*

mánudagur, 13. júlí 2020
Óðinn
10. júlí 2018 19:00

Ljósmæður og varnaðarorð Benjamíns

Ekki er verið að krefjast leiðréttingar heldur launahækkana sem ríkissjóður ræður ekki við í næstbesta heilbrigðiskerfi heims.

Umræðan um kjaramál á Íslandi hefur verið á algjörum villigötum um margra ára skeið. Launahækkanir í landinu hafa verið leiddar af opinberum starfsmönnum og starfsmönnum Icelandair.

                                                                ***

Opinberir starfsmenn kalla stórfelldar kröfur um launahækkanir óskir um leiðréttingu á kjörum sínum. Stöðugt er rætt um dagvinnulaun í störfum sem aldrei verða unnin öðruvísi en allan sólarhringinn.

                                                                ***

Fólk, sem flest ætlar að staldra stutt við á Íslandi og safna sér aur, streymir frá Evrópu til starfa hjá einkafyrirtækjum á Íslandi. Hjá hinu opinbera eru endalausar tæknilegar hindranir sem koma í veg fyrir að fólk að utan geti komið öllum kerfum ríkisins til bjargar.

                                                                ***

Hefur fréttastofa Ríkisútvarpsins velt fyrir þeirri spurningu upp á fréttafundum hvers vegna byggingargeirinn á Íslandi lamist ekki með jafn reglulegu millibili og Landsspítalinn?

                                                                ***

Næstbesta heilbrigðiskerfi í heimi

Heilbrigðisstarfsmenn sinna gríðarlega mikilvægum störfum í samfélaginu. Þeir hjúkra og lækna sjúkum, taka á móti börnum sem koma í heiminn og þurfa að sýna mikinn styrk þegar aðstæður eru óviðráðanlegar.

                                                                ***

Þeir sem gera samfélaginu kleift að reka svo góða heilbrigðisþjónustu eru skattgreiðendur, fólkið í landinu. Samkvæmt niðurstöðu í umfangsmikilli rannsókn á heilbrigðiskerfum heimsins sem birtist í The Lancet, sem er eitt virtasta læknatímarit heims, er Ísland með næstbesta heilbrigðiskerfi í heimi. Það er rafvirkjum, fjárfestum, sjómönnum, fjármálastjórum og öllum hinum að þakka að nægar skatttekjur eru til að standa undir næstbesta heilbrigðiskerfi í heimi. Aðeins í Andorra er kerfið betra. Launakjörin í heilbrigðiskerfinu eru orðin jafn góð eða betri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

                                                                ***

Ljósmæður sjá ekki ljósið

Ljósmæður hafa staðið í harðri kjarabaráttu í marga mánuði. Formaður samninganefndar ljósmæðra vill ekki gefa upp kröfur ljósmæðra og ber við að ríkisáttasemjari krefjist trúnaðar. Hefur einhver tekið við af Hemma Gunn með falda myndavél? Þvílík vitleysa. Auðvitað vill ríkissáttasemjarinn ekki að rætt sé um einstök samtöl á milli manna sem getur skaðað traustið. En það ríkir auðvitað engin trúnaðarskylda á kröfugerðinni.

                                                                ***

Staðreyndin er sú að formaðurinn vill ekki gefa upp kröfurnar því þær eru svo fráleiddar að meira segja almenningur og jafnvel vanfærar konur myndu hætta að styðja baráttu ljósmæðra.

                                                                ***

Yfirlýsingar formannsins í fjölmiðlum lykta af pólitík. Þegar nánar er að gáð þá var formaður samninganefndarinnar í 14. sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2016. Í þeim kosningum þurrkaðist Samfylkingin út í kjördæminu.

                                                                ***

Á þriðjudag birti fjármálaráðuneytið nokkrar staðreyndir um kjör ljósmæðra.

                                                                ***

  • Á árinu 2017 störfuðu að meðaltali 252 ljósmæður hjá ríkinu í 172 stöðugildum.
  • Meðalstarfshlutfall ljósmæðra hjá ríki árið 2017 var 69%. 
  • Um 14% ljósmæðra eru í fullu starfi.  
  • Á tímabilinu 2007 til 2017 hefur stöðugildum ljósmæðra hjá ríkinu fjölgað um 33% en fæðingum fækkað um rúm 8%. 
  • Árið 2008 fengu ljósmæður 16% hækkun umfram önnur BHM-félög sem leiðréttingu vegna viðurkenningar á aukinni menntun. Frá þeim tíma hafa ljósmæður fengið sömu hækkanir og önnur BHM-félög. 
  • Meðaldagvinnulaun ljósmæðra miðað við fullt starf árið 2017 voru 573 þús. kr. 
  • Meðalheildarlaun ljósmæðra fyrir fullt starf árið 2017 voru 848 þús. kr. á mánuði.

                                                                ***

Svo mörg voru þau orð um kjarabaráttu ljósmæðra. Það er ekki verið að krefjast leiðréttingar heldur launahækkana sem ríkissjóður ræður ekki við.

                                                                ***

Enn ein staðfestingin

Morgunblaðið sagði frá því í síðustu viku í kjölfar fyrirspurnar á Alþingi, að launakostnaður starfsmanna Stjórnarráðsins hefði hækkað um tæpa 2,3 milljarða króna á föstu verðlagi milli áranna 2000 og 2016. Hann hækkaði úr 3.980 milljónum króna árið 2000 í 6.206 milljónir króna. Starfsmenn í fullu starfi voru 469 árið 2000 en árið 2016 hafði þeim fjölgað um 50 og stóðu í 519, eða um 10,7%. Starfsmaður í fullu starfi kostaði að meðaltali 8,5 milljónir króna árið 2000. Kostnaðurinn hafði hækkað um 41% fram til ársins 2016 og nam hann þá 11,96 milljónum króna að meðaltali.

                                                                ***

VR og ASÍ

Formaður VR gekk af göflunum í vor þegar Alþýðusambandið sagði í myndbandi að kjarabætur snerust ekki um krónur heldur hvað fengist fyrir þær. Og það kallist kaupmáttur.

                                                                ***

Staðreyndin er sú að aldrei í sögu Íslands hefur kaupmáttur verið meiri og lægstu laun hærri. En staðreyndir skipta engu máli. Benjamín H. J. Eiríksson kallaði þessa hugmyndafræði helstefnu sálarinnar. Óðinn hefur áður rifjað upp orð Benjamíns frá árinu 1996 í bókinni Í stormum sinna tíða og gerir það aftur nú.

                                                                ***

„Efnahagsvandi okkar Íslendinga er fólginn í þeirri fáránlegu skoðun launþegasamtakanna og foringja þeirra, að kjarabætur séu fólgnar í miklum krónutöluhækkunum. Stefna og baráttuaðferðir launþegasamtakanna, allt frá því kommúnistar fóru að láta á sér bera eftir 1930, hafa ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir lífsins og eðli okkar þjóðfélags. Þessar aðferðir spilla hinum sönnu farsældarmálum alþýðu. Þær hvíla á meira en hundrað ára gömlum og úreltum hugmyndum um það, að í kapítalísku þjóðfélagi sé þróunin sú, að hinir fátæku verði fátækari, þegar aðrir verða ríkari, og að sköpun og skipting þjóðartekna séu sitt hvað, að stéttirnar séu aðeins tvær, öreigar og borgarar, og þær verði og eigi að berjast. Þessar kenningar eru rangar, óvísindalegar með öllu. Við sjáum það í kringum okkur, ef við lítum hleypidómalaust á hlutina. Kenningin um stéttabaráttu er helstefna sálarinnar og mikil ógæfa hverri þjóð, sem verður henni að bráð.“

                                                                ***

Það er eins og Benjamín sé þarna að tala til þess arms verkalýðshreyfingarinnar sem skilur um það bil ekki neitt í hagfræði.

                                                                ***

Óðinn ítrekar þó enn og aftur. Það mun engin sátt nást á íslenskum vinnumarkaði nema úrskurðir kjararáðs um laun æðstu embættismanna verði leiðréttir til lækkunar. Jafnvel þó að laun þessara hópa hafi hækkað minna en margra annarra starfsmanna hjá hinu opinbera.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.