Við getum ekki séð fyrir framtíðina. Það hefur alltaf verið ljóst, en núna vitum við að þau tól og tæki sem við höfum áður notað til að spá til framtíðar munu bregðast okkur ef við tökum ekki með inn í myndina þær gífurlegu breytingar sem eru að verða á umhverfi okkar, samfélagi og öllu regluverki.

Janúarráðstefna Festu var haldin þann 26. janúar síðastliðinn undir yfirskriftinni „Lítum inn á við“. Þar var fjallað um sjálfbærni í íslensku atvinnulífi og áhersla var lögð á hvernig fyrirtæki þurfi að undirbúa sig fyrir nýjar reglugerðir frá Evrópusambandinu varðandi upplýsingagjöf og aðra þætti sjálfbærni. Einnig var beint athyglinni að nýsköpun og hlutverk hennar við að koma með þær lausnir sem við þurfum á að halda til framtíðar, því það er sannarlega nægilegt hugvit í heiminum sem ber að nýta og áskoranir framtíðarinnar kalla á samvinnu.

Flókið og mikið regluverk

Það regluverk sem hefur verið og er í innleiðingu í Evrópu og á Íslandi er engin léttavara. Þetta er flókið og mikið regluverk sem snertir allar stoðir sjálfbærni og alla fleti í rekstri fyrirtækja og virðiskeðju þeirra.

Verið er að biðja fyrirtæki og fjármálastofnanir að setja fram upplýsingar um hina ýmsu þætti sem áður hafa verið huldir. Til að mynda mannréttindi í virðiskeðju, kolefnisspor framleiðslu vara sem keyptar eru og áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika, bæði eigin áhrif og í virðiskeðju s.s. af fjárfestingum. Þá er gerð sú krafa að loftslagsáhætta sé metin, að mikilvægisgreining sé framkvæmd til að meta þá þætti sjálfbærni sem mikilvægast er fyrir fyrirtæki að greina frá og það sé gert með ákveðnum, faglegum hætti. Einnig þarf að tryggja að stjórn hafi til að bera þekkingu á sjálfbærni og fleira. Þetta er heldur betur stórt skref frá því að týna til keypta bensínlítra, rafmagnsnotkun og flokkun á plasti.

Þessar breytingar á lögum og reglum eru ekki úr lausu lofti gripnar. Það situr enginn “blýants-nagari” í Brussel sem ákvað einn daginn að vera með leiðindi. Vísindin hafa loksins náð eyrum fjöldans og nú hefur löggjafarvaldið brugðist við með regluverki.

Staðan í heiminum er einfaldlega þannig að ef við breytum ekki þeim kerfum sem eru við líði í dag þá munum við ekki hafa náttúrulegar auðlindir, mannafla né hagkerfi til að byggja gott samfélag. Þetta regluverk er ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk en það er sett til að auka gagnsæi svo að við fáum loksins séð þau áhrif sem við raunverulega höfum á umhverfi og samfélag. Það er mikilvægt, af því að hingað til höfum í raun ekki haft hugmynd um hvaða áhrif við höfum.

Breytt hugsun og nýsköpun

Þær breytingar sem regluverkið kallar á verða dýrar, á því liggur enginn vafi. En þær munu líka skapa tækifæri og draga úr áhættu í rekstri. Þær munu kalla á breytta hugsun og nýsköpun.

Vegferð okkar við að uppfylla regluverk eins og það sem hér um ræðir krefur okkur um að finna upplýsingar og breyta ferlum þannig að við getum séð hvar við erum stödd.

Mér skilst á teymisfélögum mínum í sjálfbærniráðgjöf EY að Janúarráðstefnan hafi verið góð og vel sótt. Sjálf missti ég, því miður, af þessari góðu ráðstefnu. Ég hafði nefnilega nokkru áður ákveðið að nýta þessa helgi til þess að dvelja nokkra daga í kyrrð utan höfuðborgarinnar og líta sjálf inn á við. Þegar þema ráðstefnunnar var svo tilkynnt leit ég á það sem merki um að ég ætti að halda mig við þá ákvörðun, enda er það mér mjög mikilvægt að staldra við, líta yfir farinn veg, skoða hvar ég er stödd núna og hvert ferðinni er heitið.

Ætla ég að halda áfram á sömu braut eða breyta stefnu? Og ef svo er, hvers vegna? Í amstri dagsins er svo auðvelt að missa sjónar á kjarnanum, hvað er mikilvægt og af hverju? Ég vil vera viss um að það sem ég vel að gera, geri ég af heilum hug og af því að ég valdi það viljandi en að ég sé ekki bara að bregðast ómeðvitað við aðstæðum. Að líta inn á við dregur úr óvissu og núna get ég stigið næstu skref óhikað.

Eitt skref í einu

Vegferð okkar við að uppfylla regluverk eins og það sem hér um ræðir krefur okkur um að finna upplýsingar og breyta ferlum þannig að við getum séð hvar við erum stödd. Það er ekki fyrr en þá, þegar gagnsæið er algjört og við sjáum þau áhrif sem ákvarðanir okkar raunverulega hafa, sem hægt er að líta inn á við og spyrja hver við viljum vera í breyttum heimi, hvaða væntingar okkar hagaðilar hafa til okkar í þessum breytingum og hvar liggja okkar tækifæri til vaxtar.

Hvaða næstu skref munu færa okkur nær því að vera þau sem við viljum vera. Það er með þetta eins og annað, hér þarf að taka eitt skref í einu og gefa sér andrými til að ákveða í hvaða átt þau skref verða tekin. En þegar við erum komin með heildarmyndina þá loksins getum við farið að taka ákvarðanir og breyta. Viljandi.