Vísað er til greinar um Kjarnann sem birtist í Þjóðmálum, 15. árgangi, vor 2019, 1. hefti, sem Viðskiptablaðið hefur í nokkur skipti gert að umtalsefni í ritstjórnarefni.

Í nýlegri orðsendingu til ritstjóra Þjóðmála óskaði ég eftir því að rangfærslur sem birtust í greininni um Kjarnann yrðu leiðréttar og að höfundur greinarinnar, Sigurður Már Jónsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Íslands, myndi biðjast afsökunar á þeim.

Beiðninni hefur ekki verið svarað.

Sérstaklega var óskað eftir því að eftirtaldar rangfærslur í greininni yrðu leiðréttar, samanber eftirfarandi athugasemdir við textann sem birtist í greininni um Kjarnann.

---

1. Í grein Sigurðar Más segir: „Þegar við blasti að vinstrimenn myndu gjalda afhroð og missa stjórnartaumana í kosningum til Alþingis vorið 2013 fóru nokkrir vinstrisinnaðir einstaklingar úr fjölmiðlum, stjórnmálum og viðskiptalífi að kanna möguleika á því að stofna nýjan fjölmiðil sem gæti veitt yfirvofandi hægristjórn mótstöðu. Niðurstaðan var sú að vefmiðillinn Kjarninn var formlega stofnaður hinn 1. júní 2013, viku eftir að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók til starfa.“

Fyrir þessari fullyrðingu um hvatann af stofnun Kjarnans, færir Sigurður Már engar sannanir. Fullyrðingarnar eru rangar og Sigurður Már hefði getað sannreynt það með því að kynna sér stofngögn Kjarnans sem eru aðgengileg í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hverjum sem þau vill sækja. Þar kemur skýrt fram hverjir stofnuðu miðilinn, hvernig staðið var að stofnun hans og hversu mikið fjármagn var lagt til.

Um var að ræða sex manns, fjóra blaða­menn, einn fyrr­ver­andi starfs­mann fjar­skipta­fyr­ir­tækis og einn mark­aðs­mann. Eng­inn í þessum hópi hefur nokkru sinni starfað í stjórn­mála­flokki. Eng­inn var fjár­festir í öðru en eigin húsnæði eða gæti fallið undir skil­grein­ing­una að vera „úr við­skipta­líf­in­u“. Allt það fé sem lagt var til við stofn­un­ina kom frá þeim sem stofn­uðu mið­il­inn.

---

2. Í grein Sigurðar Más segir: „Lengst af hefur fjölmiðillinn orðið að treysta á fórnfýsi eigenda sinna, sem hafa hlaupið undir bagga, ýmist með lánum eða auknu hlutafé, en eins hafa starfsmenn í einhverjum tilvikum þegið hlutabréf, sem við þessar aðstæður eru verðlaus. “

Enginn starfsmaður Kjarnans hefur nokkru sinni þegið hlutabréf frá félaginu. Engin bréf hafa nokkru sinni skipt um hendur nema að greitt hafi verið fyrir. Virði hvers hlutar í síðustu gerðu viðskiptum kemur fram í gögnum sem skilað hefur verið inn til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra líkt og lög gera ráð fyrir. Fullyrðing Sigurðar Más er því röng og hann hefði getað komist hjá því að setja fram þá röngu tilkynningu með því að verða sér úti um gögn frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, sem eru opinber.

---

3. Í grein Sigurðar Más segir: „Í seinni tíð hefur mið­ill­inn orðið að skera niður starf­semi sína og flokk­ast hann nú undir það að vera eins konar blogg­síða sem birtir hug­leið­ingar Þórðar Snæs[ritstjóra Kjarnans] og treystir mikið á end­ur­birt­ingar frétta úr öðrum fjöl­miðl­u­m“.

Fullyrðing Sigurðar Más er röng og ef hann hefði vandað upplýsingaöflun sína þá hefði hann getað komist hjá henni. Á fyrstu 17 vikum ársins 2019 birtust samtals tíu skoðanagreinar eftir ritstjóra Kjarnans á vef hans en önnur efni sem þar birtust voru yfir eitt þúsund. Skoðanaefni ritstjórans er því vel undir eitt prósent af birtu efni á vef Kjarnans. Nær allt það efni er frumunnið, þótt Kjarninn sannarlega segi frá völdum fréttum sem birtast í öðrum miðlum og ritstjórn hans telur að eigi erindi við lesendur hans, sérstaklega þegar um stór mál er að ræða sem Kjarninn hefur sjálfur fjallað umtalsvert um í frumunnum fréttum og fréttaskýringum.

----

4. Í grein Sigurðar Más segir: „Af­skriftir og end­ur­fjár­mögnun hefur nokkrum sinnum verið end­ur­tek­in, en nú má heita að starf­semi mið­ils­ins sé í lág­marki.“

Fullyrðing Sigurðar Más er röng. Engar afskriftir, í þeim skilningi að skuldir hafi verið niðurfærðar án endurgjalds, hafa átt sér stað í rekstri Kjarnans frá því að hann var stofnaður. Í hugtakinu endurfjármögnun felst að taka nýtt lán til að greiða gamalt. Slíkt hefur aldrei átt sér stað í sögu Kjarnans. Einu lánin sem hann hefur tekið eru yfirdráttur sem er ekki ádreginn, og er með persónulegri ábyrgð, og hluthafalán sem síðar var breytt í nýtt hlutafé. Engin endurfjármögnun hefur átt sér stað og fullyrðingar um slíkt því rangar.

Hægt er að nálgast upplýsingar um slíkt í gögnum sem skilað hefur verið inn til fyrirtækjaskráar ríkisskattstjóra og í birtum ársreikningum. Auk þess er rangt að starfsemi miðilsins sé í lágmarki. Velta Kjarnans hefur þvert á móti aldrei verið meiri (um 25 prósent vöxtur milli 2017 og 2018) og kostnaður vegna framleiðslu á ritstjórnarefni, þ.e. launagreiðslur til fastráðinna starfsmanna og verktaka, hefur aldrei verið hærri. Hægt er að nálgast lista yfir eigendur Kjarnans á vef Fjölmiðlanefndar.

---

5. Í grein Sigurðar Más segir: „Af upp­haf­legu rit­stjórn­inni eru aðeins Þórður Snær Júl­í­us­son og Magnús Hall­dórs­son eft­ir, sá síð­ar­nefndi raunar mjög laustengd­ur, býr erlendis og sinnir fyrst og fremst viku­rit­inu Vís­bend­ing­u.“

Fullyrðing Sigurðar Más um framlag og starfshlutfall mitt er röng og ef hann hefði vandað upplýsingaöflun sína þá hefði hann getað komist hjá henni. Magnús Halldórsson hefur verið í 100 prósent starfi á Kjarnanum frá því að hann var stofnaður árið 2013.

Efni eftir hann birtist nær alla daga á miðlinum, merkt blaðamanninum. Auk þess ritstýrir hann útgáfu Vísbendingar, rits sem gefið er út af Kjarnanum. Sigurður Már hefði getað komist hjá því að setja fram þessa röngu fullyrðingu með því að fara inn á vef Kjarnans og skoða það efni sem þar birtist.

---

6. Í grein Sigurðar Más segir: „meg­in­vandi Kjarn­ans hefur alla tíð verið að lest­ur­inn hefur látið á sér standa[...] Sam­ræmdar vef­mæl­ingar bentu til þess að honum hefði aldrei auðn­ast að ná út fyrir til­tölu­lega lít­inn kjarna les­enda (svo segja má að mið­ill­inn hafi borið nafn með rent­u). Nú er svo komið að Kjarn­inn nær hvorki á blað í vef­mæl­ingum Gallups né Modern­us.“

Fullyrðing Sigurðar Más um mælingar á lestri Kjarnans er röng. Hið rétta er að Kjarninn hefur ekki tekið þátt í vefmælingum þeirra fyrirtækja sem framkvæma slíka frá því í viku 10 2018. Í mælingum Gallup, sem eru ráðandi á vefmælingarmarkaði, er auk þess birtur tæmandi listi yfir alla þá vefmiðla sem greiða fyrirtækinu fyrir mælingu á lestri sínum. Það er þar af leiðandi ómögulegt að komast ekki „á blað“. Þótt miðill sé með einn vikulegan lesanda þá kemst hann samt á blað. Fullyrðingar Sigurðar Más um lítinn lestur Kjarnans fela því í sér rangfærslu byggða á rangri ályktun, sem byggði á rangfærslu.

Sigurður Már hefði getað komist hjá því að setja fram þessa röngu fullyrðingu með því að skoða mælingar aftur í tímann, og sjá að Kjarninn var í mælingum árum saman, en hefur ekki verið þátttakandi í slíkri frá því í viku 10 2018. Auk þess hefði Sigurður Már getað kynnt sér forsendur birtinga á vefmælingum, og komist að því að allir sem greiða fyrir vefmælingu eru birtir á listum Gallup.

---

7. Í grein Sigurðar Más segir: „Leiða má að því líkur að Kjarn­inn hafi að ein­hverju leyti verið fjár­magn­aður með fjár­munum sem eiga upp­runa sinn í skatta­skjól­u­m.“

Aðdróttun Sigurðar Más um fjármögnun Kjarnans er röng. Allir eigendur Kjarnans eru íslensk félög eða einstaklingar. Sigurður Már hefði getað komist hjá því að setja fram þessa röngu aðdróttun með því að nálgast upplýsingar um hlutafjáraukningar Kjarnans í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

---

8. Í grein Sigurðar Más segir: „Tengsl Kjarnans við Ríkisútvarpið hafa verið náin. Ægir Þór Eysteinsson var þannig meðal stofnenda Kjarnans (9,44% eignarhlutur), en hann hafði áður verið fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu. [...]Ægir var þó áfram í eigendahópi Kjarnans, þar sem hlutur hans í Kjarnanum var illseljanlegur. Að lokum leysti félagið sjálft til sín hlut Ægis Þórs til að komast hjá gagnrýni, en aðrir fjölmiðlar höfðu gert þetta að umtalsefni, meðal annars Viðskiptablaðið.“

Framsetningu Sigurðar Más um sölu á hlut eins stofnfélaga Kjarnans er röng. Hlutur Ægis Þórs Eysteinssonar í Kjarnanum var keyptur af félaginu sjálfu og fyrir hann var greitt með íslenskum krónum. Hluturinn var aldrei leystur til félagsins. Sigurður Már hefði getað komist hjá því að setja fram þessa röngu fullyrðingu með því að nálgast upplýsingar um viðskipti með hlutafé Kjarnans í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Eða að leita eftir upplýsingum um viðskiptin hjá þeim sem áttu þau.

---

9. Í grein Sigurðar Más segir: „Þórður Snær Júlíusson, eða Doddi eins og hann er jafnan kallaður, hefur mikil tengsl við vinstrimenn. Alþjóð varð vitni að samskiptum hans við Elías Jón Guðjónsson, þá aðstoðarmann Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og fyrrverandi samstarfsmann Þórðar á blaðinu 24 stundum, þegar fyrir tilviljun komst upp um að þeir höfðu lagt á ráðin um spunafrétt undir slagorðinu: „Dodda langar að skúbba.“

Fullyrðing Sigurðar Más um að Þórður Snær hafi lagt á ráðin um spunafrétt með pólitiskum ráðgjafa er röng. Ef Sigurður Már hefði lesið þá frétt sem Þórður Snær skrifaði um það mál sem var undir (sjá hér ) þá myndi hann sjá að hún er ekki með neinum hætti í sam­ræmi við þann ætl­aða spuna sem ráðgjafinn ræddi um í tölvupósti sínum. Þvert á móti er hún mun ítar­legri, enda byggð á öðrum upp­lýs­ingum en hans. Hægt er sjá tölvu­pósta aðstoð­ar­manns­ins hér . Þá virðist Sigurður Már haldinn þeirri ranghugmynd að umræddur póstur hafi verið sendur á Þórð Snæ, sem er ekki rétt. Auk þess er vert að benda á að Þórður Snær hafði engin mannaforráð á 24 stundum og gat því ekki ráðið eða rekið nokkurn mann. Samsetning stafsmannahópsins var á forræði þáverandi ritstjóra miðilsins.

----

10. Í grein Sigurðar Más segir: „Þórður Snær hefur undanfarið tekið að sér störf og verkefni víða. Hann er stundakennari við Háskóla Íslands, þar sem hann kennir fjölmiðlafræði (blaðamennsku), og vakti athygli þar með því að nota þann vettvang til að efna til kæru til siðanefndar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor.“

Fullyrðing Sigurðar Más um að Þórður Snær hafi notað sér vettvang til að efna til kæru er röng. Hið rétta er að nokkru eftir að Þórður Snær hóf störf sem stundakennari við Háskóla Íslands (í október 2015) þá endurtók umræddur prófessor rangar og meiðandi fullyrðingar um fjármögnun Kjarnans á opinberum vettvangi. Hann neitaði að draga þær til baka og í kjölfarið kærði Þórður Snær prófessorinn til siðanefndar Háskóla Íslands, í janúar 2017, sem komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði brotið siðareglur , með úrskurði í mars 2018.

Ef Sigurður Már hefði lesið þann úrskurð, sem er aðgengilegur á internetinu, eða fréttir sem skrifaðar voru um hann, og eru einnig aðgengilegar á internetinu, þá hefði hann getað komist hjá því að setja fram umrædda ranga fullyrðingu. Hann hefði einnig getað nálgast upplýsingar um hvenær Þórður Snær hóf störf hjá Háskóla Íslands með því að setja sig í samband við skólann.

---

11. Í grein Sigurðar Más segir: „Í desember 2018 var upplýst að Ágúst Ólafur hefði sætt áminningu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar fyrir að hafa brotið gegn Báru Huld Beck, blaðamanni Kjarnans, með því reyna endurtekið og í óþökk Báru að kyssa hana. Þetta kynferðisáreiti átti sér stað á starfsstöð Kjarnans eftir lokun skemmtistaða nóttina 20. júní 2018. Kjarninn fjallaði ekki um málið fyrr en það var upplýst á öðrum vettvangi og litlar fréttir hafa verið fluttar af viðbrögðum stjórnenda Kjarnans við atvikinu.

Tilkynningar þeirra Ágústs Ólafs og Báru Huldar voru látnar nægja í umfjöllun um málið. Athygli vekur að Bára Huld hélt áfram að birta fréttir er vörðuðu stjórnmálavafstur Ágústs Ólafs í Kjarnanum, eftir atvikið og fram að því að hann fór í leyfi. Augljóst var þó að Bára Huld var ekki ánægð með hvernig tekið hafði verið á máli hennar.“

Ýmsar fullyrðingar Sigurðar Más í þessum hluta eru rangar. Afstaða Kjarnans er þessi: Það er alltaf þolenda að ákveða í hvaða far­veg brot gegn þeim fara. Fyr­ir­tæki, eða stjórn­endur fyr­ir­tæk­is, geta aldrei tekið þá ákvörðun fyrir þolendur sem hjá þeim starfa. Það sem stjórn­endur fyr­ir­tækja þolenda sem verða fyrir áreitni eða ann­ars konar ofbeldi geta og eiga að gera er hins vegar að styðja þá þolendur að öllu leyti.

Það hefur Kjarn­inn gert í einu og öllu. Hér er til að mynda yfir­lýs­ing stjórnar og stjórn­enda Kjarn­ans vegna máls­ins sem birt var eftir að þol­and­inn ákvað, sjálf með okkar stuðn­ingi, að svara yfir­lýs­ingu ger­and­ans í mál­inu opin­ber­lega. Þar segir m.a. „Hegðun hans var niðr­andi, óboð­­leg og hafði víð­tækar afleið­ingar fyrir þann sem varð fyrir henni. Afleið­ingar sem eru bæði per­­són­u­­legar og fag­­leg­­ar. Stjórn og stjórn­­endur Kjarn­ans gerðu þol­anda ljóst frá upp­­hafi að hann réði ferð­inni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi rétt­­ast að grípa.“

Fullyrðing Sigurðar Más um að „litlar fréttir hafa verið fluttar af viðbrögðum stjórnenda Kjarnans við atvikinu“ er því augljóslega röng og hann hefði getað komist hjá því að setja hana fram með því að tengjast internetinu og nýta sér leitarvél.

Fullyrðing Sig­urður Más um að þol­and­inn í mál­inu sé ekki ánægð með hvernig tekið hafi verið á máli hennar innan Kjarn­ans er einnig röng. Sigurður Már spurði hana ekki hvort svo væri áður en að hann fór að gera henni upp skoð­an­ir. Samstarfsmenn, sem starfa með þolanda á hverjum degi, geta hins vegar staðfest að hún er ekki óánægð með hvernig tekið var á máli hennar innan Kjarnans.

Fullyrðing Sigurðar Más um að Bára Huld hafi haldið áfram að birta fréttir er „vörðuðu stjórnmálavafstur Ágústs Ólafs í Kjarnanum, eftir atvikið og fram að því að hann fór í leyfi“ er röng og á sér engan stað í raunveruleikanum. Bára Huld skrifaði ekki eina frétt um téðan Ágúst Ólaf eftir að umrætt atvik átti sér stað.

---

Að lokum má nefna að Sigurður Már Jónsson vann með mér á Viðskiptablaðinu fyrir nokkrum árum og var samstarf okkar með ágætum.

Þá sátum við saman í stjórn Blaðamannafélags Íslands og var samstarfið einnig með ágætum þar. Skrif Sigurðar Más komu mér á óvart og sérstaklega hvað þau voru óvönduð, léleg og óheiðarleg, samanber mikinn fjölda staðreyndavillna og rangra ályktana allt frá upphafi greinarinnar til loka. Þetta var ekki sá karakter sem ég kynntist, en stundum er lífið svona: það kemur manni á óvart og ástæðulaust að kvarta eitthvað sérstaklega yfir því.

En það olli sérstaklega miklum vonbrigðum hversu lágt hann var tilbúinn að leggjast, með röngum fullyrðingum og atvinnurógi um félaga hans í Blaðamannafélaginu. Sérstaklega var ósmekklegt af honum að setja fram rangar og meiðandi fullyrðingar um atvik sem reynst hefur starfsmanni okkar þungbært, og voru skrifin til þess fallin að valda Báru viðbótar óþægindum ofan á álag sem fylgt hefur fyrrnefndum atburði.

Beiðninni um að rangfærslur verði leiðréttar og afsökunarbeiðni birt hefur ekki verið svarað ennþá af Þjóðmálum. Í blaðamennsku er best að leiðrétta villur strax og biðjast afsökunar á þeim og það er höfunda og ritstjórna að gera slíkt, en ég óskaði sérstaklega eftir því í orðsendingu til Þjóðmála að höfundurinn myndi leiðrétta villurnar og biðjast afsökunar á þeim. Það er heiðarlegt að standa þannig að málum.

Fullt tilefni er til að fjalla um rekstur fjölmiðla á Íslandi, eins og nefnt var að væri tilefni umfjöllunar Sigurðar Más um Kjarnann, en þá þarf að byggja slíka umfjöllun á réttum upplýsingum.

Eignarhald Kjarnans og rekstur

Rekstr­ar­nið­ur­staða 2018 var nei­kvæð um 2,5 millj­ónir króna en að teknu til­liti til ein­skiptis­kostn­að­ar­liða sem féllu til í upp­hafi síð­asta árs var rekstur félags­ins jákvæður og sjálf­bær. Eigið fé Kjarn­ans miðla um síð­ustu ára­mót var 11,2 millj­ónir króna.

Reksturinn hefur smátt og smátt verið að styrkjast og eru nú átta starfsmenn, auk fleiri sem vinna fyrir Kjarnann í verktöku, hjá fyrirtækinu. Framundan er frekari vöxtur og styrking á þjónustu. Fyrirtækið er sex ára gamalt. Langtímaskuldir eru engar, og hefur fyrirtækið verið byggt upp af heiðarleika og kostgæfni - og fórnfýsi starfsmanna og stofnenda - á þeim sex árum sem það hefur verið til. Fyrirtækið hefur skapað ný störf í blaðamannastéttinni, sem gengið hefur í gegnum miklar hremmingar undanfarinn áratug, ekki síst vegna tíðra gjaldþrota, hagræðingar innan fyrirtækja og erfiðleika í rekstri margra fyrirtækja.

Hluthafar Kjarnans

  • HG80 ehf., í eigu Hjálmars Gíslasonar, 17,68%
  • Miðeind ehf., í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, 17,21%
  • Birna Anna Björnsdóttir, 11,80%
  • Magnús Halldórsson, 11,32%
  • Þórður Snær Júlíusson, 10,01%
  • Hjalti Harðarson, 7,59%
  • Fagriskógur ehf., í eigu Stefáns Hrafnkelssonar, 4,67%
  • Milo ehf., í eigu Gumma Hafsteinssonar og Eddu Hafsteinsdóttur, 4,67%
  • Vogabakki ehf., í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, 4,67%
  • Charlotta María Hauksdóttir og Úlfar Erlingsson, 4,67%
  • Birgir Þór Harðason, 2,37%
  • Jónas Reynir Gunnarsson, 2,37%
  • Fanney Birna Jónsdóttir, 0,93%

Höfundur er einn stofnenda Kjarnans og ritstjóri Vísbendingar.