Þegar maður hélt að erindisleysi efnahagslegu ribbaldanna í Eflingu gæti ekki orðið augljósara, þá toppa þau sig enn á ný.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem í gegnum tíðina hefur grátið krókódílatárum fyrir láglaunakonur, hefur nú ákveðið að taka sér stöðu með hálaunakörlum. Körlum, með á níunda hundrað þúsund krónur á mánuði í meðallaun fyrir að flytja olíu á milli staða. Klessi þeir á og olíuleki verður, bera þeir enga ábyrgð á þeim umhverfisspjöllum sem verða.

Örvar Þór Guðmundsson bílstjóri, trúnaðarmaður hjá Olíudreifingu og stuðningsmaður verkfallsins, sagði í samtali við mbl.is að auðveldlega mætti rökstyðja hækkun á tímakaupi sem þeir vilji. Þeir hafi nefnilega um árabil þurft alþjóðleg ADR réttindi til starfs síns, en um er að ræða um fimm daga námskeið hjá Vinnueftirlitinu.

Olíubílstjórarnir eru með hærri laun en til dæmis hjúkrunarfræðingar, sem þó starfa undir miklu meira álagi, geta þurft að þola saksókn fyrir mistök í starfi og eru með margra ára háskólamenntun á bakinu. Það er ekkert sem réttlætir að olíubílstjórar hækki umfram þær gríðarlegu hækkanir sem annað launafólk hefur samið um undanfarið og verkfall þeirra er einfaldlega siðlaust.

Sólveig Anna, sem dreymir um að verða kommúnistaforingi sem leiðir byltingu upp úr efnahagslegum hremmingum sem hún sjálf skapar, hefur væntanlega elskað það að lögregla og slökkvilið hafi þurft að skríða fyrir fótum henni til að geta haldið uppi eðlilegri starfsemi. Það að svo mikilvægar öryggisstofnanir séu upp á náð og miskunn Sólveigar Önnu komnar er Tý verulegt áhyggjuefni.

Týr hefur oft og með margvíslegum rökum bent á að Sólveigu Önnu sé líklega sama um öreigann og að honum blæði til að hún nái pólitískum markmiðum sínum. Þetta verkfall freku karlanna mun sem fyrr helst bitna á láglaunafólkinu, sem enn ekur á gömlum bensíndruslum.

Millistéttin og ríka fólkið eru öll löngu komin á rafbíla.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, enþessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 16 febrúar.