*

laugardagur, 8. maí 2021
Leiðari
19. febrúar 2021 12:09

Lof þeim að lifa

Það að fyrirtæki skili hagnaði og greiði arð er ekki aðeins æskilegt, heldur merki um efnahagslegt heilbrigði.

Stjórnvöld brugðust hratt og vel við faraldrinum með efnahagsaðgerðum sínum.
Eva Björk Ægisdóttir

Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á af fullum þunga var aðdáunarvert hve hratt og vel íslensk stjórnvöld brugðust við. Markmið aðgerða voru skýr; að tryggja afkomu fólksins í landinu, koma í veg fyrir gjaldþrotahrinu annars lífvænlegra fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og plægja akurinn fyrir öfluga viðspyrnu undir lok faraldurs. Óvissan var mikil en eftir því sem áhrif faraldursins urðu ljósari fjölgaði úrræðum og fyrri úrræði voru slípuð til að fenginni reynslu.

Umræða um hlutabótaleiðina og stuðning vegna greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfresti hefur verið um margt fróðleg og afhjúpandi í senn. Gagnrýnisraddir telja aðgerðirnar fyrst og fremst þjóna fyrirtækjum landsins en ekki fólkinu. Sú gagnrýni endurspeglar það viðhorf að hagsmunir fólks og fyrirtækja séu óskildir.

Í efnahagsáfalli lúta hagsmunir fólks einkum að því að tryggja afkomu heimilanna með því að vernda störf fólksins. Við þessar aðstæður þarf að styðja við fyrirtækin til að vernda störfin.

Hlutabótaleiðinni var ætlað að skapa hvata fyrir þau fyrirtæki sem máttu þola tímabundið skerta starfsemi að lækka starfshlutföll frekar en að ráðast í uppsagnir. Þó var ekki hjá því komist að til uppsagna kæmi meðal fyrirtækja sem sáu fram á tekjubrest um óákveðinn tíma, en launagreiðslur á uppsagnarfresti reyndust mörgum þeirra þung byrði á meðan tekjur voru engar.

Stjórnvöld brugðust við því með því að bjóða fyrirtækjum stuðning vegna launagreiðslna á uppsagnarfresti, að uppfylltum ströngum skilyrðum. Úrræðið var harðlega gagnrýnt og orðræðan á þá leið að fyrirtækjum væri auðveldað að segja fólki upp störfum með opinberu fé.

Í umræðunni gleymdist þó gjarnan að án stuðningsins hefðu fleiri fyrirtæki þurft að leggja upp laupana en ella. Til að viðspyrnan geti hafist af krafti og störfum megi fjölga hratt á ný þegar til rofar, þurfa fyrirtækin að vera til staðar í sókninni.

Fyrirtæki sem nýttu sér úrræðin en notið höfðu velgengni á árunum fyrir faraldurinn urðu skotspónn gagnrýnenda, þrátt fyrir að faraldurinn hafi sannarlega haft afdrifaríkar afleiðingar á rekstur þeirra og þau uppfyllt öll skilyrði úrræðanna.

Arðgreiðslur fyrirtækja voru þannig notaðar til að gera stuðning við fyrirtækin tortryggilegan, þrátt fyrir að þær hafi komið til áður en nokkur gat vitað í hvað stefndi og þær endurspegli ekki stöðu fyrirtækjanna í faraldrinum.

Orðræða þessi endurspeglar furðuleg viðhorf til hluthafa fyrirtækja og arðgreiðslna. Hluthafar taka áhættu með því að leggja fyrirtækjum til fé gegn því að njóta sanngjarns arðs af fjárfestingu sinni, en einhverra hluta vegna þykir það ekki jafn sjálfsagt og að lánardrottnar, sem þó taka minni áhættu, fái vexti af því fé sem þeir leggja fyrirtækjum til.

Það að fyrirtæki skili hagnaði og greiði arð er ekki aðeins æskilegt, heldur merki um efnahagslegt heilbrigði. Það vill sömuleiðis gleymast að umsvifamestu fjárfestar landsins eru ekki alræmdir auðmenn heldur lífeyrissjóðirnir, m.ö.o. fólkið í landinu.

Umfjöllun fjölmiðla er enda síst til þess fallin að draga úr tortryggni, með fullyrðingum um ofurhagnað fyrirtækja og svimandi háar arðgreiðslur, hvar krónutölur eru sjaldnast settar í samhengi við þá fjárfestingu sem að baki liggur. Hinn meinti ofurhagnaður reynist oft og tíðum ofsögum sagður þegar hann er skoðaður hlutfallslega, en slík umfjöllun er ef til vill ekki jafn smellivæn.

Þótt umræðan hafi í þessum efnum farið aðeins út af sporinu fagnar Viðskiptablaðið allri gagnrýninni umræðu um meðferð opinbers fjár. Að sjálfsögðu væri æskilegt að einkaaðilar bæru áhættu sína sjálfir, en reyndin er sú að fyrirtækin eru ein af grunnstoðum samfélagsins og því deilir samfélagið óhjákvæmilega áhættu þeirra að einhverju marki. Hið opinbera ætti þó ekki að hlaupa undir bagga í áföllum nema þegar ljóst má vera að slíkar aðgerðir þjóni hagsmunum heildarinnar betur en að lofa þeim einfaldlega að falla.

Vonir standa til þess að aðgerðirnar muni skila sér margfalt til baka með kröftugri viðspyrnu, en forsenda þess er að annars lífvænlegum fyrirtækjum sé gert kleift að lifa þar til þau geta hafið sig til flugs á ný.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.