en þau eru ákaflega dýr, kalla á mikið af sérhæfðu starfsfólki, taka mjög langan tíma í hönnun og uppsetningu (15-20 ár hvert) og eru ekki hættulaus. Ekki er það þó eini vandinn við rafbílana, því þeir eru einfaldlega skammt á veg komnir og ekki margir. Talið er að í heiminum séu nú alls um 5 milljónir rafbíla. Jafnvel þó svo þeim fjölgi ákaflega næstu 11 ár og verði 130 milljónir, þá reiknast Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA) svo til að jafngildislosun CO₂ myndi aðeins minnka um 0,4% á heimsvísu. 

                                                                                          ***

 Eða svo það sé sett fram á einfaldan hátt: Lausnin á loftslagsvandanum felst ekki í breytingum á lifnaðarháttum borgarastéttar Vesturlanda. 

                                                                                          ***

 Í hnotskurn er vandinn sá að Parísarsamkomulagið, rétt eins og Rio-samþyktin og Kyoto-bókunin á undan því, er illa til þess fallin að ná tilsettum markmiðum, því að það byggist á því að hin auðugu Vesturlönd taki á sig efnahagsþrengingar, leggi byrðar á borgarana og minnki lífsgæði (sér í lagi hinna efnaminni) með sáralitlum og óljósum ávinningi. 

                                                                                          ***

 Ástæðan er einföld: megnið af losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á þessari öld kemur ekki frá hinum efnuðu Vesturlöndum, sem hafa undanfarna hálf öld lyft grettistaki í umhverfismálum. Jafnvel þó svo hin auðugu ríki heims tækju sig saman um að hætta allri losun CO₂ nú um kaffileytið og út öldina (ekkert flug, ekkert kjötát, ekkert jarðefnaeldsneyti til aksturs, upphitunar, kælingar eða lýsingar, og enginn tilbúinn áburður), þá næmi munurinn í lok aldarinnar aðeins 0,4°C. 

                                                                                          ***

 Hin ískalda staðreynd málsins er sú að það er ekki nokkur vinnandi vegur til þess að ná árangri í loftslagsmálum án þess að fá Kína, Indland og hundruð annarra ríkja nýmarkaðs- og þróunarheimsins til þess að stórminnka losun sína á gróðurhúsalofttegundum. Þau eru hins vegar í óðaönn við að vinna sig upp úr aldalangri fátækt og hafa sum verið að taka iðnbyltinguna á tveimur áratugum. Það útheimtir ódýra, aðgengilega og trygga orku, en sú þörf minnkar ekki við að fyrir vikið standa þar víða yfir mestu þjóðflutningar mannkynssögunnar úr dreifbýli í borgir. Er einhver von til þess að þau ríki vilji eða geti slegið því öllu á frest? Bara af því einhverjir fordekraðir Vesturlandabúar, sem eru búnir að taka út lífskjarabyltinguna, segja það? 

                                                                                          ***

 Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem maðurinn stendur frammi fyrir tröllauknum vanda af þessu tagi og sennilega rétt að rifja upp hvaða ráð gáfust þá best. Svarið felst ekki í trúarsetningum, harðneskjulegri löggjöf, alþjóðlegum kolefnissköttum, tilskipunum um græna (og miklu dýrari) orku eða tilmælum til þróunarheimsins að slaka á. — Nei, svarið felst í hugvitssemi og nýsköpun. 

                                                                                          ***

 Rétt eins Græna byltingin hans Normans Borlaug batt enda á þrálátar hungursneyðir fyrir hálfri öld, þá má án nokkurs vafa finna lausnir á loftslagsvandanum á næstu áratugum. Nú þegar eru komnar fram ýmsar vísbendingar um tæknilegar lausnir við orkubeislun og loftslagsumræða liðinna ára hefur leitt í ljós hvar skórinn kreppir helst og hvar mests ávinnings er að vænta. Þar hefur ríkisvald og akademía gert sitt, en lausnanna er helst að vænta með nýsköpun og framtaki. 

                                                                                          ***

 Það þýðir lítið að ætlast til þess að fólk noti miklu minni og dýrari græna orku. Það er einfaldlega afar ólíklegt til árangurs fyrir loftslagið, en getur hins vegar mjög sennilega haft ófyrirsjáanlegar og slæmar félagslegar afleiðingar. Hitt er vænlegra til árangurs að stórauka rannsóknir og þróun á grænni orkubeislun með það fyrir augum að gera hana betri, auðveldari og ódýrari. 

                                                                                          ***

 Stofnunin Copenhagen Consensus Center, sem hinn ekki óumdeildi Bjørn Lomborg fer fyrir, leitaði til 27 af fremstu loftslagshagfræðingum heims til þess að fá álit á því hvaða ráðstafanir væru hagkvæmastar og líklegastar til þess að bera árangur til þess að sporna við loftslagsbreytingum. Sú greining var nokkuð á eina leið um að besta fjárfestingin lægi í rannsókn og þróun á grænni orku. Fyrir hverja krónu, sem lögð væri í það, mætti komast hjá 11 króna skaða af völdum loftslagsbreytinga. Og sú þekking myndi flýta fyrir orkuskiptum, ekki aðeins fyrir efnafólk eða auðugri lönd heims, heldur fyrir alla.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.