*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Andrés Magnússon
18. ágúst 2016 13:41

Raddir kvenna

Þóra Tómasdóttir, ritstjóri Fréttatímans, bendir á kynferði umsjónarmanna morgunþátta, sem virðist brjóta öll lögmál tilviljana.

Þóra Tómasdóttir, ritstjóri Fréttatímans, kveikti á útvarpinu fyrir hádegi á þriðjudag, flakkaði milli stöðva og greindi Facebook-hópi „fjölmiðlanörda“ frá:

Útvarpið í morgun. Máni & Frosti á X-inu, Svali & Svavar á K100, Fannar & Benni á Rás 2, Heimir & Gulli á Bylgjunni, Kjartan & Hjörvar á 957.

Því er ekki að neita að þessi einsleitni í kynferði umsjónarmanna virðist brjóta öll lögmál tilviljana. Fjölmiðlarýnir hefur að vísu ekki lagst í ýtarlegar rannsóknir á kynjahlutföllum dagskrárgerðarmanna ljósvakans, en við yfirborðskennda skoðun virðist honum sem þessi dæmi Þóru séu alls ekki undantekningar.

Hér efst má sjá stöplarit yfir kynjahlutföll fréttamanna Ríkisútvarpsins undanfarin 20 ár, sem virðast í nokkuð föstum skorðum. Til hliðsjónar má nefna að í annarri dagskrárgerð í hljóðvarpi RÚV, bara samkvæmt dagskránni í gær, þá er hlutfallið algerlega eftir formúlunni: Þriðjungur eru konur, tveir þriðju karlar.

Í skjótu bragði verður ekki séð að hlutföllin séu verulega frábrugðin á öðrum stöðvum.

                                                         * * *

Auðvitað eru svona kyngreiningar takmörkunum háðar og auðvelt að tína til eitt og annað í því samhengi. Til dæmis að fjölmiðlun sé ekki fjölskylduvæn iðja og því kunni konur að heltast fyrr úr lestinni en karlar. Það skýrir þennan afgerandi mun samt ekki og vafalaust rétt að grafast frekar fyrir um hann. Stór hluti starfs fjölmiðlafólks á ljósvakanum snýr að framkomu – útliti, fasi, talanda – og það er liður í stjórn þeirra að velja framvarðasveitina af kostgæfni. Eru karlar virkilega svona miklu frambærilegri en konur?

                                                         * * *

Það er ekki aðeins á Íslandi, þar sem mikill kynjamunur er í útvarpi. Rannsókn hjá breska ríkisútvarpinu BBC leiddi í ljós að í útvarpsþáttum, þar sem stjórnandi var einn, var hlutfall kvenna aðeins 20%. Þegar litið er til þátta þar sem stjórnendur eru fleiri (þar vega fréttamagasínþættir þyngst en þeir eru jafnframt með langmesta hlustun) reyndist hlutfall kvenna aðeins 8%!

Það er varla að undra að breskar konur í hljóðvarpi hafi bundist samtökum (undir nafninu Sound Women) um að breyta þessu.

                                                         * * *

Nú geta vel verið ýmsar skýringar á þessu, svona innanhúss á hverjum miðli fyrir sig. En finnast einhverjar málefnalegar eða eigindlegar ástæður fyrir muninum? Eðli máls samkvæmt er munur á röddum kvenna og karla, getur hann skýrt þetta? Eru útvarpsraddir kynjanna misgóðar?

Auglýsingabransinn hefur rannsakað það mikið og jú, rannsóknirnar benda mjög eindregið til þess að hlustendur geri greinarmun á röddum kvenna og karla. Ekki þó þannig að raddir karla séu betri en kvenna, heldur þykja þær henta misvel eftir efni og markmiði. Í stórum dráttum má segja að raddir karla þyki valdsmannslegri, en raddir kvenna meira sannfærandi.

Það útskýrir hugsanlega hvers vegna mörgum fréttakonum er ráðlagt að reyna að dýpka talandann, en lítið annað. Og bætir engu við athugasemd Þóru. Útvarpið er fremur persónulegur miðill, jafnvel innilegur, og þar ættu raddir kvenna ekki að njóta sín síður en karla.

                                                         * * *

Við Tjarnarbakkann er höggmyndin Óþekkti embættismaðurinn eftir Magnús Tómasson, jakkalakki með stresstösku að neðan en óbifanlegt basaltbjarg að ofan. En þó að möppudýrin séu oft eins og andlitslaus og steinrunnin nátttröll, þá er engin ástæða til þess að fjölmiðlar láti þau njóta nafnleyndar.

Í vikunni voru sagðar fréttir af einstaklega ómannúðlegum vinnubrögðum sýslumannsins í Reykjavík, sem eru flestu fólki óskiljanleg. Hann stendur sem sagt í vegi fyrir því að krabbameinsveik íslensk kona fái að giftast erlendum unnusta sínum.

Fjölmiðlarýnir fær þó ekki séð að nokkur fjölmiðill hafi reynt að spyrja sýslumanninn í Reykjavík út í þetta. Raunar finnast ekki einu sinni dæmi þess að fjölmiðlarnir hafi nafngreint sýsla í þessum fréttum, hvað þá meir! Hér var í liðinni viku minnst á „áreiðanlegar heimildir“ fjölmiðla og nauðsyn þess að miðlarnir greini frá þeim, sem hafðir eru fyrir fréttunum. Ekki síður þarf þó ljóslega að segja frá því hverja fréttirnar eru um og rukka hlutaðeigandi um svör.

Það er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, sem ber ábyrgð á þessari embættisfærslu, ekki fulltrúi sýslumanns, afgreiðslan í Skógarhlíð eða einhverjir undirsátar aðrir. Sýslumaðurinn heitir Þórólfur Halldórsson* og númerið hans er í skránni.

*Athugasemd, nafninu hefur verið breytt frá prentútgáfu samkvæmt leiðréttingu höfundar hér að neðan:

Í fjölmiðlapistli dagsins var fundið að því að fjölmiðlar hefðu sagt fréttir af fyrirstöðu sýslumannsins í Reykjavík við hjúskaparáform krabbameinsveikrar íslenskrar konu og erlends unnusta hennar, en enginn þeirra rætt við sýslumanninn eða nefnt hann. Í pistlinum var sýslumaðurinn ranglega sagður vera Guðmundur Sophusson, en þær úreltu upplýsingar eru fengnar af vefsíðu embættisins. Umræddur sýslumaður er Þórólfur Halldórsson, en enginn fjölmiðill hefur heldur haft samband við hann eða getið hans í tengslum við fréttir af málinu. Guðmundur og lesendur eru beðnir afsökunar á ruglingnum.

Andrés Magnússon.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.