*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Ásdís K. & Margrét R.
17. september 2019 07:22

Liggur þitt fyrirtæki á fjársjóði?

„Fyrirtæki og stofnanir liggja á fjársjóði sem felst í þekkingu starfsfólks og getu til að bæta ferla fái þeir umboð til þess.“

Margrét Edda Ragnarsdóttir og Ásdís Kristinsdóttir, eigendur ráðgjafafyrirtækisins Gemba.

Undanfarna áratugi hefur meðal líftími fyrirtækja verið að styttast jafnt og þétt og er nú eingöngu um 15 ár samkvæmt Standard & Poor's 500 index. Það er því mikilvægt fyrir fyrirtæki sem vilja lifa af harða samkeppni að skara fram úr hvað varðar verð, gæði og afhendingartíma.

Sýnt hefur verið fram á að fyrirtæki sem virkja hugvit starfsfólks með kerfisbundnum hætti, t.a.m með aðferðum straumlínustjórnunar (e. lean), geta náð góðum árangri í því að lágmarka kostnað, stytta afhendingartíma og hámarka gæði. Aðferðafræðin verður sífellt þekktari hér á landi og er oftast kennd við Toyota í Japan og gengur út á að fjarlægja sóun úr ferlum. Þjóðskrá hefur meðal annars beitt aðferðafræðinni við afgreiðslu vegabréfa en ferlið hefur verið stytt um meira en helming.

Sóunin leynist víða og er ein þeirra ónýtt hugvit starfsfólks en einnig þekkjum við vel bið og offramleiðslu. Bið er oft innbyggð í ferlum en skapast líka þar sem ferli við ákvarðanatöku er óskýrt. Offramleiðsla í skrifstofuumhverfi felst meðal annars í ómarkvissri framleiðslu upplýsinga. En sóanirnar eru fleiri eða alls átta talsins og við ferlagreiningu koma þær gjarnan allar í ljós í einhverju formi.

Framboð á vöru og þjónustu er mikið, samkeppnin hörð og athygli viðskiptavina dreifist víða. Viðskiptavinir mynda sér skoðun á fyrirtækjum og stofnunum út frá upplifun tengt samskiptum og bera saman gæði og þjónustu við þá bestu á markaðnum, þar sem af nægu er að taka.

Á sama tíma er mikil hreyfing á vinnumarkaði, starfsfólk gerir auknar kröfur til starfsumhverfis og vill hafa meiri aðkomu að ákvörðunum ásamt þróun innan starfsins. Að halda í gott starfsfólk getur því oft verið áskorun fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Paul Akers, eigandi framleiðslufyrirtækisins FastCap og höfundur bókarinnar 2 second Lean, útskýrir framúrskarandi umbótamenningu og starfsánægju með þeim hætti að starfsfólkið væri meðvitað um að vinna þeirra fælist ekki nema að hluta í því að framleiða vöru, því öll hafa þau veigameira hlutverk, nefnilega að finna leiðir til að stytta og bæta framleiðsluferli eða í öðrum orðum að útrýma sóun.

Það sem gerir Lean aðferðafræðina að því öfluga tóli sem raun ber vitni er að það miðar að því að virkja hugvit starfsfólks til að vinna að stöðugum umbótum. Með því að fá allt starfsfólk til að vinna að umbótum og horfa á leiðir til að stytta ferla, bæta þjónustu og lækka rekstrarkostnað tappa fyrirtæki af fjársjóði sem annars liggur óhreyfður. Starfsmenn upplifa meiri starfsánægju því öll viljum við jú gera gagn og vera stolt af okkar starfi á sama tíma og viðskiptavinir verða ánægðari og líklegri til að velja þitt fyrirtæki.

Fyrirtæki og stofnanir liggja á fjársjóði sem felst í þekkingu starfsfólks og getu til að bæta ferla fái þeir umboð til þess. Það besta við fjársjóðinn er að hann mun ávaxta sig til margra ára ef menn nýta sér Lean með markvissum hætti.

Ásdís Kristinsdóttir og Margrét Edda Ragnarsdóttir eru eigendur ráðgjafafyrirtækisins Gemba og kennarar við iðnaðarverkfræðideild Háskóla Íslands.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.