*

laugardagur, 4. desember 2021
Týr
21. ágúst 2021 17:02

Lélegur leikþáttur

Það hefur margt breyst frá því að Þorgerður Katrín mætti í viðtal á Útvarp Sögu í lok árs 2016.

Haraldur Guðjónsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur látið lítið fyrir sér fara í pólitískri umræðu í sumarfríinu. Til að klukka sig aftur inn í umræðuna dró hún fram auðveldasta spilið úr hillunni og nýtti sjávarútveginn í þeim tilgangi að reyna að koma höggi á ríkisstjórnina – sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn. Í frasakenndri grein á Vísir.is rifjaði hún upp að Viðreisn hefði lagt fram beiðni um kortlagningu eignarhalds og umsvifa íslenskra útgerðarfyrirtækja í íslensku atvinnulífi en ríkisstjórnin ætlaði sér að öllum líkindum að stinga niðurstöðunni undir stól fram yfir kosningar. Það var ekkert rökstutt frekar.

                                                                  ***

Greinin er sem fyrr segir frasakennd og á köflum kjánaleg, dálítið eins og léleg Morfísræða. Nú hefur Týr ekki séð lögfræðinginn og fv. menntamálaráðherra skrifa með þessum hætti áður og því kom það honum til hugar að einhver af starfsmönnum þingflokksins hefði ef til vill haldið á penna, eins og oft er með greinar og ræður þingmanna. En það er aukaatriði, textinn er settur fram í nafni Þorgerðar Katrínar.

                                                                  ***

Auðvitað er þetta lélegur leikþáttur hjá formanni Viðreisnar. Það er á vitorði margra að gögnin eru tilbúin og verða birt á næstu dögum. Þess utan er þetta nú ekki flókið verkefni, nú þegar ársreikningar fyrirtækja eru öllum opnir. Meira að segja Málfundafélagið Endurreisn hefði getað tekið þetta saman.

Í framhaldinu sá Þorgerður Katrín ástæðu til að skjóta á Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og sagði samtökin halda uppi vörnum fyrir ríkisstjórnarflokkana, án þess þó að nefna nokkur dæmi. Það hefur greinilega margt breyst frá því að hún sótti það fast að verða framkvæmdastjóri SFS fyrir um fimm árum.

                                                                  ***

Það hefur líka margt breyst frá því að Þorgerður Katrín mætti í viðtal á Útvarp Sögu í lok árs 2016, þá nýkjörin þingmaður Viðreisnar og nokkrum dögum áður en hún varð sjávarútvegsráðherra, og sagði að fólk sem stjórnaðist af „öfundargeni“ hefði alið á togstreitu á milli útgerðarmanna og þjóðarinnar. Þar hafði hún reyndar rétt fyrir sér.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.