*

laugardagur, 6. júní 2020
Leiðari
7. febrúar 2019 15:49

Listin að kaupa sér íbúð

Pálmatré, útópía og paradísarástand í nýja Vogahverfinu á sama tíma og ákall er um ódýrar íbúðir.

Aðsend mynd

Þriðjudaginn 29. janúar boðaði Reykjavíkurborg til fundar vegna samkeppni um útilistaverk í nýrri íbúðabyggð í Vogabyggð. Á samkundunni upplýsti Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður dómnefndar, að ákveðið hefði verið að skreyta byggðina við Elliðaárvog með tveimur pálmatrjám. Til þess að þau lifi af íslenskra veðráttu eiga þau að vera í upphituðum turnlaga glerhýsum. Kostnaðurinn við útilistaverkið nemur 140 milljónum króna.

Í umsögn dómnefndar eru pálmatrén sögð bera með sér andblæ suðrænna landa og vera „tákn heitra og framandi staða og menningar og fela um leið í sér minni um útópíu þar sem paradísarástand ríkir“.

Vikuna á undan, eða þriðjudaginn 22. janúar, birti átakshópur um aðgerðir í húsnæðismálum skýrslu en í hópnum sátu fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði og hins opinbera, þar með talið fulltrúar sveitarfélaga. Samkvæmt skýrslunni ríkir ekki beinlínis paradísarástand á húsnæðismarkaði heldur þvert á móti. Bent er að húsnæðiskostur heimila hafi hækkað langt umfram verðlag og laun, sem hafi haft þær afleiðingar að ungt fólk og tekjulágir hafi átt erfiðara með að kaupa eigið húsnæði. Einnig segir að ófremdarástand ríki á leigumarkaði.

Í skýrslu átakshópsins kemur fram að þrátt fyrir mikla uppbyggingu á húsnæðismarkaði í dag séu vísbendingar um að það framboð sem nú sé að myndast henti síður tekju- og eignalágum.

„Stór hluti lítilla íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu er í hverfum þar sem fermetraverð er hvað hæst,“ segir í skýrslunni. „Í þeim sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fermetraverð er lægra virðist mest vera byggt af stærri íbúðum sem geta þar með síður talist hagkvæmar. Því er nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til að auka framboð hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði til leigu og eignar.“

Stjórnmálamenn verða að geta lesið í tíðarandann. Í ljósi þess hvernig ástandið er á húsnæðismarkaði, svo ekki sé nú talað um braggamálið, dönsku stráin og það allt saman, ber ákvörðun um að verja vel á annað hundrað milljónum í pálmatré vitni um ákveðna firringu. Viðbrögð Hjálmars gera það líka. Þegar hann var spurður út í íbúa sem ekki vildu hafa pálmatré í bakgarðinum svaraði hann: „Þá ætti kannski viðkomandi að leita sér að íbúð þar sem pálmatrén blasa ekki við.“

Viðbrögðin við þessum ráðahag borgarmeirihlutans létu ekki á sér standa. Allir í minnihlutanum, hvar í flokki sem þeir standa, lýstu yfir undrun á þessari forgangsröðun en nú skýlir meirihlutinn sér á bak við hugtakið „list“. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi meirihlutans og oddviti VG, spurði „hvað má listin kosta?“ Svarið við þessari spurning er ekki einfalt nema auðvitað ef þú stýrir borg, sem glímir við húsnæðisskort fyrir þá lægst launuðu og þar sem biðlistar eftir leikskólaplássum og félagslegum úrræðum eru langir. Þegar þú stendur frammi fyrir þessum vandamálum þá liggur svarið í augum uppi. Borgarmeirihlutinn á í dag að velta fyrir sér listinni við að framleiða og kaupa ódýrt húsnæði.

Þá er bent á að kostnaðurinn við pálmatrén sé „ekki nema“ 1% af heildarlóðarverði. Það væri skrautlegt heimilisbókhald, þar sem öll útgjöld væru miðuð við hlutfall af þessu tagi, til dæmis íbúðarverði. Nú ef fólk langar í nýjan Barcelona-stól eftir Mies van der Rohe í stofuna þá er bara hægt að miða við landsframleiðslu.

Vinstriflokkum hefur verið umhugað mjög um sjálfbærnihugtakið. Líklega er vandfundið það fyrirbæri sem er ósjálfbærara í íslenskri náttúru en pálmatré í glerbúrum — upphituð með vatni frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.