*

mánudagur, 17. júní 2019
Ásgeir Margeirsson
5. ágúst 2018 12:31

Leikreglur lýðræðisins

„Við erum með lög og reglur í landinu en án nokkurs rökstuðnings geta samtök sett stórar framkvæmdir sem hafa farið í gegnum lögbundið ferli, í uppnám með tilheyrandi kostnaði og töfum.“

Haraldur Jónasson

Virkjanaframkvæmdir hafa ætíð og munu líklega alltaf verða umdeildar. Líklega eru allir sammála um mikilvægi þess að vanda vel til slíkra framkvæmda og líklega ekki síst að velja og hafna, hvað er gert og hvað ekki. Ekkert orkufyrirtæki reisir virkjanir að gamni sínu eða bara til að virkja, þau eru ætíð að bregðast við orkuþörf í landinu. Samkvæmt raforkuspá Orkuspárnefndar þarf um 150 MW nýtt afl inn í kerfið til ársins 2030. Þessi orka er ekki til í kerfinu í dag. Í spánni er einungis verið að horfa til almenna markaðarins en ekki þátta eins og aukinnar notkunar vegna rafbílavæðingar landsmanna. Ekki er heldur tekið tillit til stærri uppbyggingar í atvinnurekstri eins og gagnavera og kísilvera. Markaðurinn hefur kallað eftir aukinni raforku til gagnavera, m.a. vegna rafmynta. Það er mikilvægt að hafa í huga að ákvarðanir um þróun atvinnustarfsemi á landinu eru ekki á höndum orkufyrirtækja, þar ráða að sjálfsögðu lögmál markaðarins og leyfisveitingar stjórnvalda.

Við Íslendingar stöndum vel að því leyti að við erum með ákveðið ferli þegar kemur að ákvarðanatöku í virkjanaframkvæmdum.  Ferlið er lögbundið, meðal annars með aðkomu stjórnvalda (ráðherra og alþingis), sveitarfélaga og fjölmargra opinberra stofnana. Ferlið tekur langan tíma þar sem öllum gefst tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri. Þó við séum ekki alltaf sammála um niðurstöður mats og flokkunar virkjanakosta í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk þá er mikilvægt fyrir okkur að virða þessar leikreglur lýðræðissamfélagsins. Því hvað stendur eftir ef þær eru brotnar þegar einhverjum líkar ekki niðurstaðan? Við verðum að geta treyst þessu ferli sem og þeim fjölmörgu sérfræðingum sem hafa metið ólíka virkjanakosti. Við þurfum ekki að vera sammála þeirri flokkun en það er einmitt lýðræðið í sinni tærustu mynd. Því miður hafa nýleg dæmi sýnt okkur að ekki eru allir tilbúnir til að fylgja þessum leikreglum.

Brúarvirkjun

Brúarvirkjun er 9,9 MW  rennslisvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum og eru landeigendur Skógrækt ríkisins og bændur á bænum Brú. Undirbúningur að virkjuninni hefur staðið í mörg ár og hefur HS Orka átt gott samstarf við landeigendur og sveitarfélagið Bláskógabyggð.  Jákvæð áhrif virkjunarinnar á nærliggjandi byggðir eru talsverð en hún mun meðal annars styrkja afhendingaröryggi raforku í nágrannabyggðum, þar sem til að mynda eru fjölmörg stór gróðurhús. Stofnkerfi raforku styrkist á stóru svæði með lagningu háspennustrengs frá jörðinni Brú til Reykholts og einnig munu virkjunarframkvæmdir skapa störf á svæðinu, bæði á byggingartíma sem og þegar rekstur hefst. Að auki hefur verið lagður rafstrengur að Bláfelli og í Skálpanes á Kili, til að styrkja öryggi á hálendinu, í samstarfi við Neyðarlínuna og fleiri aðila.

Vegna stærðar virkjunarinnar gerir löggjafarvaldið ekki kröfu um að hún fari í umhverfismat en HS Orka valdi að fara þá leið til að vanda til verka, gæta allra hagsmuna og bregðast við þeim athugasemdum sem fram gætu komið. Engar efnislegar athugasemdir komu fram á neinu stigi í þessu ferli þ.e. hvorki á skipulagsstigi né við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Framkvæmdaleyfi var gefið út 2. febrúar 2018, fyrsta skóflustunga tekin 23. mars og nokkrum dögum seinna barst kæra frá Landvernd og Náttúruverndarsamtökum Suðurlands, þar sem veiting framkvæmdaleyfis var kærð og þess krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Rökin voru meðal annars að framkvæmdin hefði komið kærendum á óvart og að rannsóknir hefðu verið af skornum skammti. Þessi rök eru eftirtektarverð sérstaklega ef horft er til þess að kærendur lögðu fram kæru vegna þessara framkvæmda nokkrum vikum áður. Einnig voru umhverfismat og skipulagsbreytingar vegna verkefnisins tryggilega kynnt og auglýst. Varðandi skort á rannsóknum er ljóst að kærendur hafa ekki kynnt sér þau ógrynni af rannsóknum og gögnum frá sérfræðingum sem liggja til hliðsjónar þegar framkvæmdarleyfi er gefið út, allt gögn sem eru aðgengileg öllum sem sjá vilja.

Þann 8. maí sl. hafnaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Enn bíður HS Orka eftir niðurstöðu á meðferð kærunnar, með tilheyrandi óvissu. Af hverju kærendur ákváðu að taka ekki þátt í ferli sem er sett upp til að hagsmunaaðilar geti haft áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir er með öllu óskiljanlegt.

Hvalárvirkjun

Hvalárvirkjun er 55 MW vatnsaflsvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum.  VesturVerk ehf. á Ísafirði stendur að framkvæmdinni en fyrirtækið er í 70% eigu HS Orku. Virkjunin hefur verið í orkunýtingarflokki rammaáætlunar síðan 2013. Rökin fyrir þeirri flokkun voru m.a. að um eina virkjunarkostinn á Vestfjörðum var að ræða og að virkjun á Vestfjörðum skipti miklu máli fyrir orkuöryggi þar. Áður en virkjunin fór í nýtingarflokk var búið að skoða fleiri virkjunarkosti á svæðinu og þótti Hvalárvirkjun besti kosturinn. Skipulagsstofnun hefur í tvígang staðfest breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps vegna Hvalárvirkjunar.

Raforkuöryggi á Vestfjörðum er fjarri því fullnægjandi og nýjasta virkjunin á svæðinu til koma til móts við það vandamál er stór dísilrafstöð í Bolungarvík. Það verður að teljast undarlegt að við Íslendingar sem erum aðilar að Parísarsamkomulaginu varðandi loftlagsmál skulum samþykkja að nota dísilrafstöð með tilheyrandi mengun til raforkuframleiðslu þegar við höfum tækifæri að nýta hreina endurnýjanlega orku.

Málið hefur tekið undarlega stefnu síðustu vikurnar þar sem Náttúrufræðistofnun hefur lagt til að fyrirhugað svæði friðlýsingar við Drangajökul verði stækkað og nái þar með yfir athafnasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar og Austurgilsvirkjunar.  Gangi þessi friðlýsing eftir mun hún koma í veg fyrir byggingu þessara virkjana. Hvalárvirkjun er eins og áður hefur komið fram í nýtingarflokki rammaáætlunar og hefur verið í honum í fimm ár.  Þessi ár hafa verið nýtt til að afla tilskilinna leyfa, framkvæma mat á umhverfisáhrifum, gera rannsóknir á svæðinu og annað sem tilheyrir því umfangsmikla og vandasama verkefni að byggja virkjun.

Gangi þessi friðun eftir er verið að kollvarpa því lögbundna ferli sem er við lýði og hverjar eru þá leikreglurnar varðandi orkukosti til að bregðast við vaxandi þörf og flokkanir á þeim?  Hafa verður í huga að með samþykki rammaáætlunar hefur Alþingi fyrir sitt leyti gefið heimild til að halda áfram vinnu og rannsóknum á virkjunarkostum í nýtingarflokki.

Í mati á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar í apríl 2017 taldi Náttúrufræðistofnun að sérstakar jarðminjar yrðu ekki fyrir áhrifum af virkjuninni. Núna ári seinna telur stofnunin hið gagnstæða, sem er eftirtektarvert.  Eftir að Hvalárvirkjun fór í nýtingarflokk rammaáætlunar hefur stofnunin á nokkrum stigum máls haft tækifæri til að koma slíkum ábendingum á framfæri og ekki gert það.

Lagaramminn er skýr 

Ferli og umgjörð virkjanaframkvæmda hér á landi er vissulega umhugsunarefni. Það er sérstakt að hægt sé að kæra framkvæmd með tilheyrandi kostnaði fyrir framkvæmdaraðila án rökstuðnings. Ekki virðist heldur vera sett sú lágmarkskrafa á kærendur að þeir hafi kynnt sér fyrirliggjandi gögn sem ólíkir sérfræðingar hafa unnið á undirbúningstímanum.

Langt og ítarlegt ferli er í skipulagslögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda til að hagsmunaaðilar geti komið með athugasemdir á undirbúningstímanum. Sú aðferð að hreyfa ekki andmælum á kynningarstigi gefur til kynna að viðkomandi aðilar séu samþykkir ferlinu eða framkvæmdunum. Kærur sem koma síðan á staðfest aðal- og deiliskipulag ganga gegn grunnsjónarmiðum um kynningu og samráð sem lögin byggja á.

Við erum með lög og reglur í landinu en án nokkurs rökstuðnings geta samtök sett stórar framkvæmdir sem hafa farið í gegnum lögbundið ferli, í uppnám með tilheyrandi kostnaði og töfum. Það hlýtur að vera öllum ljóst að þessu verður að breyta. Afleiðingin er áframhaldandi ástand með takmörkuðu framboði á raforku og óásættanlegu orkuöryggi víða um land, uppbyggingu samfélagsins til trafala.

Höfundur er forstjóri HS Orku. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is