Kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar hafa vakið furðu margra. En forráðamenn þessa dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur hafa sagt að ráðist hafi verið í kaupin til að bregðast við breyttu samkeppnisumhverfi eftir kaup Ardian á Mílu í fyrra. Ardian er sem kunnugt er einn stærsti innviðafjárfestir heims. En ljóst er að Birna Bragadóttir, stjórnarformaður Ljósleiðarans, og hennar fólk ætla ekki að gefa þumlung eftir í samkeppninni við frönsku risanna þrátt fyrir að fæstir sjá hver tilgangurinn er.

Hrafnarnir spá því að fyrsta víglínan í ljósleiðarastríðinu opnist í Suður-Múlasýslu. Nánar tiltekið í Breiðdal. En tilkynnt var í vikunni að Fjarðabyggð áformi að selja ljósleiðarakerfið í dreifbýli dalsins en það nær til fjörutíu notenda hvorki meira né minna. Hrafnarnir efast ekki um að stjórnendur Ljósleiðarans rífi upp veskið og yfirbjóði til að styrkja stöðu sína enn frekar á landsbyggðinni.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 19. janúar 2023.