*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Huginn og muninn
24. desember 2021 09:32

Leiðtogakönnun Sjálfstæðisflokksins

Hrafnarnir lentu í úrtaki könnunar þar sem spurt var sundlaugar, nagladekk og framtíðarleiðtoga Sjálfstæðisflokksins í borginni.

Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds.
Haraldur Guðjónsson

Þau merku tíðindi urðu í vikunni að Eyþór Arnalds dró sig út úr leiðtogaslag Sjálfstæðisflokksins í borginni. Þetta eru miklar vendingar því einungis eru tveir mánuðir síðan hann tilkynnti í Silfrinu að hann hygðist gefa kost á sér áfram.

Þann 8. desember sendi Hildur Björnsdóttir frá sér tilkynningu, þar sem hún sagðist sækjast eftir oddvitasætinu en Hildur skipar í dag 2. sætið á lista flokksins í Reykjavík. Ákvörðun Hildar kom engum, sem fylgist með borgarpólitíkinni, á óvart. Eyþór brást við þessum tíðindum strax daginn eftir en þá sagðist hann fagna mótframboðinu. Í kjölfarið samþykkti stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, að halda leiðtogaprófkjör en ekki almennt prófkjör. Sú ákvörðun mætti andstöðu margra í flokknum enda var afar slök þátttaka í slíku prófkjöri síðast þegar það var haldið fyrir tæpum fjórum árum.

Andstaðan var skiljanleg því Sjálfstæðisflokkurinn í borginni hefur ekkert efni á því að klúðra prófkjörsmálum sínum. Niðurstaðan fyrir fjórum árum ber vitni um það sem og skoðanakönnunarprófkjörið, eða hvað þetta nú var, hjá Samfylkingunni fyrir ári síðan.

Á mánudaginn dró Eyþór framboð sitt tilbaka. Sagðist hann gera það af persónulegum ástæðum en ekki pólitískum. Sagðist hann ekki óttast prófkjör og áréttaði að ákvörðunin væri óháð því hvaða fyrirkomulag yrði viðhaft við val á framboðslista.

Fljótlega eftir yfirlýsinguna komu fram kenningar um að ástæðan væri sú að hann hefði komið illa út úr leynilegri skoðanakönnun. Í viðtali við Ríkisútvarpið í gær blés Eyþór á þessar kenningar og sagðist ekki hafa kannað fylgi sitt áður en hann hefði tekið ákvörðunina. 

Það getur svo sem vel verið rétt en hrafnarnir lentu þó í úrtaki skoðanakönnunar á vegum markaðsfyrirtækisins Prósent fyrir rúmri viku síðan. Í skoðanakönnuninni var spurt um sundlaugar, nagladekk og hvort Hildur eða Eyþór ætti að leiða Sjálfstæðisflokkinn í borginni.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.