*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Týr
13. mars 2018 15:29

Lítil reisn

Stuðningur Viðreisnar við vantraustið er meira en pólitísk sýndarmennska eða hræsni, það er óheiðarleiki.

Hanna Katrín Friðriksson er þingflokksformaður Viðreisnar
Haraldur Guðjónsson

Vantraustsumræðunnar á Alþingi á þriðjudag fyrir viku verður minnst fyrir tvennt: Annars vegar fyrir að hafa þjappað ríkisstjórninni saman. Hins vegar fyrir málflutning þeirra þingmanna Viðreisnar sem kinnroðalaust studdu vantraustið. 

                                ***

Það má nefnilega ekki gleyma því að í fyrra studdu þingmenn Viðreisnar ekki aðeins tillögurnar um Landsréttardómara, sem dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi í fyrra, mjög eindregið, heldur voru þeir beinir áhrifavaldar þar um. 

Þá lýsti Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, því yfir að Viðreisn hefði ekki aðeins verið andvíg lista dómnefndar, heldur beinlínis gert ráðherra afturreka með hann. „Það vorum við sem rákum hana til baka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn.“ 

                                ***

Benedikt Jóhannesson, þáverandi formaður Viðreisnar, sagði: „Við sögðum einfaldlega að listi sem uppfyllti ekki jafnréttissjónarmið, að við gætum ekki samþykkt hann.“ Og Hanna Katrín lýsti því nánar í grein um sama leyti:

„Það er ekkert launungamál að mér finnst dómnefndin hafa verið full karllæg í mati sínu á hæfni dómara. Það lýsti sér ekki síst í því hve lítið vægi dómarareynsla, og tengd verk, hlaut í heildarmatinu. Sú nálgun kom illa niður á kvenumsækjendum.“ 

                                ***

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, bætti við: „Þingflokkur Viðreisnar ítrekaði sem fyrr þá skoðun sína að gæta yrði jafnvægis milli kynja við hinn nýja dómstól, hlutfallið 10 karlar og 5 konur væri ekki ásættanlegt og myndi flokkurinn ekki standa að samþykkt listans með þessu kynjahlutfalli. Þeirri skoðun var komið skýrt á framfæri við dómsmálaráðherra.“ 

                                ***

Nú ber Viðreisn fyrir sig að hafa ekki haft allar upplýsingar um stjórnsýsluleg álitaefni málsins. Á fimm frægum fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 29.-31. maí, sem þingmenn Viðreisnar sátu, komu þó helstu stjórnsýslufræðingar háskólasamfélagsins, umboðsmaður Alþingis, formaður dómnefndar, formaður Lögmannafélagsins, formaður Dómarafélagsins og ráðherra og ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins og fóru yfir stjórnsýslulega þætti málsins tímunum saman. 

                                ***

Þingmenn Viðreisnar höfðu álit allra helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði þegar þeir samþykktu tillögur ráðherra á Alþingi, sömu tillögur og þeir þykjast nú ekkert um vita. Það er meira en pólitísk sýndarmennska eða hræsni, það er óheiðarleiki.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.