Ríkisútvarpið virðist hafa ákveðið um helgina að leggja ekki áherslu á að ræða um andstæð sjónarmið í helstu umræðuþáttum sínum. Þannig var hlustendum Rásar 1 boðið upp á klukkustund af áróðri fyrir Evrópusambandsaðild í þættinum Vikulokunum og daginn eftir var áhorfendum eingöngu boðið upp á sjónarmið þeirra sem eru andvíg laxeldi í sjó í síðari hluta Silfursins sem í þetta sinn var stýrt af Agli Helgasyni.

* * *

Eins og fyrr segir voru Vikulokin helguð umræðum um alþjóðamál. Þó fyrst og fremst umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu en nánast allur þátturinn snerist um af hverju þau mál öll sömul væru ekki nú þegar til lykta leidd. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þáttastjórnandi og formaður Blaðamannafélagsins, fékk til sín þrjá yfirlýsta stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar til að ræða málið í þættinum. Þetta voru þau Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmann Viðreisnar og stjórnarformann í samtökunum Já Ísland sem hafa barist fyrir aðild að ESB, og svo Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.

Engum hefði átt að koma á óvart að viðmælendur þáttastjórnandans væru mjög áhugasamir um að aðildarviðræður við Evrópusambandið hefðust að nýju. En það sem vekur athygli við þetta allt saman er hversu miklu púðri er eytt í þessa umræðu á þessum vettvangi.

Fátt nýtt hefur gerst í Evrópusambandsmálum hér á landi að undanförnu annað en það að fyrir nokkrum vikum birtist skoðanakönnun sem sýndi að stuðningur við aðild hefði aukist miðað við könnun sem framkvæmd var af sama fyrirtæki fyrir átta árum. Rétt er að taka fram að könnunin sýndi ekki afgerandi stuðning meirihluta þjóðarinnar við aðild og í henni kom fram að þriðjungur landsmanna væri með öllu mótfallinn. Í kjölfarið lögðu alþingismenn þriggja stjórnmálaflokka sem fengu fjórðung atkvæða samanlagt í síðustu þingkosningum fram þingsályktunartillögu þar sem farið var fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Þessi þróun sætir svo miklum tíðindum að mati þáttarstjórnanda Vikulokanna að lungann úr þættinum var rætt við gesti þáttarins um „gjá milli þings og þjóðar“ og hvað væri hægt að gera til að ganga frá hinni óumflýjanlegu aðild. Talaði Jón Steindór meðal annars fyrir því að þing yrði rofið og efnt til nýrra þingkosninga. Við tók svo einræða án athugasemda annarra viðstaddra um að íslenskt samfélag væri fast í heljarklóm fámenns hóps „ólígarka“ sem væru að berjast gegn aðild Íslands. Það var ekki síður undarlegt að fylgjast svo með þáttarstjórnandanum að leita í smiðju Rósu Bjarkar til þess að fá úr því skorið hvort fyrrverandi samflokksmenn hennar í Vinstri grænum hljóti ekki örugglega láta af andstöðu sinni við aðild að Evrópusambandinu.

* * *

Full ástæða er til að ræða kosti og galla Evrópusambandsaðildar hér á landi. Hægt er að benda á kosti slíkrar aðildar sem og galla út frá fjölmörgum þáttum og er það ágætis inntak að gagnlegri umræðu um þessi mál. Ekkert slíkt stóð hlustendum Rásar 1 til boða þennan laugardagsmorgun.

* * *

Viðtal Egils Helgasonar við þrjá Seyðfirðinga í Silfrinu á sunnudag, 27. mars, var aftur á móti áhugaverðara og að öllu leyti faglegra þó svo að aðeins eitt sjónarmið hefði verið þar til umfjöllunar. Sem kunnugt er þá ríkir óánægja meðal Seyðfirðinga vegna laxeldisáforma í firðinum. Mjög fróðlegt var að hlusta á samtal Egils við Benediktu Svavarsdóttur, Sigfinn Mikaelsson og Þóru Bergnýju Guðmundsdóttur sem berjast gegn eldisáformunum og vakti málflutningur þremenninganna upp áleitnar spurningar um hvernig staðið hefur verið að málum. Viðtalið hefði hins vegar verið mun fróðlegra hefði fulltrúa andstæðra sjónarmiða verið boðið til þátttöku. En þetta mál er augljóslega ekki tæmt og vonandi verður því fylgt eftir á vettvangi Ríkisútvarpsins og annars staðar.

* * *

Eins og allir vita þá er hápunktur samkvæmislífs hvers vetrar að Grímuverðlaununum undanskildum útgáfa ársskýrslu Samkeppniseftirlitsins. Af því tilefni var sérstakt viðhafnarviðtal við Gunnar Pál Pálsson, forstjóra eftirlitsins, í síðdegisútvarpi Rásar 2 á mánudag. Fjölmiðlarýnir beið spenntur eftir að hlýða á viðtalið enda hafði hann rekist á dagskrárkynninguna fyrr um daginn og fékk hún blóðið til að renna hraðar:

„Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins fyrir 2021 er komin út. Í  skýrslunni er starf eftirlitsins á árinu reifað en í henni er meðal annars farið yfir tölulegar upplýsingar, rannsóknir og verkefni á árinu. En hvað bar hæst í samkeppnismálum á Íslandi -  Gunnar Páll Pálsson forstjóri kemur og segir okkur frá því.“

Það er enginn skortur á áhugaverðum spurningum sem hægt er að bera upp við forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Það hefði til að mynda verið hægt að spyrja hann út í furðulega framgöngu stofnunarinnar í tengslum við viðskipti N1 og Festar á sínum tíma og hinum mikla kostnaði sem fyrirtæki þurfa að bera vegna útgerðar Samkeppniseftirlitsins á „sérstökum kunnáttumönnum“ svo einhver dæmi séu tekið.

En þáttarstjórnendur skautuðu fram hjá þeirri miklu gagnrýni sem hefur verið á störf þess á undanförnum árum og lögðu sig fram við gera viðtalið eins óáhugavert og hugsast getur. Þess í stað fékk forstjórinn óhindrað að ræða mikilvægi stofnunarinnar í gagnvirki efnahagslífsins og lét meðal annars þau óborganlegu ummæli falla að ef samkeppniseftirlit yrði veikt hér á landi væri ekkert eftir en að brýna fyrir síðasta Íslendingnum sem yfirgefur Leifsstöð að slökkva ljósin eftir sig.

Í raun minnti þetta viðtal helst á kostaða umfjöllun en því verður varla trúað upp á starfsmenn Ríkisútvarpsins. Samkeppniseftirlitið er að vísu ekki ókunnugt slíkri starfsemi en það kostar birtingu fræðslumyndbanda um starf stofnunarinnar á samfélagsmiðlum.

* * *

Sala á ríflega fimmtungshlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir tveimur vikum hefur verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Ekki eru allir sáttir við hvernig Bankasýslan stóð að sölunni og er hún augljóslega ekki hafin yfir gagnrýni. Eigi að síður hefur framganga fjölmiðla verið á köflum undarleg í málinu. Þannig var óneitanlega sérstakt að fylgjast með kvöldfréttum Stöðvar 2 á mánudag. Þar fjallaði Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttamaður um söluna og lauk fréttinni með að draga sérstaklega fram hvað þrír einstaklingar hefðu hagnast mikið á viðskiptum með bréf bankans miðað við lokagengi hlutabréfanna þann daginn:

Meðal þeirra sem fengu að kaupa í síðustu viku voru þrír svokallaðir stjórnendur eða nákomnir aðilar stjórnenda. Ríkharður Daðason fjárfestir keypti þannig fyrir tæpar 27 milljónir króna. Hann er sambýlismaður markaðs- og samskiptastjóra bankans.

Ari Daníelsson, stjórnarmaður í Íslandsbanka, keypti fyrir tæpar 55 milljónir króna og Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestasviðs, fyrir rúmar 11 milljónir.

Seldu þessir aðilar sína hluti í dag, fimm dögum seinna, væri hagnaður Ríkharðs um 2,2 milljónir króna, Ara um 4,4 og Ásmundar tæpar níu hundruð þúsund krónur.“

Það verður áhugavert að sjá hvort framhald verður á þessum fréttaflutningi og hvort áhorfendur frétta Stöðvar 2 fái reglulega upplýsingar um hvað þeir Ari, Ásmundur og Ríkharður hefðu hagnast eða tapað eftir atvikum þann daginn.

Að því sögðu er rétt að rifja upp þuluna góðu sem oft var farið með fram til ársins 2008: Hlutabréfakaup eru áhættufjárfesting og þróun á gengi í fortíð er ekki ávísun á hagnað í framtíð.