Ef það er eitthvað sem fær mann til að dragnast áfram í þessu ömurlega lífi þá er það tilhugsunin um næstu veiðiferð. Vinur minn einn sem gerir í því að vera neikvæður á jákvæðum nótum, sendi mér þetta tuð á dögunum og bætti svo við:

Þetta endar örugglega með því að undirmálsfólk eins og ég sem er með innan við eina og hálfa millu á mánuði og skuldsett upp fyrir haus getum hvergi veitt þannig að það er spurning um að mæla strax fyrir holunni.

Líf án laxveiði er ekkert líf. Ekki fer maður að kaupa sér veiðikort og kasta rándýrum sérhönnuðum flugum í nærliggjandi vötn – ha? Af hverju ekki, spurði ég, sem kom reyndar úr hörðustu átt því að ég veiði yfirleitt ekki í vötnum. Ég fékk reyndar mínar fyrstu kennslustundir í fluguveiði við Þingvallavatn og fannst alltaf jafn gaman á þeim stórkostlega stað en svo tóku straumvötnin við og hafa átt hug minn allar götur síðan.

Eins og ég hef gaman að vaða straumár til að komast að veiðistað eða yfir ár þá heillar það mig ekki að standa upp undir hendur í vatni og kasta flugu. En það er nú bara sérviska og ég er með fullan poka af henni og bætist frekar í þá skjóðu eftir því sem árunum fjölgar.

Ég hef reyndar skotist í vatn sem er stutt frá mér, fullt af smáurriða sem bragðast vel, en það er undantekning frá reglunni. Ég býst reyndar við því að ég eigi eftir að skipta nokkrum sinnum um skoðun varðandi fluguveiði áður en yfir lýkur. Þannig hefur það verið frá því ég handfjatlaði flugustöng í fyrsta sinn.

Eitthvað sem ég hélt að væri heilagur sannleikur á einhverjum tíma var orðið að bölvaðri vitleysu ekki löngu síðar. Vissulega getur íhaldssemi í fluguveiði verið sjarmerandi enda ár og aldir síðan menn fóru að leggja flugur fyrir fiska. Eða – hver slær hendinni á móti smá tweedi í fötum, sixpensurum, fallegum bambusstöngum og breskum lávörðum sem skrefa sig niður veiðistaði með tvíhendulurkana sína eins og þeir hafi fæðst í veiðigallanum?

En að þessu sögðu er íhaldssemin nákvæmlega það sem hún er í eðli sínu, full af endurtekningum, stöð og stíf. Í mínum huga er fluguveiði eins og vel hönnuð stöng með mikla sveigju, mjúk fyrir viðkvæmar aðstæður og kröftug fyrir átök.