Augu heimsins beinast nú að Reykjavík. Nánar tiltekið Hörpunni þar sem að leiðtogafundur Evrópuráðsins fer fram næstu daga. Hrafnarnir hafa engar áhyggjur af því að skortur sé á skipulagsþekkingu til að halda svo stóran og mikilvægan viðburð.

Starfsfólk Hörpunnar er nefnilega í góðri æfingu enda fór stjórnendadagur Reykjavíkurborgar fram í Hörpunni í apríl. Eins og fram kemur í svörum mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins þá er sá viðburður síst umfangsminni en leiðtogafundur Evrópuráðsins. Þannig fengu ríflega sjö hundruð starfsmenn borgarinnar boð á stjórnendadaginn. Búist er við um 900 gestum vegna leiðtogafundarins. Hrafnarnir telja þetta vel að sér vikið hjá Reykjavíkurborg enda eru umsvif Evrópuráðsins umtalsverð eins og allir vita.

Þessi mikli fjöldi sem sótti stjórnendadag borgarinnar varpa að mati hrafnanna nýju ljósi á ráðningarbann sem sagt er að ríki í borginni vegna fjárhagsvanda hennar. Meirihlutinn í borginni er hreinlega búinn að ráða alla sem voru lausir í stjórnendastöðu í borginni. 

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.