Samfélag okkar mannanna er ansi flókið fyrirbæri. Við erum flest að bardúsa eitthvað, finna hvað við höfum öðrum að bjóða og reyna að draga björg í bú. Þetta eru falleg samskipti hjá milljörðum manneskja: Ég reyni að gera mitt besta fyrir þig ef þú launar mér það með seðli sem ég get látið aðra fá sem vilja hjálpa mér á sama hátt, með því að selja mér vöru eða þjóna mér.

Þetta er ekki kerfi, í þeim skilningi að nokkurt okkar hafi hannað eitt eða neitt. Þetta eru sjálfsprottin og friðsamleg samskipti. Ef þetta væri kerfi sem hægt væri að kortleggja væru breyturnar sem skiptu máli óendanlega margar. Þekkingu milljarða manneskja á eigin aðstæðum og hag væri aldrei hægt að setja inn í hagfræðilíkan.

Samfélagið er ekki líkan, sem hægt er að stilla af með því að fikta í breytum. Tilraunir velviljaðra og eldklárra stjórnmálamanna og hagfræðinga til þess að hand- og miðstýra gjörðum fjöldans eru dæmdar til þess að mistakast, því þótt einhverjir fáir hagnist stundum á þeim er það oftast á kostnað flestra annarra.

Það er erfitt að stýra verði á markaði. Þegar COVID-hamfarirnar riðu yfir lækkaði Seðlabankinn verð á peningum, sem olli því að fleiri gátu tekið húsnæðislán en ella. Samhliða vanframboði á húsnæði hækkaði húsnæðisverð upp úr öllu valdi. Sú hækkun, ásamt innfluttri verðbólgu vegna peningaprentunar, vaxtalækkana og framboðsskells á orku, olli því að verðbólgan fór á flug. Þá neyddist bankinn til að hækka vexti aftur.

Eftir situr almenningur, það fólk sem ekki hefur tök á því að verja sig gegn verðbólgu og er viðkvæmast fyrir hækkunum á framfærslukostnaði, með stórhækkaða greiðslubyrði og heimilisútgjöld. Ekki beinlínis það sem lagt var upp með.