Fyrirtæki sem bregðast ekki við loftslagsbreytingum munu án vafa verða gjaldþrota,“ sagði Mark Carney , fyrrverandi seðlabankastjóri Bretlands. Hann hefur ásamt fleirum lagt áherslu á að fyrirtæki dragi lærdóm af árinu 2020 og marki nýtt upphaf í rekstri fyrirtækja með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Það er í raun engum blöðum um það að fletta að sjálfbær þróun verður meginstef íslensks atvinnulífs á komandi árum. En hvað þýðir þetta margtogaða orð; sjálfbær þróun? Þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar eru efnahagsvöxtur, félagsleg velferð og vernd umhverfisins. Þessar þrjár stoðir þarf að skoða heildrænt til að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða umhverfið.

Farsælt samspil hins opinbera og atvinnulífs í sjálfbærri þróun hangir á því að einfalda regluverk, innleiða hagræna hvata, takmarka íþyngjandi kvaðir og leyfa einkaframtakinu að blómstra.

Náttúruauðlindir eru takmarkaðar í eðli sínu nema þeim séu gefnar skýrt hringrásarhlutverk með fullnýtingu þar sem jafnvægi á milli samfélags, náttúru og efnahags er forsenda aukinnar arðsemi. Ísland er nú þegar leiðandi á heimsvísu með þróun og nýtingu grænna orkugjafa. Á þeim grunni getur íslenskt atvinnulíf orðið leiðandi á sviði sjálfbærni í heiminum og mætt þörfum samtímans án þess að takmarka tækifæri komandi kynslóða. Miklir hagsmunir eru fólgnir í útflutningi á íslenskri sérþekkingu til þess að endurræsa efnahagslífið eftir heimsfaraldurinn. Þá skiptir máli fyrir íslenskt atvinnulíf að geta markaðssett kolefnishlutlausar vörur á alþjóðamarkaði.

Samspil margvíslegra þátta svo sem nýsköpunar og innleiðingar hringrásarhagkerfis munu leiða af sér nýjar lausnir sem gagnast vel í baráttunni við þá ógn sem loftslagsbreytingar eru. Samvinna stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga í landinu er lykilþáttur í hagkvæmara og umhverfisvænna þjóðfélagi. Styðja þarf innlenda sjálfbæra framleiðslu þar sem neytendur gera síauknar kröfur um vörur með lágt kolefnisspor.

Auknar kröfur um vistvænar vörur og þjónustu er hluti af veruleika fyrirtækja sem standa frammi fyrir breyttum framleiðsluháttum og margvíslegum áskorunum þegar kemur að því að innleiða sjálfbærni í rekstrinum. Samræmd viðmið og aðferðafræði verða að vera til staðar þegar kemur að mælingum og mati á stöðunni og árangri hverju sinni. Fjármálamarkaðir þurfa skýrar og yfirgripsmiklar upplýsingar um loftslagsbreytingar, áhættu og tækifæri. Það er mikilvægt að fyrirtæki geti verðlagt áhrif loftslagsbreytinga á reksturinn og styðjist við samanburðarhæfa og trúverðuga upplýsingagjöf.

Rannsóknir sýna að sjálfbær vegferð fyrirtækja eykur traust og samskipti milli starfsfólks, fjárfesta, viðskiptavina og annarra hagaðila.

Samtök atvinnulífsins og EY á Íslandi beina nú sjónum að ofangreindum sóknarfærum, hagsmunum og upplýsingagjöf á Sjálfbærnidegi atvinnulífsins. Sjónum verður beint að kolefnishlutleysi, sjálfbærni, UFS viðmiðum og fleiri áhugaverðum viðfangsefnum. Aðalfyrirlesari dagsins, Edward Sims , leiðandi sjálfbærnisérfræðingur EY í Evrópu, mun stíga á stokk og fjalla um ný viðskiptatækifæri með kolefnismörkuðum og hringrásarhagkerfi.

Sjálfbærni er leiðin út úr hvers kyns kreppu í átt að bjartari framtíð. Í þessari leið felst sókn en ekki hop, ásetningur um nýsköpun og frekari þróun en ekki snúningur sem felur í sér afturför. Íslenskt atvinnulíf hefur nú þegar áratugareynslu og burði til að vera þar í fararbroddi. Miðlum þeim árangri og stöndum vörð um hann.

Höfundur er forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.