*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Óðinn
24. mars 2020 07:01

Leyndarhyggja, pukur og slæm stjórnsýsla

Óðinn skrifar um sölu ríkisins á hlut í fjármálafyrirtæjum og tregðu fjármálaráðuneytisins við að veita upplýsingar um Lindarhvol.

Haraldur Guðjónsson

Sagan kennir okkur að mörg víti er að varast við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálastofnunum, þótt Óðinn fagni mjög fyrirhugaðri sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þá er ekki nauðsynlegt að horfa allt aftur til einkavæðingar bankanna um og eftir síðustu aldamót. Nærtækara er að skoða hvernig til tókst við sölu á þeim eignum sem féllu í skaut ríkinu eftir bankahrunið og í kjölfar nauðasamninga við slitabú föllnu bankanna. Þar námu upphæðir hundruðum milljarða króna.

* * *

Það ætti að vera sjálfsögð krafa að gera upp með fullnægjandi hætti þessa sölu á eignum skattgreiðenda áður en haldið verður í næstu eignasölu. Raunar er það svo að þeir embættismenn sem tóku að sér eignasölu fyrir hönd Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) og einkahlutafélagsins Lindarhvols (sem voru að nokkru leyti þeir sömu) virðast hafa einsett sér að veita sem allra minnstar upplýsingar um viðskiptin undir yfirskini gagnsæis og jafnræðis. Þess í stað þráast þeir við að svara fyrirspurnum, jafnvel þótt þess sé krafist af úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

* * *

Óðinn hefur tekið eftir miklum vilja hjá stjórnsýslunni að efla gagnsæi og upplýsingagjöf við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Nýlegar kvaðir skattayfirvalda um að forsvarsmenn foreldrafélaga í leikskólum og í kórum landsins geri grein fyrir „raunverulegum eiganda" sýnir að hið rannsakandi auga hins opinbera er alls staðar og alsjáandi, nánast eins og „Auga Saurons" í Hringadrottinssögu. Þess vegna er bæði hlægilegt og grátlegt í senn að sjá hvernig þessi gagnsæis- og upplýsingavilji stjórnsýslunnar beinist fyrst og fremst að almenningi, en þegar kemur að stjórnsýslunni sjálfri og embættismönnunum sem þar ríkja gilda einhver allt önnur lögmál.

* * *

Þannig hefur Óðinn fylgst af áhuga með tilraunum blaðamanna Viðskiptablaðsins við að fá upplýsingar um Lindarhvol ehf. og Eignarhaldsfélag Seðlabankans. Í þarsíðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var greint frá því að reynst hefði þrautinni þyngri að fá afrit af fundargerðum stjórnarfunda Lindarhvols. Í raun er þessi saga svo kostuleg að glíma Kára Stefánssonar við Persónuvernd og vísindasiðanefnd út af skimun vegna kórónuveirusmits verður heldur léttvæg.

* * *

Ríflega tvö ár eru frá því að Lindarhvoll hætti starfsemi og eitt og hálft ár frá því að endurskoðendaskýrslu um fyrirbærið var skilað. Samt heyrist ekki hósti né stuna frá Ríkisendurskoðun um uppgjör félagsins sem höndlaði með gríðarháar upphæðir. Nú er tæplega hálft ár liðið frá því að beiðni Viðskiptablaðsins um afrit af gögnunum var send fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en botn hefur enn ekki fengist í málið.

* * *

Blaðið hefur farið að öllum reglum og tæmt öll úrræði er lúta að upplýsingaskyldu stjórnvalda en upplýsingar fást einfaldlega ekki. Blaðamenn Viðskiptablaðsins hafa í þrígang leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna þessa. Allt án árangurs.

* * *

Undir lok september á síðasta ári óskaði blaðið eftir því við fjármálaráðuneytið að fá afrit af fundargerðum stjórnar félagsins. Svar barst 1. október en það var á þá leið að fyrirséð væri að vinna við að taka saman gögnin myndi verða tímafrek. Endanlegt svar myndi þó berast 15. nóvember. Ekki tókst að taka saman gögnin fyrir þann tíma og var blaðinu þá tilkynnt að svar myndi liggja fyrir eftir þrjár vikur. Það gekk ekki og kærði blaðið því afgreiðsludrátt til úrskurðarnefndarinnar.

* * *

Í millitíðinni datt einhverjum þingmönnum, undir forystu Ingu Sæland, í hug að leggja fram fyrirspurn um málið en var þá vinsamlega bent á að það væri alger óþarfi, skýrsla væri á leiðinni!

* * *

Óðni datt fyrst í hug að þetta hefði aðeins verið kaldhæðni úr ráðuneytinu, en svo er víst ekki. Og ekki er það vegna þess að ráðuneytið hafi ekki mannafla til þess að svara slíkum fyrirspurnum, það er alveg öruggt. Ekki heldur vegna þess að erindið væri flókið eða krefðist minnstu úrvinnslu, þarna ræðir aðeins um pappíra sem eiga að liggja fyrir í skjalasafni og málaskrá ráðuneytisins, en hæg heimatökin að kalla eftir hafi orðið misbrestur á því.

* * *

Hvað getur þá valdið þessum ótrúlega drætti og undanbrögðum? Óðinn vill ekki trúa því að þar búi spilling að baki, en varla er vanhæfni eða hyskni heldur um að kenna. Hugsanlega ræður hefðbundið pukur og leyndarhyggja hins opinbera einhverju, en upplýsingalögin voru nú einmitt sett þeim til höfuðs og varla eru embættismennirnir vísvitandi að fara á svig við lögin. Vera kann að í pappírunum leynist eitthvað óþægilegt, sem ráðuneytismenn vilja síður að komist í hámæli, þar sem það gerðist á þeirra vakt, undir handarjaðri þeirra eða beinlínis í þeirra höndum. En þeim mun mikilvægara er auðvitað að upplýsa það allt og eyða öllum vafa um hvað gerðist og hvernig farið var með hagsmuni almennings.

* * *

Þessi þvergirðingsháttur í ráðuneytinu er því illskiljanlegur, en því miður er varla unnt að segja að hann komi Óðni á óvart. En hitt kemur honum mikið á óvart, að fjármálaráðherra láti bjóða sér þetta.

* * *

Íslenskir embættismenn hafa tilhneigingu til að koma fram eins og valdamenn gagnvart þeim sem þurfa að eiga við kerfið. Í krafti stöðu sinnar hefur embættismaðurinn vald og þess vegna er hann ekki fulltrúi borgarans gagnvart kerfinu og hneigist til að túlka lög og reglugerðir ætíð á strangasta hátt og með hagsmuni kerfisins að leiðarljósi. Þannig tóku embættismenn fjármálaráðuneytisins ákvörðun í málinu tæpri viku fyrir jól. Þar var beiðni blaðsins synjað á þeim grunni að það myndi heimta um 25 klukkustunda vinnu af hálfu starfsfólks ráðuneytisins að afmá ýmsar upplýsingar úr fundargerðunum! Að mati ráðuneytisins var um svo mikla vinnu ræða að það myndi standa í vegi fyrir öðrum störfum þess og beiðninni synjað.

* * *

Þessu vildi blaðið ekki una og kærði ákvörðun ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar. Í kærunni var meðal annars dregið í efa að vinnan væri svo umfangsmikil að ráðuneytinu yrði ógerlegt að sinna öðrum verkefnum á meðan. Nefndin kvað svo upp úrskurð sinn undir lok janúar. Að mati hennar stóðst ekki að yfirferð á fundargerðunum myndi taka svo mikinn tíma að unnt væri að hafna beiðninni af þeim sökum. Ákvörðun ráðuneytisins var því felld úr gildi og málið sent þangað á ný til nýrrar meðferðar.

* * *

Beiðni Viðskiptablaðsins um afrit af fundargerðunum var því ítrekuð eftir að úrskurðurinn lá fyrir. Svar ráðuneytisins barst 21. febrúar, en þar var enn synjað um afhendingu gagnanna, nú á þeim grunni að þau væru háð sérstakri þagnarskyldu samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands, gjaldeyrislögum og lögum um fjármálafyrirtæki!

* * *

Þessi nýjasti snúningur embættismanna fjármálaráðuneytisins, þeirra sömu og stofnuðu einkahlutafélagið Lindarhvol inni í ráðuneytinu, að bera fyrir sig bankaleynd, er um margt jafnfrumlegur og hann er fráleitur. Virðist sem svo að ekki eigi undir neinum kringumstæðum að veita aðgang að fundargerðum Lindarhvols. Falli úrskurður ráðuneytinu (félaginu) í óhag er einfaldlega fundin upp ný ástæða til að komast hjá upplýsingagjöf.

* * *

Svo það sé ítrekað, að þá ræðir hér ekki um persónulegar fjárhagsupplýsingar eða annað slíkt, sem leynt ætti að fara, heldur um opinbera umsýslu með eignir almennings, sem hann mátti kaupa dýru verði. Almenningur hefur því beina og brýna ástæðu til þess að fá allt um það að vita. Hið opinbera hefur hins vegar enga hagsmuni af því að láta það liggja í þagnargildi. Svo þá situr eftir spurningin, hverjir hafa af því hagsmuni að gögnin fái ekki litið dagsins ljós.

* * *

Raunar vekja þessi viðbrögð þá tilfinningu að hér sé eitthvað verið að fela. Voru fundargerðir yfirleitt færðar til bókar af stjórn eins og henni bar að gera lögum samkvæmt? - Í framhjáhlaupi er svo auðvitað áhugavert að á sama tíma og fjármálaráðuneytið leggur allt í sölurnar til þess að verja þessi „ríkisleyndarmál" sín, telja stjórnvöld á sama tíma rétt að afhenda fjölmiðlum minnisblöð, sem tengjast rannsóknum opinberra aðila á útgerðarfyrirtækinu Samherja.

* * *

Það er kostulegt til þess að hugsa að sérstakar siðareglur voru samdar og gefnar út um Lindarhvol ehf. þegar félagið var stofnað. Þær eru bókstaflega útbíaðar í fögrum orðum eins og „gagnsæi" og „jafnræði". Af mörgum góðum greinum siðareglnanna er annar liður 6. greinar bestur. Þar segir: „Við sinnum störfum okkar og samskiptum við viðskiptamenn og aðra hagsmunaaðlila þannnig að það sé öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni."

* * *

Stjórn Lindarhvols var skipuð þeim Þórhalli Arasyni, formanni stjórnar og skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, Ásu Ólafsdóttur, lagaprófessor sem nýverið var talin öllum hæfari til að verða dómari við Landsrétt, og Hauki C. Benediktssyni, sem þá var forstöðumaður Eignasafns Seðlabankans. Fram hefur komið að á tæplega tveggja ára líftíma Lindarhvols hafi stjórnarfundir verið haldnir reglulega, en einnig að stjórnarmönnunum hafi verið umbunað af mikilli rausn, þó allir hafi þeir verið í fullu starfi hjá hinu opinbera um leið.

* * *

Lindarhvoll er auðvitað ekki undanskilinn gildissviði upplýsingalaga, hvorki með lögum né auglýsingu þess efnis, líkt og í tilfelli Eignasafns Seðlabanka Íslands. Hægðarleikur hefði verið fyrir löggjafar- og framkvæmdarvald að láta upplýsingarnar fara leynt ef að því hefði verið stefnt. Þess bíður nú úrskurðarnefndarinnar að fjalla um bankaleyndarvörn ráðuneytisins og er úrskurður væntanlegur.

* * *

Það undarlega er að undanfarin ár hefur Ríkisendurskoðun unnið að úttekt á starfsemi Lindarhvols. Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, skilaði greinargerð um starfsemi félagsins í júlí 2018 og tók Skúli Eggert Þórðarson við þegar hann varð ríkisendurskoðandi. Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu í október í fyrra að stefnt væri að því að skýrslan kæmi út í nóvember sama ár. Sú tímasetning stóðst ekki þar sem gera þurfti nokkrar breytingar á henni að umsagnarferli loknu. Að nóvember loknum var miðað við það að skýrslan kæmi út í febrúar 2020 en sá mánuður hefur runnið sitt skeið án þess að skýrslan hafi verið gerð opinber. „Þetta hefur reynst þyngra á lokametrunum en gert var ráð fyrir," segir kerfið í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins um það hvenær skýrslunnar sé að vænta.

* * *

Ótrúlegt er til þess að hugsa að það taki eftirlitskerfið lengri tíma að gera úttekt á starfsemi Lindarhvols en þann tíma sem félagið sjálft starfaði. Þessi dráttur Ríkisendurskoðunar á uppgjöri á starfsemi Lindarhvols vekur jafnframt upp spurningar um sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Á sínum tíma var Ríkisendurskoðun færð með lögum beint undir Alþingi til að flytja hana fjær framkvæmdarvaldinu. Hefur það kannski engu breytt? Hafa þingmenn ef til vill ekki áttað sig á þessari breytingu?

* * *

Á meðan Ríkisendurskoðun lýkur ekki úttektinni á Lindarhvoli getur umboðsmaður Alþingis ekkert aðhafst í málinu. Frá því að úttektin hófst hefur Ríkisendurskoðun þó hafið og lokið fjölmörgum öðrum úttektum, svo sem á RÚV og Íslandspósti, sem varla eru viðaminni.

* * *

Vitað er að fyrrverandi stjórn Lindarhvols er mjög ósátt við niðurstöður úttektarinnar og hefur sent Ríkisendurskoðun ítarleg svör og andmæli eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Þetta eykur auðvitað á eftirvæntinguna eftir skýrslunni og vekur jafnframt upp spurningar um hvers vegna þingmenn hafi ekki óskað eftir skýringum á þessum töfum og hylmingu.

* * *

Seðlabanki Íslands tók sér tíu og hálft ár til að skila skýrslu um söluna á FIH og lánveitingu bankans til Kaupþings 6. október 2008. Loksins þegar skýrslan kom fyrir ári síðan var ekkert á henni að græða, allt útþynnt og öll merking týndist í orðavaðli. Seðlabankinn er nú að vinna að skýrslu um starfsemi Eignasafnsins. Upphaflega var sagt að skýrslan kæmi út fyrir árslok 2018 en sú tímasetning stóðst ekki. Á haustmánuðum í fyrra kom fram að búist væri við því að skýrslan kæmi út „öðru hvoru megin við áramótin". Álitaefni er hvort bankinn hafi sprengt þanþol þess frasa eður ei, en bankanum til varnar verður að taka fram að hann sagði ekkert um hvaða áramót þar væri rætt um. Rétt er að halda því til haga að búið er að slíta Eignasafninu. Hugsanleg gagnrýni gæti því varla haft afleiðingar.

* * *

Og aftur að fyrirhugaðri sölu ríkisins á Íslandsbanka. Óðinn fagnar áformunum en hefur rökstudda ástæðu til að óttast að sölunni verði klúðrað af sömu embættismönnum, sem nú kjósa að hylja fyrri verk sín leyndarhjúp. Á meðan við vitum ekki hvernig tekið var á málum við eignasölu Lindarhvols og Eignasafnsins er óráðlegt að leggja í nýjan söluleiðangur frá þeim sama embættismannaklúbbi, því hvað sem að baki liggur, þá blasir við að í ráðuneytinu er mönnum góð stjórnsýsla ekki eiginleg.

* * *

Sporin hræða.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.