Í samráðsgátt stjórnvalda liggur til kynningar frumvarp um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Frumvarpið er liður í lofuðum aðgerðum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði síðastliðið vor. Frumvarpinu er ætlað að breyta leyfilegum skilmálum verðtryggðra jafngreiðslulána. Ákvæði draganna ná ekki til verðtryggðra jafnafborganalána. Fyrri flokkurinn hefur verið vinsæll meðal ungs fólks enda greiðslubyrði í upphafi endurgreiðslutíma hagstæðari en greiðslubyrði jafnafborganalána. (Sjá t.d. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4754 ).

Samkvæmt frumvarpsdrögunum á hámark lánstíma verðtryggðra jafngreiðslulána að verða 25 ár. Á þessu eru þó undantekningar: Sé lántaki eða annað sambúðaraðila undir 35 ára aldri er heimilt að veita verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára; sé lántaki eða annað sambúðaraðila á bili 35-40 ára er heimilt að veita verðtryggt jafngreiðslulán til allt að 35 ára og sé lántaki eða annar sambúðaraðila undir 40 ára aldri og til allt að 30 ára sé lántaki eða annar sambúðaraðila undir 40 ára aldri. Þá er heimilt að veita þeim sem eru með lágar tekjur á „næst liðnu ári“ allt að 40 ára verðtryggt jafngreiðslulán. Í þriðja lagi er heimilt að veita verðtryggt jafngreiðslulán til allt að 40 ára sé veðsetningarhlutfall vegna þess láns lægra en 50%.

Í greinargerð er upplýst að um 90% þeirra sem taka sitt fyrsta húsnæðislán séu undir 40 ára aldri. Ekki er upplýst hvernig samspil hinna ýmsu undanþáguákvæða er, en líklega snýr takmörkunin að fámennum hluta mögulegra lántaka. Hugsanlega undir 5%. Sá hópur myndi samanstanda af einstaklingum eða sambýlisfólki sem er yfir 40 ára gamalt með tekjur umfram 4,2 milljónir (einstaklingur) eða 7,2 milljónir (sambýlisfólk) á næstliðnu ári og af fólki sem sæktist eftir verðsetningu milli 50 og 70% af verðmæti húsnæðis. Spyrja má hvort eðlilegt sé að þrengja kjör svo fámenns og sértæks hóps með almennri lagasetningu án þess að vitna megi til almannaheilla eins og lýst er í aðfaraorðum umsagnar þessarar. En líklega munu þessi ákvæði þó ekki bíta fast. Í greinargerð er bent á að áfram verði heimilt að veita verðtryggð jafnafborganalán. Beinast liggur því við að þeir sem falla utan þess hóps sem undanþágur ná til taki jafngreiðslulán fyrir allt að 50% af verði húsnæðis og jafnafborganalán fyrir 20%. Í greinargerð sem fylgir frumvarpsdrögunum er vikið að því hvort þær takmarkanir á samningsfrelsi sem felast í lögfestingu hámarks og lágmarkstíma verðtryggðra jafngreiðslulána samræmist stjórnarskrá og alþjóðasamningum.

Frumvarpshöfundar telja ákvæðin standast gagnvart hvorutveggja. Ekki er vikið að því hvort víðtæk undanþáguákvæði séu í raun mismunun gagnvart ákveðnum hópi mögulegra lántakenda sem ekki falla undir undanþágurnar. Höfundur þessa pistils treystir sér ekki til að leggja mat á þann þátt, en sé litið til anda þeirra ákvæða sem snúa að banni við mismunun í stjórnarskrá og í mannréttindasáttmálum er lítill vafi á að aðgerðir sem snúa að mjög litlum minnihluta landsmanna hljóta að teljast sértæk aðgerð. Slíkar aðgerðir kunna að vera réttlætanlegar útfrá almannahagsmunum séu þeir almannahagsmunir skýrir og vel afmarkaðir. Því er ekki að heilsa í fyrirliggjandi tillögum.

Það er einnig rétt að benda á að sá hópur sem líklegast verður fyrir takmörkunum, fólk um fertugt, með tiltölulega góðar tekjur en með lítið eigið fé í fasteignum eða öðrum fjáreignum er ekki sá hópur sem telst til umbjóðenda verkalýðsfélaga á almennum markaði. Þvert á móti er slíka hópa fyrst og fremst að finna meðal þeirra sem leita sér mjög langrar skólagöngu erlendis, t.d. sérfræðilæknar og fólk með doktorspróf. Þessir hópar tilheyra flestir Bandalagi háskólamanna. Þannig má segja að inntak undanþáganna sé í raun að hafa áhrif á aðila sem ekki eru félagsmenn þeirra félaga sem gerðu kröfu um umræddar breytingar.

Frá sjónarhóli siðfræði og almennrar kurteisi má spyrja hvort eðlilegt sé að krafa sem sett er fram af hálfu verkalýðsfélaga á almennum markaði gagnvart stjórnvöldum sé útfærð á þann hátt að hafa fyrst og fremst neikvæð áhrif á meðlimi annarra stéttarfélaga. Undanþáguákvæði frumvarpsins draga stórlega úr áhrifum fyrirhugaðrar lagabreytingar á meðlimi þeirra verkalýðsfélaga sem settu fram kröfuna.

Höfundur er prófessor í hagfræði.