*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Heiðrún Lind Marteinsdót
22. september 2017 11:16

Leyndarhyggja?

Frá því að RÚV óskaði gagnanna liðu þrír mánuðir, en meðalmeðferðartími eru nærri sjö mánuðir, svo málið fékk skjóta afgreiðslu.

Haraldur Guðjónsson

Leyndarhyggja hefur verið vinsælt orð um liðna daga. Er þá vísað til þess að einhverjir komi meðvitað í veg fyrir að eitthvað sé gert opinbert. Oft eru lög skýr um hvað ber að upplýsa, en stundum kann að leika vafi á. Þegar málefni einstaklinga eru undir er bæði rétt og skylt af stjórnsýslunni að fara varlega.

Séu viðkvæmar persónuupplýsingar afhentar almenningi, verður sú ákvörðun ekki aftur tekin ef í ljós kemur síðar að óheimilt var að láta hlutaðeigandi upplýsingar af hendi.

Víkjum þá að málinu sem leiddi til stjórnarslita í liðinni viku. Hinn 16. júní 2017 fór fréttamaður RÚV fram á aðgang að gögnum um Robert Downey vegna beiðni hans um uppreist æru. Nokkrum dögum síðar synjaði dómsmálaráðuneyti beiðni RÚV. Hinn 26. júní 2017 kærði RÚV ákvörðun ráðuneytisins um synjun.

Hinn 3. júlí var ráðuneytinu kynnt kæran og hinn 13. júlí barst umsögn ráðuneytisins. RÚV fékk umsögn ráðneytisins hinn 14. júlí og sendi ekki athugasemdir fyrr en hinn 22. ágúst. Hinn 19. júlí óskaði úrskurðarnefnd eftir afstöðu þeirra einstaklinga sem komu fyrir í gögnum sem RÚV óskaði aðgangs að.

Með erindum þeirra 21. júlí og 24. júlí lögðust þeir allir gegn afhendingu gagnanna. Úrskurður var því næst upp kveðinn hinn 11. september 2017. Ráðuneytinu bar að afhenda umbeðin gögn en þó einnig að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar. Af þessu má ráða að báðir aðilar höfðu nokkuð til síns máls.

Frá því að RÚV óskaði gagnanna og þar til úrskurður lá fyrir liðu tæpir þrír mánuðir. Þeir sem til þekkja um málsmeðferð stjórnvalda átta sig á að hér var um skjóta afgreiðslu að ræða. Meðalmálsmeðferðartími mála fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála á þessu ári er 207 dagar eða nærri 7 mánuðir. Málið fékk því mun skjótari afgreiðslu en mál almennt. Hið rétta er því að leyndarhyggjan var engin.

Höfundur er héraðsdómslögmaður.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.