Í Viðskiptablaðinu 8. septembersl. fjallar Trausti Hafliðason, aðstoðarritstjóri blaðsins, um gjöld sem ber að greiða við öflun leyfa til sjókvíaeldis hér á landi og vísar hann til umfjöllunar blaðsins frá 19. maí sl. um laxeldi og leyfismál.

Trausti dregur upp ansi einfalda og ranga mynd af kostnaði og gjöldum sem liggja til grundvallar leyfum. Hann bendir m.a. á að það kosti aðeins um 300 þúsund krónur að fá leyfi fyrir meira en 200 tonna laxeldi og að um sé að ræða fast gjald sem hækki ekki þó sótt sé um meira en 200 tonn. Þetta er rangt. Til eldisstarfs er ekki greitt fast gjald. Til reksturs fiskeldis þarf tvö sjálfstæð leyfi, þ.e. starfsleyfi og rekstrarleyfi. Grundvallarmunur er á því hvort óskað er eftir 199 tonna leyfi til laxeldis eða stærri framleiðslu. Óhagkvæmt er að reka 199 tonna eldisstöð eða minni og fer enginn í slíkan rekstur.

Dýrt að afla leyfa

Ef framleiða á 200 tonn eða meira á ári skal tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og tekur þá við langt og krefjandi ferli. Kostnaður eldisaðila við kaup á sérfræðivinnu og gagnaöflun vegna þessa hleypur á tugum milljóna króna. Verði niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, þá fyrst opnast leið til að sækja um starfs- og rekstrarleyfi.

Umhverfisstofnun innheimtir gjald fyrir vinnslu nýs starfsleyfis og er það tvíþætt. Annars vegar er um að ræða fastagjald sem er að lágmarki 246.000 krónur fyrir móttöku umsóknar, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu leyfis. Hins vegar fyrir frekari vinnu til að mynda við afgreiðslu innsendra athugasemda og opinbera kynningu á starfsleyfistillögu.

Fyrir útgáfu rekstrarleyfis er einnig innheimt gjald og skal það vera kr. 292.180 ef eldi er undir 199 tonnum en fyrir stærri leyfi er gjaldið kr. 333.920. Í rekstrarleyfi er gerð krafa um að leyfishafi kaupi tryggingu, kr. 3.000 fyrir hvert tonn, sem heimilt er að framleiða. Fyrirtæki með stór leyfi þurfa því að greiða umtalsverðar fjárhæðir. Að auki er gerð sú krafa í starfsleyfum að framkvæmdaraðili kaupi tryggingar vegna starfsemi sinnar.

Þar með er ekki öll sagan sögð því rekstrarleyfishafa ber að greiða árlegt gjald að fjárhæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Þetta þýðir að greiddar eru tæplega tvær milljónir króna fyrir hver þúsund tonn árlega. Félagið sem ég starfa fyrir, Laxar Fiskeldi ehf., greiðir 11,5 milljónir króna fyrir rekstrarleyfi félagsins á ári. Gjaldið er innheimt burt séð frá því hvort rekstur sé hafinn eða ekki.

Forsenda fyrir notkun leyfisins er að eldisaðili hafi yfir að ráða sjógönguseiðum. Ekki er tekið tillit til þess að aðiliþarf að klekja út seiðum og ala þau í landsstöðvum í rúmt ár áður en hann hefur fyrst tök á að nýta sér rekstrarleyfið. Að auki ber að greiða eftirlitsgjald fyrir leyfi og getur sú fjárhæð hlaupið á hundruðum þúsunda. Það er dýrt að afla stórra leyfa og árlega fellur til verulegur kostnaður á leyfishafa.

Norsk eldisleyfi ekki sambærileg

Trausti fjallar í grein sinni um söluverðmæti eldisleyfa í Noregi á frjálsum markaði og telur hann að verið sé að útdeila leyfum hérlendis á spottprís. Ef forsendur Trausta væru réttar væri það sannarlega staðan. Raunveruleikinn er hins vegar annar.

Eldisleyfi á Íslandi og í Noregi er ekki sambærileg. Í Noregi er hefð fyrir laxeldi þar sem öflugir innviðir hafa byggst upp á áratugum. Aldir hafa verið tugir kynslóða af laxi í fjörðum og góð reynsla er af þeim. Manngert umhverfi greinarinnar er eins og best verður á kosið. Í Noregi geta fyrirtæki leigt margvíslegan búnað tímabundið af sérstökum þjónustuaðilum. Íslensk fyrirtæki þurfa að kaupa og eiga allan búnað og má nefna brunnbátaþjónustu sem dæmi.

Mikilvægt er að halda því til haga í umræðunni að norsk yfirvöld hófu ekki sölu eldisleyfa fyrr en á þessari öld þegar iðnaðurinn hafði byggst upp og sannað sig þar í landi eftir áratuga þróun. Fram að því greiddu fyrirtæki aðeins fyrir starfs- og rekstrarleyfi.