*

föstudagur, 16. apríl 2021
Týr
26. desember 2020 13:02

Leyfisbréf Bjarna

Týr vill til öryggis leggja það til að fyrirvari verði settur í landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins; „Stefna skal að sölu banka í eigu ríkisins – ef embættismenn leyfa“.

Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, féllst í síðustu viku á tillögu Bankasýslu ríkisins þess efnis að hefja söluferli á Íslandsbanka. Það er mikilvægt skref ef af verður.

                                                                 ***

Það er að vísu undarlega fyrir okkur komið þegar stjórnmálamenn þurfa heimild frá ríkisstofnun til að taka ákvarðanir. Einkavæðing er pólitísk stefna sem stjórnmálamenn eiga að marka, ekki embættismenn. Bankasýsla ríkisins var upphaflega sett á fót til að halda utan um eignarhlut ríkisins í bönkunum – til bráðabirgða. Fátt er þó eins varanlegt og tímabundið úrræði hins opinbera og nú, 12 árum eftir hrun, er Bankasýslan orðin ríkisstofnun sem segir stjórnmálamönnum fyrir verkum. Þessum lögum þarf að breyta. Hvað ef Lárus L. Blöndal væri ekki formaður Bankasýslunnar? Hefði Bjarni þá ekki fengið leyfi til að stefna að sölu bankans? Týr vill til öryggis leggja það til að fyrirvari verði settur í landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins; „Stefna skal að sölu banka í eigu ríkisins – ef embættismenn leyfa“.

                                                                 ***

Nóg um það, nú er þó stefnt að sölu og því ber að fagna. Ríkið er með töluverða fjármuni bundna í eignarhaldi sínu fyrirtækjum sem gætu verið í eigu einkaaðila, t.d. Íslandsbanka, Landsbankanum, Íslandspósti, Keflavíkurflugvelli og Ríkisútvarpinu. Þeir fjármunir nýtast betur í öðrum og þarfari verkefnum, til dæmis í samgöngumálum – nú eða í niðurgreiðslu á skuldum ríkisins sem hrannast nú upp vegna COVID-19 faraldursins.

                                                                 ***

Það er í sjálfu sér ekki flókið að selja hlut ríkisins í þeim fyrirtækjum sem hér voru talin upp. Það eina sem hindrar það eða tefur er pólitíkin. Á næstu mánuðum væntir Týr þess að heyra marga stjórnmálamenn tala um mikilvægi þess að ríkið eigi og reki viðskiptabanka. Þá munum við heyra gamla frasa um að hér hafi orðið hrun og einhverjir munu telja upp þau samfélagslegu verkefni sem ríkisbankar ættu að sinna, líkt og fyrirmyndarbankinn Íbúðalánasjóður.

                                                                 ***

Bankastarfsemi er að breytast hratt samhliða aukinni þróun í fjártækni og fjölbreyttum möguleikum í greiðslumiðlun. Það er bara tímaspursmál hvenær ríkisbankarnir verða myllusteinn á herðum skattgreiðenda og því ætti að selja þá báða sem fyrst. Með þeim orðum óskar Týr lesendum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári – með leyfi þeirrar ríkisstofnunar sem hefur eftirlit með honum, Fjölmiðlanefndar.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.