*

mánudagur, 15. júlí 2019
Sif Konráðsdóttir
22. ágúst 2018 09:31

Leikreglur og virkjun

Forstjóri HS Orku skrifar skoðanapistil í Viðskiptablaðið 2. ágúst sl. sem hann kallar Leikreglur lýðræðisins. Hvimleiðar rangfærslur eru í pistlinum.

Fossinn Drynjandi í Ófeigsfirði.
Aðsend mynd

Forstjóri HS Orku skrifar skoðanapistil í Viðskiptablaðið 2. ágúst sl. sem hann kallar Leikreglur lýðræðisins. Hvimleiðar rangfærslur eru í pistlinum.

Þögn er ekki samþykki

Forstjórinn segir að ætla megi að sá sem ekki hreyfir athugasemd í umhverfismati virkjunarframkvæmdar sé samþykkur „ferlinu eða framkvæmdinni". Enginn telst vera samþykkur virkjun vegna þess eins að hann gerir ekki athugasemd í umhverfismati. Það skiptir nákvæmlega engu máli um kærurétt hvort viðkomandi hafi áður haft sig í frammi. Tveir alþjóðasamningar og íslensk lög banna að slíkar reglur yrðu settar. Það eru leikreglur lýðræðisins.

Jarðminjar á Ófeigsfjarðarheiði

Forstjóri HS Orku segir að í mati á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar hafi Náttúrufræðistofnun talið að sérstakar jarðminjar yrðu ekki fyrir áhrifum. Hér hefur heldur betur skolast til hjá forstjóranum, því Náttúrufræðistofnun benti einmitt á það 2016 að svæðið virtist ekki hafa verið kannað m.t.t. jarðfræðinnar. Þetta hafði stofnunin raunar áður gert varðandi Austurgilsvirkjun á sama svæði. Það er óþægilegt þegar forstjóri móðurfélags virkjunaraðilans ruglar þannig eigin skoðun saman við umsögn Náttúrufræðistofnunar. Staðhæfingar virkjunaraðilans um að sérstakar jarðminjar yrðu ekki fyrir áhrifum studdust ekki við rannsóknir, og á það benti stofnunin. Eftir að hafa beitt leikreglum lýðræðisins var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif Hvalárvirkjunar á jarðminjar yrðu talsvert neikvæð.

Endurskoðun leyfis: leikreglur lýðræðis

Forstjórinn gengur út frá því að eitthvað sem hafi farið í gegnum „lögbundið ferli" megi ekki endurskoða. Hann segir að samtök geti sett stórar framkvæmdir í uppnám með töfum og kostnaði. Þessu verði að breyta. Forstjóranum bendi ég á að leyfisveitingar fyrir stórum framkvæmdum eru einmitt þær ákvarðanir sem samtök almennings verða að geta borið undir úrskurðaraðila og dómstóla. Þetta er vegna alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að; EES samningsins og Árósasamningsins. Íslensk lög hafa verið sett til samræmis. Sá sem kærir verður að rökstyðja mál sitt. Þetta er allt tryggt með lögum og framkvæmd þeirra, þrátt fyrir að forstjórinn fullyrði annað. Íslensk lög leyfa samtökum hinsvegar ekki að kæra skipulagsákvarðanir eða bera þær undir dómstóla. Forstjórinn hlýtur að vita það þó annað megi ráða af pistli hans.

Stóru fyrirtækin með stóru framkvæmdirnar verða að sætta sig við það að lögunum verði áfram beitt í þágu umhverfisverndar. Þau lög verða aldrei afnumin og engum samtökum verður nokkru sinni bannað að bera þau fyrir sig umhverfisvernd til framdráttar. Þannig eru leikreglur lýðræðisins.

Höfundur er lögfræðingur

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is