*

föstudagur, 5. júní 2020
Huginn og muninn
3. ágúst 2019 10:22

Leikhúsrýnir á villigötum

Hrafnarnir benda Jóni Viðari Jónssyni á að seðlabankastjórar þurfa stundum að vera óskýrir í svörum.

Ásgeir Jónsson, nýr seðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Fólk hafði eitt og annað að segja um skipun Ásgeirs Jónssonar sem seðlabankastjóra, en þar á meðal var Jón Viðar Jónsson, Íslands æðsti leiklistarkrítíker. Hann hafði þó ekkert að segja um bakgrunn Ásgeirs, afstöðu í peningamálum eða ámóta, heldur hélt sig við sína eigin sérgrein og fann að framsögn seðlabankastjórans nýja í viðtölum. Þeir sem þekkja Ásgeir vita þó sem er, að hann á það til að stama og beitir sérstökum talanda til þess að vera lausari við það, en getur fyrir vikið orðið óskýrmæltur.

Hins vegar blasir við að Jón Viðar ber ekki nægilegt skynbragð á hlutverk seðlabankastjóra. Hann þarf iðulega að tjá sig um viðkvæm mál, sem haft geta áhrif á markaði og þjóðarhag, og því eins gott að vera ekki of ómyrkur í máli. Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, svaraði einhverju sinni fyrirspurn úr sal um vaxtastefnuna, en fyrirspyrjandinn þakkaði að lokum kærlega fyrir skýr svör. Greenspan svaraði þurrlega: „Hafi ég verið of skýr í svörum, þá hljótið þér að hafa misskilið mig.“ 

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.