*

mánudagur, 25. október 2021
Huginn og muninn
19. september 2021 10:02

Lifandi Excel-skjöl

Upphaflega var gert ráð fyrir að nýr Landspítali myndi kosta 49 milljarða króna en það hefur aðeins breyst.

Horft yfir Landspítalann við Hringbraut.
Aðsend mynd

Bygging nýs Landspítala við Hringbraut var umdeild. Sumir vildu meina að byggja ætti nýjan Landspítala á öðrum stað en nú er löngu orðið ljóst að svo verður ekki. Eins og lesendur hrafnanna vita þá eru kostnaðaráætlanir opinberra framkvæmda mjög lifandi Excel-skjöl.

Í Morgunblaðinu þann 13. nóvember 2015 sagði Gunnar Svavarsson, formaður Nýs Landspítala ohf., að kostnaðaráætlunin frá 2013, sem kvað á um 49 milljarða kostnað, stæði óhögguð. Tveimur árum síðar, árið 2017, hljóðaði kostnaðarmatið hins vegar upp á tæplega 63 milljarða króna. Síðastliðið sumar birti Morgunblaðið síðan frétt þar sem greint var frá því að heildarkostnaður við nýbyggingar Landspítalans á Hringbraut myndu nema 79,1 milljarði króna.

„Það er stöðugt verið að rýna áætlanir, bæði tíma- og kostnaðaráætlanir. Það er mikilvægt að birta stjórnvöldum allar breytingar en um leið að tryggja að verkefnið sé innan áætlunarrammans og verkefnin séu í samræmi við heimildir Alþingis,“ sagði Gunnar í samtali við Moggann í júlí síðastliðnum.

Til að gæta sanngirni þá eru 49 milljarðar árið 2015 um 57 milljarðar á verðlagi ársins 2021. Núverandi kostnaðaráætlun er því 22 milljörðum hærri en sú upphaflega. Til að setja tölurnar í eitthvert samhengi þá kostuðu Hvalfjarðargöngin ríflega 13 milljarða á verðlagi ársins 2021.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.