Sagan um litlu gulu hænuna hefur skilið merkilega lítið eftir sig í íslenskri þjóðarsál miðað við hve Týr hefði haldið að hún væri víðlesin. Týr er að vísu kominn af léttasta skeiði og nú þegar sósíalistar hafa lagt undir sig kennslustofnanir landsins er alls ekki víst að boðskapurinn komist rétt til skila, ef sagan er þá enn á meðal námsefnis. Það þyrfti helst að vera að minnsta kosti einn Hannes Hólmsteinn í hverri menntastofnun til að vega uppi á móti marxismanum.

***

Það varð heldur betur kátt í höllinni þegar gjósa tók á ný á svipuðum slóðum og síðast á Reykjanesinu. Gosið er þó ekki dans á rósum fyrir alla. Því fylgir nefnilega töluvert bras sem Íslendingar taka sem nokkurs konar mannréttindum. Íslendingurinn ætlast þannig til þess að þarna séu tryggð næg bílastæði, greiðfær gönguslóði alla leið að gossprungunni, öflug öryggisgæsla og tiltækur mannskapur, ökutæki og þyrlur til að bjarga öllum þeim vitleysingum sem á degi hverjum gera heiðarlega tilraun til að fara sér að voða. Og hver á svo að borga þetta?

„Ekki ég,“ svarar Íslendingurinn, á meðan hann smjattar á brauði litlu gulu hænunnar.

***

Það er allt of algengt að fólki finnist sjálfsagt að hið opinbera taki reikninginn, eða með öðrum orðum að aðrir greiði fyrir þá þjónustu sem það nýtir sér. Það er ekkert eðlilegt við það að fólk sem ekki hefur tök eða áhuga á að leggja leið sína að gosinu greiði reikninginn fyrir gosþyrsta Íslendinga og ferðamenn.

Týr er nú almennt ekki mikill aðdáandi skatta og gjalda, en meginreglan ætti þó alltaf að vera sú að notendur gæða greiði tilfallandi kostnað en ekki aðrir. Einu undantekningarnar frá meginreglunni snúa að grunnþjónustu sem þjóðarsátt ríkir um að tryggja öllum óháð fjárhag. Þannig væri eðlilegt að ríkið bæri kostnað af því að koma fólki frá eldgosi, líkt og flutninga fólks úr Heimaey forðum daga, en aftur á móti er algjör fásinna að ríkið beri kostnað af því að koma fólki að eldgosi. Þeir sem það vilja sækja eiga að sjálfsögðu að bera kostnað af því sjálfir.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 18. ágúst 2022.