Meira en helmingur íslenskra fyrirtækja býr við skort á starfsfólki samkvæmt nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans, í fyrsta sinn síðan 2007. Staðan á vinnumarkaði minnir því meira á hressileg þensluár en nýlega hafinn viðsnúning eftir dramatískt efnahagsáfall. Það er rannsóknarefni í sjálfu sér.

Skorturinn er mestur í byggingariðnaði, sem boðar ekki gott fyrir húsnæðismarkað. Þörf er á að byggja um 4.000 íbúðir árlega á næstu árum. Margvíslegar hindranir eru þar í vegi en fleiri þurfa að fást til starfa í greininni til að markmið um uppbyggingu náist.

Þá hafa Samtök iðnaðarins áætlað að 9.000 sérfræðinga vanti til starfa í hugverkaiðnaði á næstu fimm árum. Náttúruleg fjölgun vinnuafls á Íslandi mun ekki uppfylla þá þörf. Við treystum því á að erlendir ríkisborgarar sjái hag sinn í því að flytjast hingað til lands til að styðja við lífsgæði okkar með sínu vinnuframlagi.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar IMD á samkeppnishæfni landa laðast erlendir sérfræðingar síður að viðskiptaumhverfinu á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Þá þykja lög um atvinnuréttindi útlendinga, opinber stjórnsýsla og umsóknarferli hamlandi.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinina má lesa í fullri lengd í Viðskiptablaðinu sem kom út 16. júní 2022.