Líkt og alþjóð mátti vita frá upphafi kjarasamningsumleitana, ætla Sólveig Anna Jónsdóttir og fylgihnettir hennar í Eflingu sér að knýja fram tilefnislaust verkfall. Týr er löngu farinn að hljóma eins og biluð plata þegar kemur að því að skrifa varnaðarorð um þessa herskáu byltingarsinna sem komust til valda innan Eflingar með 52% atkvæða við aðeins 15% kjörsókn. Umboð þeirra til samfélagsuppreisnar stendur því vægast sagt á brauðfótum.

***

Sólveig Anna heldur fast í handrit Karls Marx og talar um íslenska atvinnurekendur sem kúgara og arðræningja sem fyrirlíta láglaunakonur. Sem betur fer sjá þó sífellt fleiri að Sólveigu Önnu og félögum er nákvæmlega sama um láglaunakonurnar. Þau eru einungis að reyna að skapa hér jarðveg upplausnar og efnahagslegra hremminga fyrir almenning í landinu, enda vita þau að draumar þeirra um kommúníska byltingu geta ekki ræst öðruvísi. Þessar aðfarir þeirra munu bitna verst á láglauna fólki og þeim gæti ekki verið meira sama.

***

Það er fyrirséð að Sólveig Anna muni sem fyrr afskrifa þessi orð Týs sem áróður varðhunds auðvaldsins - en það virðist nú fjölga ansi hratt í þeim hópi. Þannig er verkalýðshreyfingin í heild sinni, utan Eflingar, nú orðin handbendi auðvaldsins, þar á meðal nánustu samherjar Sólveigar Önnu þar til fyrir skemmstu, þeir Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson. Þeir sjá sem er að Efling er rangstæð og þar með er félagið fullkomlega einangrað í aðgerðum sínum.

***

Sérstaklega er siðlaust af Eflingu að beina aðgerðum að ferðaþjónustunni, sem enn berst í bökkum við að rétta úr kútnum eftir þær hremmingar sem yfirgengilegar sóttvarnatakmarkanir buðu greininni upp á. Það er sennilega engin tilviljun að spjótin beinist nú að Íslandshótelum, sem fyrir skemmstu tilkynntu um fyrirhugaða skráningu á markað.

***

Athygli vekur að í þetta skiptið kjósa aðeins þeir sem aðgerðir ná til um verkfallið, en árið 2019 varði Efling það með kjafti og klóm að láta alla félagsmenn kjósa um verkfall lítils hóps sem hafði þá takmörkuð áhrif á eigin örlög. Sennilega áttar Sólveig Anna sig á að það er mun almennari andstaða gegn verkfallsaðgerðum nú og telur e.t.v. auðveldara að syngja áróðurssönginn í þröngan hóp fólks af erlendum uppruna.

Týr er skoðanapistill. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 26. janúar 2023.