*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Týr
14. desember 2018 13:54

Leikhús ömurleikans

Verður leikuppsetning Borgarleikhússins á svívirðingunum á Klaustri endurtekin um áreiti þingmanns góða fólksins?

Kristín Eysteinsdóttir er leikhússtjóri Borgarleikhússins.
Haraldur Guðjónsson

Að sjálfum ummælunum á Klausturbarnum frátöldum er einn versti þáttur málsins líklega leikuppsetning Borgarleikshússins á svívirðingunum.

                                                           ***

Ekki er minnsti vafi á því að með uppsetningunni ætluðu forsvarsmenn Borgarleikhússins að leggja sitt af mörkum til aðhróps og opinberrar smánunar á sexmenningunum af knæpunni. Var þó enginn hörgull á fordæmingu þeirra, enda margir helstu sóðakjaftar landsins, jafnt virkir í athugasemdum sem snyrtipennarnir á Stundinni, komnir á kreik mjög sjokkeraðir yfir orðbragðinu. Að því leyti bætti leikhúsið engu við heldur hjakkaði í því sama og margir aðrir.

                                                           ***

Það sem Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra og Bergi Þór Ingólfssyni leikstjóra yfirsást hins vegar algerlega, er að í málinu eru þolendur. Fólk sem varð fyrir svívirðingunum og þarf jafnvel að útskýra þær fyrir börnum sínum. Ekki er það verkefni auðveldar viðureignar þegar virðulegt leikhús hefur látið atvinnuleikara lesa óhroðann upp undir klappi og hlátri þess fámenna hóps, sem hafði geðslag til að mæta á leikana. Hin ömurlega leikgerð var svo sett á netið til ævarandi geymslu.

                                                           ***

Menntamálaráðherra kallaði svívirðingarnar af Klausturbarnum árás og ofbeldi. Hvers vegna endurtók Borgarleikhúsið þessar árásir?

                                                           ***

En kannski áttaði leikstjórinn sig vel á því að í málinu væru þolendur, en löngunin til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga varð einfaldlega yfirsterkari hluttekningu með þolendum.

                                                           ***

Í því samhengi má spyrja hvort Bergur Þór Ingólfsson ætli nokkuð að setja á svið það áreiti, sem kona varð fyrir að hendi þingmanns Samfylkingarinnar í vor og varð opinbert fréttamál nýlega. Satt best að segja býst þó enginn við því að hann geri það þegar um þingmann góða fólksins er að ræða. Þegar góða fólkinu verður á messunni missir leikhúsið skyndilega hið mikla samfélagslega erindi sitt og þögnin tekur við.

                                                           ***

Það er líka sjálfsagt að spyrja hver bar kostnaðinn af þessari smekklausu leiksýningu Borgarleikhússins. Eru það útsvarsgreiðendur í Reykjavík, sem fá reikninginn fyrir því að leikhúsið ákvað að velta sér upp úr forinni og láta sletturnar ganga yfir allt og alla?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.