Í Viðskiptablaðinu á föstudag fjallaði Óðinn um stýrivaxtahækkun Seðlabankans og dæmi sem var tekið um hvaða áhrif lækkun ríkisútgjalda hefði á verðbólgu, viðskiptahalla og fleiri hagstærðir.

Pistillinn nefndist Stýrivaxtahækkun, leikskólabókardæmið, offita og ráðherrabílar.

Hér er stutt brot úr pistlinum en áskrifendur geta lesið hann hér í fullri lengd.

Offitan í ríkisrekstrinum

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var ákaflega góð umfjöllun um ofvöxtinn hjá ríkinu. Þar var fjallað um Alþingi:

Alþingi er dæmi um stofnun sem ætla mætti að hefði verkefni sem eru í föstum skorðum og breytast lítið. Eigi að síður hafa fjárheimildir Alþingis aukist gríðarlega gegnum árin.

Þannig námu fjárheimildir þingsins ríflega þremur milljörðum króna um aldamótin á verðlagi ársins 2022. Fjárheimildir ársins 2021 voru tæplega fimm milljarðar og er þetta því hækkun um 51%.

Einnig hefur starfsmönnum þingsins fjölgað mikið eða um 60% frá árinu 1999. Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi starfa 149 í þinginu en þeir voru 93 árið 1999. Launakostnaður hefur jafnframt aukist gríðarlega eða um 99% á föstu verðlagi.

Hvernig tókst stjórnmálastéttinni að fjölga starfsmönnum á Alþingi um 56 á rúmum tuttugu árum? Jú. Með því að láta Alþingi greiða laun pólitískra starfsmanna.

Sautján nýir pólitískir starfsmenn bættust við á þremur árum, átta árið 2019, fimm árið 2020, og fjórir árið 2021. Að auki var störfum ritara þingflokka breytt í pólitískar stöður.

Þetta gerðist á sama tíma og framlög til stjórnmálaflokka voru tvöfölduð. Fóru úr um 350 milljónum króna í 700 milljónir króna á ári.

***

Bjarkey Olsen ferðast helst um í Saga Class. Hún er formaður fjárlaganefndar.

Líka fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar

Hefur þetta skilað betri þingstörfum? Nei. Það er einmitt kannski þess vegna sem Seðlabankinn grípur til þess bragðs að sýna þeim leikskólabókardæmi.

Því er ekki aðeins ætlað ríkisstjórninni heldur einnig þingmönnum stjórnarandstöðunnar, sem hafa flestir ekki nokkurn skilning á grundvallaratriðum hagfræðinnar.

Þarna er kannski komin hugmynd að fræðsluferð fyrir alla þingmenn. Fara til Vínarborgar, sem þó er ekki kennd við vín þó það fáist vissulega þar, og læra svolítið af austurrísku hagfræðingunum um grundvallaratriðin.

Óðinn væri til í að kosta þá ferð. Hann varar þó Bjarkeyju Olsen við því að eina flugfélagið sem flýgur til Vínar er lággjaldaflugfélagið Wizz Air.

Þar er ekkert Saga Class að finna. Og hvítvínið er heldur súrt.

En fátt er svo með öllu illt, frú Olsen. Á Imperial hótelinu er einhver allra flottasti bar borginnar sem hæfir fólki sem er vinstri grænt af öfund.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út föstudaginn 26. maí. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.