*

föstudagur, 18. september 2020
Andrés Magnússon
3. ágúst 2020 13:43

Leiðarlok

Fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins þakkar fyrir sig en skoðun hans hefur borist vikulega síðan 7. desember 2007.

Haraldur Guðjónsson

Hinn 7. desember 2007 skrifaði undirritaður fyrstu fjölmiðlarýni sína hér í helgarblaði Viðskiptablaðsins, sem þá var dagblað. Sú útgáfutíðni blaðsins segir sína sögu um áhrif bólunnar, sem sprakk með hvelli tæpu ári síðar, á íslenska fjölmiðlun. Það áfall, ásamt breytingum á fjölmiðlaumhverfi á heimsvísu, kom einkar hart niður á íslenskum fjölmiðlum, svo segja má að þeir hafi aldrei náð að reisa sig eftir hrun, ein íslenskra atvinnugreina.

Á því geta lesendur nánar glöggvað sig á súluritinu neðst á síðunni, en sem sjá má voru auglýsingatekjur íslenskra fjölmiðla lægri árið 2018 en þær voru árið 2000. Í ár munu þær reynast enn lægri. Viðbrigðin frá 2007 eru auðvitað enn meiri, því þá voru árlegar auglýsingatekjur íslenskra fjölmiðla mestar, rúmlega 20 ma. kr. að núvirði, en það má teljast vel sloppið ef þær ná að verða helmingur þess í ár.

Þrátt fyrir þessa miklu breytingu á rekstrarumhverfi fjölmiðla og þeir hafi ýmsir helst úr lestinni, margvíslegar tæknibreytingar og sjálfsagt einhverja þróun í eðli og efnistökum (smellubeitur voru óþekktar 2007), þá hafa umfjöllunarefni þessa dálks furðulítið breyst á þessum rúmu tólf árum. Tilefni aðfinnslna og ábendinga er vissulega fjölbreytilegt og ný viðfangsefni í hverri viku, en flest af því snýst um eðlileg vinnubrögð blaðamanna, dómgreind og mistök. Og af því að það er mikið til á mannlega sviðinu, þá er það kannski nánast fasti, því það er mannlegt að skjátlast og skeika.

Fjölmiðlarýnir leyfir sér þó að vona að umvandanir hans hafi einhver áhrif haft, að minnsta kosti þau að þær hafi orðið fjölmiðlafólki umhugsunarefni. Markmið gagnrýni af þessu tagi er þó ekki aðeins að vekja athygli á því sem miður fer í fjölmiðlum, leiðrétta, skamma eða að kveða upp palladóma yfir kollegum. Hluti af því er jafnframt að útskýra vinnubrögð fjölmiðla fyrir lesendum, hvaða sjónarmið búa að baki þeim vinnureglum sem þar eru viðhafðar. Þær eru svo að segja hinar sömu á öllum eiginlegum fjölmiðlum (þó ritstjórnarstefna geti verið misjöfn), mótaðar bæði af fræðilegum röksemdum og uppsafnaðri reynslu. Og hefðum, gleymum þeim ekki, en þær geta bæði verið sameiginlegar hefðir í stéttinni og hefðir á einstökum fjölmiðlum. Í þeim felst mikilvægt stofnanaminni, sem miðast við fyrri reynslu og ákvarðanir, sem er mikilvægt að hafa til hliðsjónar, þó það megi auðvitað ekki verða til þess að menn festist í fortíðinni.

                                                                        ***

Í þessari fyrstu grein fyrir öllum þessum árum — ætli þær séu ekki orðnar um 630 síðan — var m.a. rætt um fjölmiðlarýni yfirleitt og hvers vegna hennar væri þörf, en eins hversu fátítt það væri að fjölmiðlar fyndu að vinnubrögðum hver annars. Þar var vísað til nótu um þetta í forystugrein Morgunblaðsins í mánuðinum á undan (þar sem Styrmir Gunnarsson hélt sennilega á penna):

En er til griðabandalag á milli fjölmiðla? Frá sjónarhóli Morgunblaðsins er skýringin á því, að fjölmiðlar gera lítið af því að gagnrýna fagleg vinnubrögð hver annars þessi: veruleikinn er sá, að hver fjölmiðill um sig og þar á meðal Morgunblaðið á fullt í fangi með að halda uppi viðunandi faglegum vinnubrögðum á eigin vettvangi. Það er því hætt við að þeir, sem taka upp á því að gagnrýna aðra á þeim forsendum, séu að kasta grjóti úr glerhúsi. Þetta er áreiðanlega meginskýringin á því að svo lítið er um innbyrðis gagnrýni á milli fjölmiðla.

Þetta var gild skýring, en ekki rök. Slíkt griðabandalag væri enda óorðað samsæri við upplýsta, lýðræðislega umræðu, því hver gætir gæslumannanna og það allt? Sú afstaða fól líka í sér þá mótsögn, að fjölmiðlar væru nánast hafnir yfir gagnrýni sakir þess, að allir væru þeir gagnrýni verðir!

En það er svo sem rétt, að fjölmiðlarýni sem þessi á betur heima í litlum, afmörkuðum miðli eins og Viðskiptablaðinu en í stórum, almennum fréttamiðli á borð við Morgunblaðið, einfaldlega af því að það ríður meira á að halda stóru, útbreiddu miðlunum við efnið. Í þessum dálkum hefur enda afar sjaldan verið fundið að því sem betur hefði mátt fara í Viðskiptablaðinu, bæði af því að það á fremur heima á gæðafundum innanhúss og eins hið gamla, að menn eiga ekki að vera dómarar í eigin sök.

Það er vel tímabært að nefna það, því fjölmiðlarýnir skipti um starfsvettvang í liðinni viku, flutti sig um set af Viðskiptablaðinu og yfir til Morgunblaðsins, sem hann hefur margháttaðar taugar til, bæði persónulegar og á starfsferlinum.

Þess vegna get ég líka svarað þeirri spurningu, sem ýmsir kunningjar hafa borið upp undanfarna daga, hvort til standi að flytja fjölmiðlarýnina með sér á Mogga. Svarið við því er nei, hún á betur heima hér á Viðskiptablaðinu og hér verður hún áfram.

Það er enda svo að það er Viðskiptablaðið sem á þennan dálk, ekki sá sem hér heldur á penna. Það var Ólafur Teitur Guðnason, sem fyrstur hóf að skrifa reglulega fjölmiðlarýni með þessu sniði hér í Viðskiptablaðið árið 2004, sem varð skjótt eitt vinsælasti fastadálkur blaðsins, enda Ólafur Teitur bæði glöggur og hvass, fyrir nú utan hvað þetta var ljómandi vel skrifað. Pistlar hans voru síðan teknir saman í árbækur, sem Ugla gaf út, en það segir sína sögu að þó þeir endurspegli líðandi stund og oft löngu gleymd fréttamál, þá eru þeir enn brakandi ferskir og ábendingarnar allar í fullu gildi. Það er því enn fengur í þeim fyrir allt áhugafólk um fjölmiðlun, lærða sem leika.

                                                                        ***

Auðvitað hafði áður verið fjallað um fjölmiðla í fjölmiðlum. Aðallega voru það þó skemmri pistlar um afmarkaða þætti fjölmiðlunar, eins og daglegir ljósvakapistlar Ólafs M. Jóhannessonar, sem birtust um árabil í Morgunblaðinu, nú eða styttri hugleiðingar um dagskrárefni, sem ótal blaðamenn hafa skemmt sér við að skrifa í gegnum árin. Eins skrifaði Ásgeir Friðgeirsson um hríð fjölmiðlaopnu í sunnudagsblað Morgunblaðsins. Svo má ekki gleyma ýmsum málfarsdálkum, sem oftar en ekki tíndu skrautlegustu fjólurnar úr akri fjölmiðla.

Engu að síður ræddi þar ekki um fasta pistla um eðli blaðamennsku, hvað þá að þar væru skipulega rakin dæmi um skrýtin, hæpin, vafasöm og ámælisverð vinnubrögð blaða- og fréttamanna, rökstutt hvað væri að og hvernig gera hefði mátt það betur. Og á þeirri forsendu að fjölmiðlum veiti ekki af því aðhaldi sem þeim er ætlað að sýna öðrum. Vitaskuld fjallaði Ólafur Teitur, líkt og þessi sporgöngumaður hans, ekki einungis um það sem úrskeiðis fór. Oft hefur einnig verið ástæða til þess að minnast á það sem vel var gert, sumt alveg framúrskarandi. Eins hafa líka gefist tilefni til þess að drepa á fjölmiðlaumfjöllun, sem mætt hafði mikilli gagnrýni, jafnvel siðanefndarkærum eða hótunum um málshöfðun, brjóta hana til mergjar og útskýra af hverju hún væri réttmæt eða a.m.k. skiljanleg í ljósi aðstæðna. Auk ýmissa skrifa um blaðamennsku almennt og rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Því auðvitað er það svo, að megnið af fréttum eru réttar og gefa enga ástæðu til þess að að þeim sé fundið. Stundum má vissulega benda á að fréttir séu ekki nægilega tæmandi, svari ekki augljósum spurningum eða séu endasleppar að öðru leyti, en það má víst lengi telja.

Flest það, sem aflaga fer í fjölmiðlum, má rekja til mistaka eða tímaskorts, flumbrugangs eða óvarkárni. Það er svo sem lítil bót í máli, en þó skömm skárra en hitt, þegar fréttafrásögn tekur að lúta einhverjum öðrum lögmálum, hlífð eða fyrirframgefnum söguþræði, hagsmunum miðilsins, naumindum um kjarna málsins, æsingi eða skoðunum blaðamanns. Til allrar hamingju er slíkt afar fátítt, en kemur þó fyrir. Þess vegna er fjölmiðlarýni sem þessi nauðsynleg.

                                                                        ***

Ég vil að leiðarlokum þakka útgefendum, ritstjórum og blaðamönnum Viðskiptablaðsins fyrir samstarfið; þar hefur hvergi borið skugga á. Ég vil líka þakka kollegum mínum á öllum miðlum, sem hafa ekki látið mig gjalda þess að birta vikulegar ávítur á störf þeirra. Síðast en ekki síst þakka ég dyggum lesendum, sem bæði hafa hvatt mig til dáða og verið duglegir að senda inn ábendingar.

Stikkorð: Fjölmiðlarýni
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.