*

miðvikudagur, 23. október 2019
Leiðari
22. september 2019 17:37

Litla gula hænan og verðtryggingin

Rökin fyrir hvarfi húsnæðisliðar úr verðtryggingunni eru óskýr, en ókostirnir margir, alvarlegir og ótvíræðir.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR (vinstri), og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness (hægri), hafa talað hvað afdráttarlausast gegn verðtryggingunni.
Haraldur Guðjónsson

Verðtryggingin hefur lengi verið umdeild, og verður það líkast til svo lengi sem hún er við lýði. Hún hefur þó verið sérstakur þyrnir í augum ákveðins hóps innan verkalýðshreyfingarinnar, sem í dag fer þar með mikil völd. Þar ber helst að nefna Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR.

Fyrstu almennu kjarasamningar síðan Ragnar tók við voru undirritaðir nú í vor, við efnahagsaðstæður sem fáum hugnaðist. Eftir hatrammar stríðsyfirlýsingar endaði deilan loks þegar Wow air fór í gjaldþrot. Aðeins nokkrum dögum síðar var búið að skrifa undir kjarasamninga, þar sem lögð var sérstök áhersla á hækkun lægstu launa, á sama tíma og reynt var að tryggja að launakostnaður almennt hækkaði ekki meira en fyrirtækin réðu við í því árferði sem við blasti.

Fyrir fall Wow höfðu samningsaðilar, og þá sérstaklega verkalýðshreyfingin, beitt stjórnvöld miklum þrýstingi um að koma að borðinu til að liðka fyrir samningum. Auk kröfu um skattalækkanir fyrir hina tekjulægstu – sem útfærð var með nýju skattþrepi – var farið fram á afnám verðtryggingar.

Raunar hafði Framsóknarflokkurinn undir forystu Sigmundar Davíðs lofað því fyrir kosningar 2013, og freistað þess að standa við það loforð með skipun sérstaks starfshóps, hvar Vilhjálmur Birgisson átti sæti. Lagt var til að 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán (svokölluð „Íslandslán“) yrðu bönnuð, en fullt afnám verðtryggingar var sagt krefjast meiri tíma og yfirlegu. Vilhjálmur skilaði séráliti og vildi mun róttækari aðgerðir.

Íslandslánabannið var tekið fyrir á Alþingi, en náði aldrei fram að ganga, þar sem lánin væru í mörgum tilfellum eini möguleiki lántaka á að eignast eigið húsnæði, enda greiðslubyrði þeirra lægst allra lána. Hugmyndin var hins vegar endurvakin í kjarasamningunum í vor, en auk bannsins – sem að vísu er lagt fram með svo miklum undanþágum að leitun er að þeim lántaka sem það snertir – stendur nú til að vísitala neysluverðs án húsnæðis verði grundvöllur nýrra verðtryggðra lána.

Á þetta var ekki einu orði minnst í tillögunum árið 2014, enda hafði þá húsnæðisliðurinn nýlega bjargað fjölda fólks frá gjaldþroti. Á þeim hálfa áratug sem síðan er liðinn er hins vegar mikið vatn runnið til sjávar.

Verðbólgudraugurinn hefur verið með eindæmum þægur, uppgangur mikill, og fasteignaverð hækkað gríðarlega. Þótt eigið fé fasteignaeigenda hafi hækkað mikið á blaði, finna margir ef til vill mest fyrir hærri fasteignagjöldum, og auðvitað hækkandi höfuðstól verðtryggða lánsins, þótt sú hækkun hafi vissulega verið sögulega hófleg.

Bent hefur verið á að að fasteignaverði undanskildu hafi verðlag lítið sem ekkert hækkað á tímabilinu, og því megi rekja nánast alla vísitöluhækkun þangað. Það verður hins vegar að teljast torskilin hagfræði að nú þegar sú hækkun er þegar komin inn í höfuðstólinn, og fasteignaverð stendur frammi fyrir stöðnun eða jafnvel lækkun næstu árin, þyki verkalýðsforkólfum og ráðamönnum það frábær hugmynd að aftengja húsnæði úr vísitölunni, að því er virðist án nokkurs frekari rökstuðnings en þess að það sé líklegt til vinsælda. Ókostirnir eru hins vegar margir, alvarlegir og ótvíræðir.

Það kann að hljóma vel í eyru margra kjósenda og félagsmanna VR og VLFA að geta tekið þátt í næstu hækkunarhrinu á fasteignamarkaði án þess að verðtryggingin fái sinn skerf. Þegar næsta hrun ber að garði er hins vegar hætt við að þeir hinir sömu kunni ráðamönnum litlar þakkir þegar litla gula verðtryggingarhænan neitar að kannast við lækkandi verðlag á fasteignamarkaði.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.