*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Óðinn
9. október 2019 08:11

Líf og dauði, sakir og bætur

Óðinn ræðir launakostnað banka og eftirlitsstofnana, ósanngirni erfðafjárskatts og óhóflegar bótakröfur í Geirfinnsmáli.

Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Íslandsbanka gaf út nýja þjóðhagsspá á dögunum. Í júní gerði bankinn ráð fyrir að samdráttur vergrar landsframleiðslu í ár yrði 0,7%. Í nýrri spá er gert ráð fyrir 0,1% samdrætti. Það er verulegur viðsnúningur og líklegra að ný spá bankans muni frekar ná fram að ganga en hin eldri, en nú er kominn október.

                                                  ***

Óðinn er enn þeirrar trúar að þrátt fyrir allan bölmóðinn verði hér einhver hagvöxtur í ár, þó lítill verði. Það komi í ljós þegar Hagstofan verði búin að fara nokkrum sinnum yfir tölurnar og reikna rétt, öllum að óvörum.

                                                  ***

Hagfræðin er ekki nákvæmnisvísindi eins og menn þekkja. Ronald okkar Reagan sagði eitt sinn að ef að hagfræðingar myndu búa til spurningaspil með 100 spurningum yrðu svörin 3.000.

                                                  ***

Arion banki tilkynnti í síðustu viku að greiningardeild bankans yrði lögð niður í sparnaðarskyni, en þar á bænum er verið að herða ólina á ýmsum sviðum. Óðinn telur að það sé eftirsjá í henni og greiningardeildirnar séu mikilvægar í efnahagsumræðunni. Á hinn bóginn hljóta stjórnendur hinna bankanna að velta fyrir sér hvort deildirnar skili bönkunum tekjum á móti kostnaðnum við rekstur þeirra.

                                                  ***

Kannski það væri ráð hjá þeim að sameinast um eina, sjálfstæða greiningarstofnun bankanna. Þó að það sé að vísu viðbúið að Samkeppniseftirlitið banni það eins og aðrar hugmyndir úr bankakerfinu til þess að koma í veg fyrir margverknað og sóun.

                                                  ***

Í því samhengi var umfjöllun Morgunblaðsins í síðustu viku um launakostnað viðskiptabankanna þriggja þó einkar áhugaverð. Sérstaka athygli vakti að þrátt fyrir að starfsmönnum hefði fækkað töluvert hjá Íslandsbanka frá fyrri helmingi 2018 fram á mitt ár á þessu ári, eða úr 834 í 780, um 6%, þá hækkaði launakostnaðurinn um 400 milljónir króna fyrstu sex mánuði þessa árs.

                                                  ***

Það hlýtur að vera umhugsunarefni. Óðinn er að sönnu áhugasamur um góð launakjör í landinu og verður er verkamaðurinn launa sinna, en þarna er eitthvað sem þarfnast frekari útskýringa. Ekki síst í ljósi gagnrýnisradda um að bankakerfið sé enn alltof bólgið, bæði hvað varðar umsvif og kostnað.

                                                  ***

Að sumu leyti er þar við hið opinbera að sakast. Eftir bankahrun hafa verið gerðar margvíslegar kröfur til bankanna, margar langt umfram tilefni og alls óvíst um að þær séu líklegar til þess að bæta bankakerfið og gera það tryggara gagnvart mögulegum hremmingum í fjármálaheiminum í framtíðinni. Íslensku bankarnir eru hinir best fjármögnuðu í heimi, nánast svo að til vandræða horfir. Það er ekki kostnaðarlaust og hver skyldi nú bera þann kostnað?

Og hvað um sérstaka bankaskattinn, sem hér er enn í hæstu hæðum eins og það sé siðferðislega ámælisvert og beri að refsa sérstaklega fyrir það að veita fólki fjármálaþjónustu: sjálfsagða, eðlilega og nauðsynlega þjónustu, sem enginn getur án verið í nútímaþjóðfélagi. Hver skyldi bera kostnaðinn af því?

Að ógleymdri þeirri ótrúlegu útþenslu, sem verið hefur í starfsmannahaldi bæði Seðlabanka og Fjármálaeftirliti undanfarin ár, í því skyni að auka eftirlit með þeim og alla skriffinnsku en bankarnir látnir borga brúsann. Hver skyldi á endanum bera kostnaðinn af því? Ekkert bendir hins vegar til þess að betur sé fylgst með fjármálakerfinu þó það sé meira fylgst með því, bankarnir hafa af því verulega aukna umsýslu og ómak, mest að þarflausu og sumt til óþurftar. Hver skyldi bera kostnaðinn af því?

                                                  ***

Það breytir þó ekki hinu, að innan bankanna sjálfra er mikið svigrúm til frekari tiltektar. Það er þeim nauðsynlegt til þess að veita betri og ódýrari þjónustu og um leið að gera kostnað á fjármálamarkaði næmari fyrir áhættu en síður gagnvart rekstri þeirra (og óþörfum og ósanngjörnum útgjöldum fyrir tilstuðlan hins opinbera). En er þess mikil von þegar bankar eru ekki útsjónarsamari í fjármálum en að vilja helst fjárfesta í steinsteypu undir starfsemi sína?

                                                  ***

Lægri erfðafjárskattur

Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp þar sem til stendur að lækka erfðafjárskatt á arfi undir 75 milljónum króna úr 10% í 5%. Þetta er ánægjuleg viðbót við lækkun tekjuskatts og tryggingargjalds, sem Óðinn fjallaði um í síðustu viku.

                                                  ***

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrirframgreiddur arfur beri áfram 10% erfðafjárskatt, en það er orðið sífellt algengara að arfur sé fyrirframgreiddur. Óðinn veltir fyrir sér hvort þetta kunni að reynast mistök. Það er auðvelt að fresta skattlagningu arðs. Til dæmis með því að foreldri veiti barni vaxtalaust og afborgunarlaust lán, sem síðan er gert upp við skipti á dánarbúi, oft árum eða áratugum seinna. Því gæti í frumvarpinu leynst hvati til að arfleiða ekki samkvæmt kúnstarinnar reglum.

                                                  ***

Óðinn veltir fyrir sér hvort ekki sé rétt að skoða þetta atriði betur og heimila fólki að fyrirframgreiða arf upp að allt að 75 milljónum króna. Það legði vissulega þá kröfu á sýslumenn að haldið væri utan um hverja fyrirframgreiðslu, en ætti ekki að vera óyfirstíganlegt á tölvuöld.

                                                  ***

En þó að lækkun erfðafjárskatts sé skref í rétta átt má gera við ýmsar athugasemdir. Fyrsta þá að flóknara skattkerfi er sjaldnast til bóta og vekur ævinlega upp nýjar spurningar um sanngirni mismunandi skattheimtu. Mikilvægara er þó að velta fyrir stóru spurningunni um það hversu sanngjörn innheimta erfðafjárskatts sé yfirhöfuð.

                                                  ***

Fyrir liggja fjölmargar skoðanakannanir um skattheimtu á Vesturlöndum, en það er sama hvar er spurt, alls staðar telur almenningur að erfðaskattar séu þeir ósanngjörnustu, sem ríkisvaldið leggur á. Það eru ekki bara einhverjir ríkisbubbar og börn þeirra, sem eru þeirrar skoðunar, heldur er það hvarvetna meira en helmingur sem er þeirrar skoðunar. Bresk könnun YouGov frá í fyrra er dæmigerð um þetta, þar voru 59% á því að erfðaskattar væru ósanngjarnir, en aðeins 22% töldu þá sanngjarna. Hægrimenn voru líklegri en vinstrimenn til þess að vera þeirrar skoðunar, en flokkspólitísk fylgni var alls ekki eindregin.

                                                  ***

Þetta snýst ekki aðeins um skoðun fólks eða óbeit á því að borga of mikinn skatt. Nei, þessi víðtæka skoðun að erfðafjárskatturinn sé ósanngjarn er einfaldlega rétt út frá almennum viðmiðum um sanngirni og sanngirni í skattheimtu. Hún er rétt vegna þess að í erfðafjárskattinum felst tvísköttun. Þar er verið að skattleggja reytur fólks að loknu ævistarfi, afrakstrinum sem það átti eftir þegar það var búið að greiða skatta af öllu öðru. Það er búið að greiða tekjuskatta og virðisaukaskatta og eignaskatta alla sína ævi, en þetta er það sem eftir var þegar keisaranum hafði verið goldið sitt. Og þá skal það enn skattað fyrir þá sök eina að fólk leyfði sér að deyja.

                                                  ***

Foreldrum finnast erfðaskattar ósanngjarnir vegna þess að þeir vilja af eðlisávísun eftirláta börnum sínum —  ungum sem uppkomnum —  arfleifð sína, bæta hag þeirra og tryggja efnalegar aðstæður afkomendanna allra. Að þeir hafi lagt sitt fram til ættbogans. Í ljósi þeirrar kenningar að við mannfólkið séum aðeins hýslar fyrir gen okkar, þá er ekkert eðlilegra.

                                                  ***

Nú er það að vísu svo að erfðafjárskattar eru um það bil hinir einu, sem skattyfirvöld ganga ekki harðlega fram við að innheimta. Sumpart af tillitssemi, en svo eru líka praktískar ástæður fyrir því; virði erfðabúa er oft á reiki, skiptin flókin og blandin tilfinningasemi. Sem fyrr er rakið er líka unnt að forða arfleifðinni undan hrammi skattsins með ýmsum ráðstöfunum. Einkum er það þó stóreignafólkið, sem er í aðstöðu til þess. Jón og Gunna í Æsufellinu með skuldlausa íbúð og hóflegan sparnað eiga þess færri kosti.

                                                  ***

Kannski hið ósanngjarnasta við erfðaskattana og það sem fer í taugarnar á flestum er að þar er ríkisvaldið ekki aðeins að leggjast á náinn í óeiginlegri merkingu, heldur er verið að skattleggja vonir og metnað fólks: það sem það náði að nurla saman á ævinni eftir endalausa vinnu og ráðdeild í heimilishaldi, lagt sitt fram til hagkerfisins og samfélagsins, greitt það sem því bar og alið fjölskyldunni önn. Því finnst að vonum ósanngjarnt að vera skattlagt sérstaklega fyrir að hafa náð þeim árangri í lífinu.

                                                  ***

Bætur í Geirfinnsmáli

Guðmundar- og Geirfinnsmálið er eitt hryggilegasta sakamál á Íslandi á seinni tímum. Þar voru, að því er virðist, sex ungmenni sett í gæsluvarðhald í allt að 1.533 daga, þjarmað að þeim þar til játningar lágu fyrir, og þau síðan dæmd í allt að 17 ár í fangelsi á þeim forsendum, meðan sönnunargögnin voru engin.

                                                  ***

Málavextir verða ekki raktir hér, en nú gera sakborningarnir í málinu, sem allir hafa verið sýknaðir utan eins, kröfur um bætur úr ríkissjóði. Hæsta krafan sem fram er komin nemur 1,6 milljörðum króna en ríkislögmaður hefur boðið fram 204 milljónir króna.

                                                  ***

Óðinn er þeirrar skoðunar, í ljósi þess að Hæstiréttur hefur sýknað þessa einstaklinga, að það eigi að bæta þeim það tjón sem þeir hafa orðið fyrir. Um leið og ekki verður tekin sérstök afstaða til bótafjárhæðar, þá verður að teljast nokkuð vel í lagt að krefjast 1,6 milljarðs. Mannsævin verður trauðla metin til fjár og enn síður sú ævi, sem ella hefði getað orðið. Eins og orðið „bætur“ felur í sér hlýtur það að taka til þess sem menn hafa sannanlega misst. Í ljósi alls og alls er ástæða til þess að ríkisvaldið auðsýni rausn við matið á því. Ekki verður annað séð en að þannig hafi það verið.

                                                  ***

Hér á landi hefur ekki tíðkast að dæma lögaðila til sérstakra refsibóta, eins og virðist vera krafan í þessu máli. Menn þekkja slíkt frá Bandaríkjunum, þar sem oft eru gerðar sérstakar refsingar í slíkum málum, í því skyni þá að knýja fjársterka aðila eða ríkisvaldið, til úrbóta í stærra samhengi. Það er vandséð að það eigi við hér, þar sem gerðar hafa verið stórfenglegar réttarbætur síðan, og allir valdhafar fyrir löngu úr sögunni.

                                                  ***

Verði orðið við þessarri himinháu kröfu – um fébætur langt umfram það sem þorri manna getur vænst að afla eða verja á ævinni –  er ljóst að aðrir sakborningar í málinu eða afkomendur þeirra geta fengið samskonar bætur, sem þá myndu samtals slaga hátt í 10 milljarða króna, sem aðrir skattgreiðendur yrðu að reiða af hendi. Er ábyrgð þeirra þó vægast sagt óljós.

                                                  ***

Það er heldur ekki þannig að á milli þeirra ranginda, sem sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum voru beittir, sé beint og augljóst samhengi við tilteknar bótafjárhæðir. Nei, þar hlýtur mestu að skipta að þeir hafa verið lýstir saklausir, mannorð þeirra endurreist og afsökunarbeiðni ríkisvaldsins ef ekki þjóðarinnar lögð fram. Bótagreiðslur eru sjálfsagður liður í þeirri leiðréttingu allri, en þær eiga að vera sanngjarnar, ekki ótæpilegar.

                                                  ***

Þeir sem hæst hafa gagnrýnt ríkisvaldið og þá sérstaklega ríkislögmann í þessu samhengi, virðast telja það ósæmilegt að láta sér detta í hug að hafna umræddri kröfu, einfaldlega vegna þess að kröfuhafinn hafi óumdeilanlega verið rangindum beittur. Um rangindin er ekki deilt, en við blasir að ríkið getur ekki fallist á hvaða kröfu sem er. Það er spurning um meðalhóf í fjárútlátum, ekki að honum sé vanvirða gerð með því. Eða ætti ríkið að verða við hvaða kröfu sem væri? 13 milljörðum? 130 milljörðum?

                                                  ***

Hins vegar er það vissulega umhugsunarvert hvort réttarkerfið eða þjóðin hafi dregið rétta lærdóma af dómsmorðinu, sem þarna var framið. Nýleg dæmi – án þess að verið sé að bera þau að öðru leyti saman – benda til þess að réttarvörslukerfið sé enn of áhrifagjarnt við ákalli úr samfélaginu eða háværum þrýstihópum um tilteknar niðurstöður og afslátt í réttarvernd sakborninga.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.