*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Leiðari
17. október 2015 12:10

Lífsnauðsynleg ráðdeild

Hætta er á því að sveitarfélögin verði beinlínis dragbítur á þeim uppgangi sem fram undan er í íslensku efnahagslífi.

Haraldur Guðjónsson

Að öllu óbreyttu verður greiðslufall á skuldum Reykjaneshafnar í dag, en eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu voru viðræður hafnaryfirvalda og Reykjanesbæjar við lánardrottna árangurslausar, en niðurstöðu er að vænta í dag. Vandi hafnarinnar er svo sem ekki nýtilkominn. Á árunum 2005 til 2014 voru nýjar lántökur 2,8 milljörðum króna meiri en afborganir hafnarinnar af skuldum. Stór hluti þessara nýju skulda fór í að fjármagna nær stöðugan hallarekstur félagsins, en þar leika háar vaxtagreiðslur stórt hlutverk. Beiðni hafnaryfirvalda um fyrirgreiðslu hjá Reykjanesbæ var hafnað, eðlilega kannski, enda er bæjarsjóður lítt aflögufær vegna eigin fjárhagsstöðu. Stendur bæjarfélagið sjálft í viðræðum við lánardrottna sína um lausnir á skuldastöðunni, en bærinn vill fá um fjórðung felldan niður af 40 milljarða skuldum.

Staða Reykjanesbæjar er líklega verst af stærri bæjarfélögum landsins, en víða er hún slæm. Rekstur Reykjavíkurborgar hefur verið slakur undanfarin ár og langt frá þeim áætlunum sem gerðar hafa verið um afgang af rekstrinum. Þá bárust fréttir í vikunni af því að bæjarráð Garðabæjar og borgarráð hefðu skorað á ríkisstjórnina að fjölga tekjustofnum sveitarfélaga og breikka þá. Með öðrum orðum á slök skulda- og/eða rekstrarstaða sveitarfélaganna að bitna á íbúum þeirra.

Vilji til að skera niður og hagræða í rekstri þeirra virðist í algeru lágmarki. Sveitarstjórnarfólk heldur því gjarnan fram að lögbundnir tekjustofnar dugi ekki til að standa straum af þeirri þjónustu sem sveitarfélögunum er lögum samkvæmt skylt að veita. Holur hljómur er í þeim málflutningi þegar haft er í huga að sveitarfélögin eru í alls kyns rekstri öðrum en þeim ber skylda til samkvæmt lögum. Áður en betliprikið er dregið upp væri sveitarstjórnarfólki hollt að hætta að veita almannafé í verkefni sem þeim ber ekki skylda til að fjármagna.

Kópavogsbær er bæjarfélag sem virðist hins vegar frekar hafa áhuga á því að bæta við sig verkefnum en hitt. Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag er það nú til skoðunar að bæjarsjóður veiti tekjulágum Kópavogsbúum 15% viðbótaríbúðalán og það vaxtalaust í fimm ár. Slík lánastarfsemi er hvergi bundin í lög, en það segir sig sjálft að veiting vaxtalausra lána til tekjulágra einstaklinga, hversu göfugt sem markmiðið með þeirri aðgerð kann að vera, er ekki til þess fallið að bæta rekstur bæjarfélagsins eða styrkja efnahagsreikning þess.

Hætta er á því að sveitarfélögin verði beinlínis dragbítur á þeim uppgangi sem fram undan er í íslensku efnahagslífi, og reyndar er þegar hafinn. Lausnin á vanda þeirra er aðhald og ráðdeild í rekstri, en ekki aukin skattheimta á íbúa þessara sömu sveitarfélaga.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.