*

mánudagur, 25. október 2021
Huginn og muninn
16. maí 2020 11:05

Á leið á Ólympíuleikana í kjarabaráttu?

„Grimmustu stofnanir valdsins" lutu í lægra haldi fyrir Eflingu sem fagnaði „sigri" í kjarabaráttu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Eggert Jóhannesson

Kjarasamningar á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Eflingar voru undirritaðir á sunnudagskvöldið og þar með bundinn endi á eitthvað taktlausasta verkfall síðari ára á Íslandi. Á vef Sambandsins birtist lágstemmd tilkynning, þar sem sagði að kjarasamningurinn væri í samræmi við aðra samninga sem samninganefndin hefði gert við 35 önnur stéttarfélög.

Ekki var alveg sami tónn í tilkynningu, sem Efling sendi frá sér. Yfirskriftin var „Efling fagnar langþráðum sigri í kjarabaráttu við sveitarfélögin“ og í tilkynningunni sagði m.a. að í enn eitt skiptið hefði Eflingarfólk „sýnt að jafnvel grimmustu stofnanir valdsins eiga ekki roð við þeim“. Hrafnarnir hafa hingað til hvorki litið á sveitarfélög né stofnanir þeirra, eins og t.d. skólana, sem „grimmustu stofnanir valdsins“.

Þessi kommúníski tónn er frekar leiðigjarn árið 2020 en ber umfram annað vott um átakaþrá Sólveigar Önnur Jónsdóttur, formanns Eflingar og hennar fólks. Að fagna sigri í kjarabaráttu er sérstakt. Hrafnarnir héldu að kjarasamningar byggðu á sátt milli aðila en kannski vilja stjórnendur efna til Ólympíuleika í kjarasamningum.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.