Íslenskt heilbrigðiskerfi stendur á tímamótum. Áður en heimsfaraldur kórónuveiru reið yfir lýstu forstöðumenn Landspítalans yfir neyðarástandi á bráðamóttökunni og biðlistar eftir aðgerðum lengdust í sífellu. Heimsfaraldrinum fylgdu svo nýjar áskoranir og álag á heilbrigðiskerfið ofan á fyrirliggjandi verkefni. Samhliða því hefur aðgerðum verið frestað um óákveðinn tíma. Þetta, ásamt fyrirsjáanlegri breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar, kallar á umfangsmiklar breytingar á heilbrigðiskerfinu svo að hægt sé að þjónusta þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

Landspítalinn er einn mikilvægasti hlekkur heilbrigðiskerfis Íslendinga. Ekki hefur farið framhjá neinum að spítalinn glímir við mikinn vanda um þessar mundir, en hann er þó ekki nýr af nálinni og árlega eru fluttar fréttir af fjárhagsvanda spítalans, biðlistum og lokun deilda. Brugðist hefur verið við með því að auka fjármagn til spítalans verulega. Fjármagn er þó ekki það eina sem þarf til að leysa vandann, eins og oft er látið uppi. Þrátt fyrir fullyrðingar um annað sýna greiningar að framleiðni er áskorun í íslensku heilbrigðiskerfi og að tækifæri eru til skilvirkara fyrirkomulags í heilbrigðisþjónustu. Þetta kom skýrlega fram í skýrslu McKinsey sem unnin var að beiðni heilbrigðisráðuneytisins og leiddi í ljós fjölda tækifæra til umbóta sem mikilvægt er að vinna með í framhaldinu.

Til að bregðast við gagnrýni á heilbrigðiskerfið eru gjarnan lagðar til lausnir í formi aukinna fjárframlaga hins opinbera, sér í lagi í ljósi þess að framlög hérlendis séu lág í alþjóðlegum samanburði. Mikilvægt er þó að hafa í huga að meðalaldur hér er talsvert lægri en í nágrannaríkjum og sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningu eru útgjöld til heilbrigðismála hérlendis há í samanburði við nágrannaríki okkar. Það má vel vera að málaflokkurinn þurfi á auknu fé að halda, en það mega þó ekki vera fjárframlög fjárframlaganna vegna. Með stórum áskorunum á sjóndeildarhringnum, svo sem öldrun þjóðarinnar, er öllum ljóst að útgjöld til heilbrigðismála þurfa að aukast á næstu árum. Leiðin fram á við er samt ekki að lofa óskilgreindum fjármunum inn í heilbrigðiskerfið. Í stað þess að líta á opinber framlög til heilbrigðismála sem einhvers konar árangursmælikvarða - líkt og raunin hefur verið - ætti að einblína á gæði og umfang þjónustunnar.

Í almennri umræðu um heilbrigðismál er yfirleitt talað um fjárframlög til ákveðinna heilbrigðisstofnana, en ekki framlög til ákveðinna þátta heilbrigðisþjónustu, óháð því hver veitir þá þjónustu. Þannig fer meirihluti opinberra útgjalda til heilbrigðisstofnana án þess að skilgreint sé fyrir fram hvað ríkið, sem er kaupandi þjónustunnar, fái í staðinn. Skýrsla McKinsey bendir á hversu stór galli þetta er þar sem þetta fyrirkomulag hvetur á engan hátt til aukinnar framleiðni vegna þess að framlagið er fast og óháð framlagi þess sem veitir þjónustuna. Fyrirkomulagið hefur í raun letjandi áhrif á aukna þjónustu því henni fylgir ekki aukið fjármagn.

Mikilvægt er að breyta þessu fyrirkomulagi til að tryggja gagnsæi og aukna hvata til framleiðni. Heilbrigðiskerfið á enda að snúast um sjúklingana, fjármagn ætti að fylgja þeim í stað þess að stofnanir fái fjármagn óháð því hvaða þjónustu þær veita. Það á ekki að vera sjálfstætt markmið að auka útgjöld til heilbrigðismála. Markmiðið á að vera að hér sé góð og öflug heilbrigðisþjónusta sem snýst um þarfir sjúklinga en ekki stofnana.

Höfundur er lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.