*

mánudagur, 25. október 2021
Týr
26. október 2017 09:50

Leyndarhyggja og ofurlán

Vissi Þorgerður meira en aðrir um stöðu bankanna og höfðu persónulegir hagsmunir hennar áhrif á ákvarðanir?

VB/Samsett mynd

Í kjölfar stjórnarslitanna í haust tísti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir það á Twitter að „Stjórnarslitin [sýndu] að fólk hefur fengið nóg af leyndarhyggju kerfi þar sem ofbeldi gegn konum og börnum er tekið af léttúð og andvaraleysi.“

                                                  ***

Þorgerður Katrín sagði í samtali við visi.is 4. nóvember 2008 að þau hjónin, hún og Kristján Arason, hefðu sett sparnað sinn í Kaupþing: „Og virði fyrirtækisins óx eftir það þannig að við ákváðum að setja okkar sparnað í þetta félag. Við trúðum því að íslenskt efnahagslíf myndi standa sig, við trúðum því að bankakerfið væri sterkt“. Kristján var eini starfsmaður Kaupþings sem fékk heimild, rétt fyrir hrun, til að færa hlutabréfaeign sína og skuldir yfir í einkahlutafélag með lágmarkseigiðfé (500 þús. kr).

Eignir voru 7% umfram skuldir en áttu samkvæmt reglubók Kaupþings að vera 50% umfram skuldir. Eigið fé var því jákvætt við flutninginn en varð síðar neikvætt þegar hlutabréf bankans lækkuðu og skuldir hækkuðu vegna veikingar krónunnar. Þegar Þorgerður sagði frá sparnaði þeirra hjóna á visi.is námu skuldirnar um 1,7 milljörðum króna.

                                                  ***

Hæstiréttur fjallaði um lögmæti þessarar færslu (í dómi í máli nr. 593/2013), en þar var krafist greiðslu á 534 milljónum króna úr hendi Kristján persónulega og því haldið fram að Hreiðar Már Sigurðsson, bankastjóri Kaupþings, hefði ekki haft heimild til leysa Kristján undan ábyrgðinni. Þar kemur einnig fram að fyrir utan flutninginn hafi Kaupþing aflétt veði af hlutabréfum að verðmæti 72,4 milljónir króna sem þau hjónin héldu persónulega.

Færslan yfir í einkahlutafélagið átti sér stað 12. mars 2008, hálfu ári áður en íslenskt bankakerfi hrundi. Daginn áður, 11. mars, fengu hjónin persónulega 33,5 milljónir króna í arð. Að auki seldu þau þann 30. september 2008 hlutabréfin í persónulegri eigu fyrir 70 milljónir króna, aðeins níu dögum áður en bankinnféll.

                                                  ***

Það duldist engum, sem sat ríkisstjórnarfundi í aðdraganda bankahrunsins,að hugur Þorgerðar Katrínar var hjá Kaupþingi. Ráðherrar, fleiri en einn, hafa staðfest að fátt annað hafi komist að í huga Þorgerðar. Rúmum tveimur mánuðum fyrir fall bankanna 2008 gagnrýndi Richard Thomas, hjá greiningardeild Merrill Lynch, íslensk stjórnvöld og sagði stöðu bankanna veika. Þorgerður Katrín sagði þá að Thomas þyrfti endurmenntun. Vissulega var skráður eigandi hlutabréfanna ekki Þorgerður sjálf. En að eigin sögn „ákváðu [þau] að setja sparnað sinn í þetta félag.“

                                                  ***

Hjónin áttu gríðarlega persónulega hagsmuni af því hvort Kaupþing myndi lifa. Beitti Þorgerður áhrifum sínum? Vissi Þorgerður meira en aðrir um stöðu bankanna 13. mars og 30. september 2008 og og féll slík vitneskja, undir reglur um innherjaupplýsingar, höfðu persónulegir hagsmunir Þorgerðar áhrif á ákvarðanir ríkisstjórnar, finnst Þorgerði heiðarlegt að taka við 33,5 milljóna króna arði og færa áhættuna svo í einkahlutafélag?

                                                  ***

Er ekki kominn tími á að „leyndarhyggjan“ víki, jafnvel fyrir fyrir kosningar á laugardag?

 

— — —

Missagt var í prentútgáfu að eigið fé félags þeirra hjóna hefði verið neikvætt við flutninginn. Það var langt undir viðmiðum reglubókar Kaupþings og hefur textinn hér að ofan verið lagfærður svo það sé skýrt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.