*

föstudagur, 16. apríl 2021
Týr
28. febrúar 2021 11:32

Leikþátturinn

Týr ræðir leikþáttinn í kringum sóttvarnarreglur og bendir á að hann bjóði upp á hættulegar sviðsmyndir um valdbeitingu hins opinbera.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Haraldur Jónasson

Við þekkjum verklagið. Sóttvarnalæknir leggur fram minnisblað til heilbrigðisráðherra, þar sem ýmist eru lagðar til auknar samkomutakmarkanir eða aðrar hömlur á mannleg samskipti - eða hóflegar tilslakanir. Heilbrigðisráðherra leggur tillögurnar fram í ríkisstjórn þar sem málin eru rædd klukkutímum saman og yfirleitt endar ríkisstjórnin á því að samþykkja tillögur sóttvarnalæknis. Í kjölfarið koma ráðherrarnir út af fundinum og segja við fjölmiðla að eining ríki um þær ákvarðanir sem teknar eru. Það er auðvitað leikþáttur. Týr veit sem er að innan ríkisstjórnarinnar ríkir engin sérstök eining, nema um það eitt að það sé faglegt að fara að ráðum sérfræðinganna og ófaglegt að gera það ekki.

* * *

Það hefur ýmislegt breyst á því tæpu ári sem liðið er frá því að kórónuveiru-faraldurinn gerði fyrst vart við sig. Síðastliðið vor gripu stjórnvöld til harðra samkomutakmarkana í þeim tilgangi að halda veirunni í skefjum. Þjóðin tók þátt og það þótti við hæfi að hlýða Víði. Okkur tókst að verja viðkvæmustu hópana og eina alvarlega hópsmitið átti sér stað á hinu ríkisrekna Landakoti. Nú er það orðið markmið stjórnvalda að eyða veirunni alfarið úr samfélaginu en enginn getur útskýrt hver tók þá ákvörðun, hvenær og hvernig. Leikþátturinn heldur því áfram - á kostnað einkageirans.

* * *

Leikþátturinn býður þó einnig upp á hættulegar sviðsmyndir um valdbeitingu hins opinbera. Síðastliðið haust óðu stjórnvöld í kreditkortafærslur einstaklinga án þess að nokkur hreyfði við mótmælum. Stjórnvöld nafngreina veitingastaði og bari sem mögulega hafa kannski brotið sóttvarnareglur, talað er um að viðhalda takmörkunum þrátt fyrir bólusetningu og í síðustu viku hélt sóttvarnalæknir því fram á upplýsingafundi almannavarna að hann gæti ekki betur séð en að fólki líði „bara vel með þessar grímur".

* * *

Það þarf ákveðið stjórnlyndi til að tala með þessum hætti. Fáir þora þó að mótmæla upphátt og það er í raun sjálfstætt vandamál ef ekki má spyrja gagnrýnna spurninga um ákvarðanir stjórnvalda. Það er hættuleg þróun, mögulega hættulegri en veiran sjálf.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.